Innantóm sykurhúð

Sugar-Coated-Still-hi-res-187985-1050x750

Sugar Coated (2015) er kanadísk heimildarmynd eftir leikstjórann Michèle Hozer sem sýnd var á vegum RIFF. Hún tilheyrir hinum sérstaka undirflokki heimildarmynda sem hafa það að markmiði að svipta hulunni af augum áhorfenda og koma þeim í skilning um að lífstíll manna í hinum vestræna heimi er ekki sjálfbær og mun á endanum steypa okkur í glötun. An Inconvenient Truth (David Guggenheim, 2006) sýnir okkur fram á ógnir loftslagsbreytinga af mannavöldum, í Food, Inc.(Robert Kenner, 2008) er matvælaiðnaðurinn til skoðunar og Sugar Coated, eins og nafnið gefur til kynna, fjallar um sykuriðnaðinn og hvaða áhrif sykur hefur á heilsufar jarðarbúa.

Til að hafa sannfæringarkraft þurfa heimildarmyndir því að nýta sér kvikmyndarformið til hins ýtrasta og heilla áhorfendur með frásagnargáfu og hinum ýmsu töfrum hvíta tjaldsins.

Ljóst er að ýmsar ógnir steðja að mannkyninu, og ýmsar þeirra mætti auðveldlega forðast ef breytingar yrðu á hinum vestræna lífsstíl. Það mætti því halda að það að koma upplýsingum um ógnina til fólksins væri einfalt og áhrifaríkt. Raunin er þó önnur, og afar erfitt er að fá stóra hópa fólks til að gera marktækar breytingar á lífi sínu. Í ljós kemur að það er ekki nóg að koma upplýsingum um hætturnar til skila, heldur er megnið af vinnunni fólgið í því að koma áhorfendum í skilning um hversu alvarlegt málið er. Til að hafa sannfæringarkraft þurfa heimildarmyndir því að nýta sér kvikmyndarformið til hins ýtrasta og heilla áhorfendur með frásagnargáfu og hinum ýmsu töfrum hvíta tjaldsins.

Í Sugar Coated er sú leið farin til að ná til áhorfenda að segja frá því hvernig sykurframleiðendur höfðu áhrif á vísindalega umræðu sem varðaði sykur í því skyni að afvegaleiða neytendur og dylja sannleikann um skaðsemi hans. Ásamt þeirri umfjöllun var rætt við vísindamenn sem að sjálfsögðu vissu betur og héldu þrumandi ræður um hvílíkt eitur sykur væri og talað var við fyrrum sykurneytendur sem breytt höfðu lífi sínu og heilsu til hins betra. Í bland við viðtölin var sett upp skýr grafík sem dró fram aðalatriði úr tilvitnunum og sýndi á myndrænan hátt magn af sykri í mat og möguleg áhrif hans á líkamsstarfsemina. Upplýsingunum var því í raun komið til skila en þrátt fyrir það náði myndin ekki að hrífa mig með sér né að koma í veg fyrir að ég styngi upp í mig lakkrísreimum meðan á henni stóð.

Vandamálið er uppbygging myndarinnar. Umfjöllunarefnið er of vítt og myndina skortir þar af leiðandi áherslu. Þrátt fyrir að flestir hlutar myndarinnar séu afar áhugaverðir þá er reynt að segja frá of mörgu sem veldur því að ekki er hægt að fara nógu djúpt í neitt. Ferðafélagi minn í bíó þetta kvöldið sagðist til dæmis hefði viljað sjá mun meira um líffræðina á bak við skaðvaldinn sykur á meðan ég hefði gjarnan viljað heyra meira um aðferðir sykurframleiðenda til að blekkja neytendur og orðræðuna sem viðgengst enn í dag af hálfu matvælaframleiðenda. Einnig var aðeins stuttlega minnst á orðræðu í kringum þennan meinta skaðvald og hlutverk sykurs í menningu okkar, þar sem sætindi eru iðulega notuð til hátíðabrigða og til að sýna væntumþykju, en ekki farið frekar út í þá sálma. Í Sugar Coated er einungis tæpt á þessum flóknu og áhugaverðu umfjöllunarefnum í stað þess að kafa ofan í hvað býr að baki. Afleiðingin er sú að myndin verður hvorki fugl né fiskur og glatar þar með slagkrafti sínum.

Ofneysla sykurs er vandamál í vestrænum samfélögum og fátt er verra en há tala barna sem þjást af offitu. Aðstandendur myndarinnar gera með henni sitt besta til að vekja athygli á þessu erfiða vandamáli, en hvort sem það er ákafa þeirra um að kenna að koma sem flestu að eða einhverju öðru þá nær myndin ekki að hrífa áhorfendur með sér. Afleiðingin er sú að þrátt fyrir að myndin sé vel unnin að mörgu leyti þá er hún samhengislaus og ófókuseruð.

 

 

 

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone