Kerlingabækur – Málþing

Poem-6
Málþingið Kerlingabækur verður haldið í Tryggvaskála á Selfossi í kvöld, fimmtudaginn 19. október, klukkan 20.
Dagskráin er fjölbreytt og áhugaverð, meðal annars verður prófessor Dagný Kristjánsdóttir með fyrirlestur um kerlingarbækur og kvennabókmenntir, Guðrún Eva Mínervudóttir fjallar um feril sinn og les úr völdum verkum, einnig mun Hera Hjartardóttir flytja frumsamin lög og ljóðahópurinn Svikaskáldin troða upp, ásamt fleiri dagskrárliðum sem sjá má á meðfylgjandi fréttatilkynningu hér að neðan.
Af þessu tilefni fengum við einn skipuleggjandann, Hörpu Rún Kristjánsdóttur, til að svara nokkrum spurningum um þetta mikilvæga og spennandi málefni.

Spurning: Hver er innblásturinn fyrir þessu málþingi?
Harpa: Bókabæirnir Austanfjalls standa árlega fyrir þematengdu málþingi, áður höfum við t.d. fjallað um barnabækur og glæpasögur svo eitthvað sé nefnt. Ég hef í mínu námi skrifað nokkuð um bókmenntir kvenna og hef mikinn áhuga á því efni. Ætli innblásturinn hafi ekki sprottið á einhverjum Bókabæjafundi? Svo er afskaplega gefandi að vinna með skapandi manni eins og Jözuri.

Sp: Hvers vegna er mikilvægt að beina ljósi að konum í skáldskap?
Harpa: Stutta svarið er, að það er kominn tími til. Konur hafa í gegnum aldirnar átt erfitt uppdráttar í bókmenntaheiminum sem og annarstaðar. Það er sem betur fer að breytast, en betur má ef duga skal. Við lifum á tímum dásamlega femínískrar undiröldu. Því er ekki úr vegi að skella sér á málþingsbrimbretti og fagna því hversu langt við erum komin og heiðra nokkur kvenskáld í leiðinni.

Sp: Kerlingabækur, hvernig varð þetta nafn fyrir valinu?
Harpa: Hugtakið er ef ég man rétt komið frá Sigurði A. Magnússyni sem skrifaði grein árið 1964 sem bar titilinn “engu að kvíða – kellingarnar bjarga þessu” og fjallaði þar um kellingarnar sem hann taldi hafa framtíð íslenskra bókmennta á höndum sér, og væru (að hans sögn) varla pennafærar á íslensku. Uppúr þessu spretta hugtök eins og kerlingabækur og kaffibollaþvaður sem loddi við bækur höfunda eins og Guðrúnar frá Lundi, Elínborgar Lárusdóttur, Þórunnar Elfu og fleiri. Upphaflega var hugmyndin að málþingið tengdist Guðrúnu frá Lundi í megindráttum. Síðan var horfið frá þeirri hugmynd og ákveðið að skapa meiri breidd. Titillinn hélt sér, enda engin skömm hjá yngri skáldum að skipa sér undir sama hatt og þessar eldri skáldstjörnur okkar.

Sp: Tvö erindi koma inn á persónulegt líf skáldkvenna, þ.e. Guðrún Eva að segja frá sínum ferli og Birgir að ræða æskuminningar sem tengjast Guðrúnu frá Lundi. Telur þú mikilvægt að ræða líf skáldkvenna, jafnt og verk þeirra, og ef svo, hvers vegna?
Harpa: Ég held að okkur sé eðlislægt að hafa áhuga á fólki, sérstaklega fólki sem verður svolítið þekkt. Fólk keppist enn við að finna raunverulegar fyrirmyndir persóna Guðrúnar frá Lundi sem og annarra rithöfunda. Þessvegna er áhugavert að vita hvað fólk er að hugsa, hvaðan það kemur og hver innblásturinn er. Þó flestar skáldsagnapersónur séu vissulega uppspuni og eigi í besta falli frændfólk í raunveruleikanum. Svo má ekki gleyma að þessar konur eru fyrirmyndir ungra skálda sem geta lært af þeim hvað varðar vinnulag og svo margt fleira.

Sp: Og að lokum, hvað myndir þú vilja sjá breytast varðandi orðræðu um skáldkonur, til dæmis hér á Íslandi?
Harpa: Ég sat einu sinni námskeið hjá Bergljótu Kristjánsdóttur sem hét Konur og ljóð. Þar var fjallað um á annan tug íslenskra ljóðskálda sem áttu það sameiginlegt að vera konur. Þar sammæltumst við um að leggja niður orðið skáldkona, og tala bara um skáld, eða að minnsta kosti segja alltaf skáldkarl þegar talað væri um karlkyns skáld. Það væri kannski ágætis skref í jafnréttisátt.

Við þökkum Hörpu kærlega fyrir góð svör og óskum öllum góðs gengis á málþinginu.
Forsíðumynd hér að ofan er tilvitnun í gríska skáldið Saffó.
Kerlingabækur - LOKAÚTGÁFA
Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone