Kanda kannar fortíðina

saga þeirra

„Reyndu að finna einhverja ævisögu… helst um konu.“ Þessi orð kallaði mamma oft á eftir mér þegar ég sem barn fór fyrir hana á bókasafnið. Forvitni um náungann er rík í okkur Íslendingum og ævisögur því oft með vinsælli bókum landsins. Ekki skaðar að Ísland er svo lítið að oftar en ekki þekkir maður eitthvað til þeirra persóna sem koma fyrir í íslenskum ævisögum. Ævisögur kvenna eru fyrir marga einkar áhugaverðar því þar er oftast talað meira um einkalíf og minna um fyrirtækjarekstur og annað þurrmeti, sem algengt er að sé sett á oddinn í ævisögum um karla.

 

Dramatík á dramatík ofan

 

Mamma á eftir að elska Saga þeirra, sagan mín – Katrín Stella Briem eftir Helgu Guðrúnu Johnson. Bókin segir sögu þriggja ættliða, Katrínar Thorsteinsson Briem (1881-1919), Ingibjargar „Stellu“ Briem (1902-1967) og Katrínar Stellu Briem (f. 1935). Grunnur bókarinnar er þó ævi Katrínar Stellu – Köndu – og það er hún sem er helsti heimildamaður ævisagnaritarans. Eins og heiti bókarinnar vísar til þá lítur Kanda svo á að hennar saga sé mótuð af sögu ættmæðra sinna. Fall ömmunnar frá ríkidæmi í fátækt og skömm yfir því hefur varanleg áhrif á líf móðurinnar sem verður snemma alkóhólisti. Líf hennar sveiflast stöðugt á milli öfga og í þessa óútreiknanlegu tilveru fæðist Kanda. Sem barn þvælist hún heimshorna á milli og fær hvergi að festa rætur. Hún er sífellt að kynnast fólki og kveðja, byrja og hætta í nýjum skólum, læra og gleyma nýjum tungumálum. Sem betur fer hefur hún erft sjálfstæði og útsjónarsemi ömmu sinnar og móður og tekst þannig alltaf að halda höfði upp úr vatni.

Saga þessara þriggja kvenna er með eindæmum dramatísk. Skilnaðir, lausaleiksbörn, ríkidæmi, drykkja, eldsvoðar, mannrán, ferðalög, erfiðisvinna, fátækt, sjálfsmorð, heimsstyrjaldir… þessi bók fjallar um þetta allt og meira til. Ég stóð mig að því að geta hreinlega ekki lagt hana frá mér. Þessu má að sjálfsögðu að miklu leyti þakka hinum ríka efnivið bókarinnar en ekki síður höfundinum Helgu Guðrúnu. Það er mikil mýta að ekki sé hægt að skrifa slæma bók um gott efni frekar en elda slæma máltíð úr góðu hráefni. Höfundurinn þarf að hafa gott skynbragð á tón og stíl, gæta samræmis og vanda sig við öll smáatriði svo góð saga fái að njóta sín til fullnustu.

 

Lesandinn leiddur áfram

 

Eitt af því sem Helga Guðrún hefur lag á er að gera söguna skýra og greinargóða. Bókinni er skipt upp í nokkra aðalkafla sem innihalda stutta millikafla. Þessir millikaflar eru í þægilegri lengd sem virðast kalla á lesandann að lesa bara aðeins meira og svo aðeins meira en það. Frásögnin fylgir einfaldri línulegri tímaröð þannig að eitt tekur við af öðru. Flæði bókarinnar er með því betra sem ég hef kynnst í íslenskum ævisögum og mætti raunar notar bókina sem skólabókardæmi um hvernig einn kafli er látinn undirbúa þann næsta. Málfarið er jafnframt einfalt og tilgerðarlaust og frásögnin vel ígrunduð. Þótt greint sé frá mörgu um ótal aukapersónur er lítið um óþarfa upplýsingar. Helga Guðrún fellur ekki í þá gryfju að minnast á hvert smáatriði líkt og svo margir ævisagnaritarar sem vilja ólmir að lesandinn geri sér grein fyrir allri sinni undirbúningsvinnu.

 

Stóru smáatriðin

 

Frásögnin er í þriðju persónu þátíð en stundum, og frekar óreglulega, er skipt yfir í þriðju persónu nútíð. Sá texti er aðgreindur frá aðaltextanum með skáletri. Þessi textabrot eiga sjálfsagt að brjóta upp aðalfrásögnina og færa lesandann nær aðalpersónunum og er það í sjálfu sér ágæt hugmynd. Því miður gerir þetta stílbrigði lítið annað en að rugla mann í ríminu því hægt er að benda á fjölmarga óskáletraða texta þar sem sjónarhornið er jafn nálægt aðalpersónunni og í þessum persónulegu skálletruðu brotum. Auk þess rakst ég allavega á einum stað á texta sem var í þriðju persónu nútíð án þess að vera skáletraður.

Annar galli á bókinni, sem reyndar er landlægur meðal íslenskra ævisagna, er að stundum eru meðfylgjandi myndir of framarlega í bókinni. Þegar síðu er flett að nýrri opnu og ljósmynd blasir við þá veldur eðlileg forvitni því að maður tekur örstutta pásu frá lestrinum og skoðar myndina og myndatextann. Ef myndatextinn kemur fram með ósagðar upplýsingar þá er búið að eyðileggja spennuna fyrir lesandanum. Almennt séð er þó mjög lítið í ytri eða innri umgjörð textans sem getur pirrað og er greinilegt að vandað hefur verið til verka. Persónulega hefði ég viljað að myndirnar þrjár á kápunni af aðalsöguhetjunum hefðu verið af þeim á sambærilegum aldri í stað þess að sýna mynd af ömmunni og mömmunni á svipuðu reiki en mynd af Köndu sem barn, en þetta er sjálfsagt smekksatriði. Eins truflar titillinn mig örlítið; ekki aðeins rímið heldur líka ósamræmi á ákveðnum og óákveðnum greini í orðinu saga.

 

Alveg eins og mamma?

 

Í heildina á litið er Saga þeirra, sagan mín – Katrín Stella Briem afbragðsævisaga. Bókin er bæði spennandi og áhugaverð, gefur góða sýn á líf einstaklinga og þjóðfélags og feikilega skemmtilega skrifuð. Einn rauður þráður bókarinnar er að allir verði að einhverju leyti eins og mamma sín. Sjálf veit ég nú eftir lestur þessarar bókar að ég deili áhuga mömmu minnar á góðum ævisögum um konur.

 

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone