Hversu djúp ertu? eftir Jóhönnu Maríu Einarsdóttur

cropped-skaldverk.jpg

Hversu djúp ertu?

 

Hvaða skepnu heldurðu mest upp á?

Ætli það séu ekki hvalirnir.

Hvers vegna?

Vegna þess að þeir gefa frá sér svo mikinn hjartslátt.

Hversu djúp ertu?

Ég er mjög djúp.

Hversu djúp? Ertu til dæmis dýpri en himinninn?

Þúsund sinnum.

Nákvæmlega?

Nákvæmlega.

Segðu mér frá æskudraumi sem aldrei rættist.

Mig dreymir ekki.

Hver er uppáhaldsliturinn þinn?

Ég vel ekki á milli þeirra, ég gleypi þá alla í mig, jafnt, enda er ég sísvöng.

En hvers vegna ertu svona köld?

Ég er hvorki köld né heit, ég endurspegla einfaldlega það hitastig

sem er í kringum mig.

Hvernig nærðu fram þessum fallega ljóma sem er alltaf yfir þér?

Hann er náttúrulegur.

Verðuru nokkurn tíma andvaka?

Ég er alltaf andvaka, en sofandi í senn.

Er það þess vegna sem menn deyja stundum í þér?

Menn deyja þegar þeim er ætla að deyja, óháð því hvort mín njóti við eða ekki.

Hvert er uppáhalds andartakið þitt?

Þegar ég og land snertumst.

Hvers vegna?

Vegna þess að það er þá sem bylgjur mínar hverfa og verða að engu en samt koma alltaf nýjar öldur; líkt og það koma alltaf nýjar aldir.

Hvert er þitt best heppnaða verk?

Það var eitt sinn steinn sem ég náði að slípa svo óendanlega mjúkan

að ekkert gat nokkurn tíma rispað hann aftur.

Er þessi steinn til í dag?

Já, þessi steinn er óendanleikinn í sjálfum sér, hann mun aldrei

sverfast niður í ekkert eins og aðrir steinar. Þessi steinvala mun verða eftir

þegar tíminn hefur sorfið niður jörðina.

En hvar er þessi steinn núna?

Það veit ég ekki. Ég hef aldrei fundið hann aftur eftir að lítil stúlka tók hann með sér heim. Ég reyndi að spyrja landið frétta af honum en það getur ekki svarað því. Sjáðu til, ég svarf steininn svo vel niður að hann hætti að vera hluti af landinu og varð hluti af tímanum.

Geturðu ekki spurt tímann þá?

Nei, tíminn hefur hvorki rödd né ásýnd. Hann getur ekki tjáð sig,

og hvað þá numið skilaboð.

Er eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Já. Ekki gleyma að fullkomið jafnvægi er það sama og stöðnun.

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone