Kókaín og kreppa: Gildran eftir Lilju Sigurðardóttur

Gildran

Á dögunum kom út glæpasagan Gildran eftir Lilju Sigurðardóttur, rithöfund og leikskáld. Sagan gerist á árunum eftir efnahagshrunið og segir frá Sonju, fráskilinni móður, sem leiðist út í eiturlyfjasmygl í örvæntingafullri tilraun til þess að endurheimta son sinn og búa honum betri framtíð. Inn í söguna blandast sögur tollvarðarins Braga, einmana manns sem neitar að fara á eftirlaun og Öglu, gerspillts bankastarfsmanns og ástkonu Sonju. Sagan er sögð í stuttum köflum sem segja söguna frá sjónarhorni ólíkra persóna; Sonju, Braga, Öglu og loks Tómasar, ungs sonar Sonju. Allar aðalpersónurnar eiga það sameiginlegt að vera að ganga í gegnum persónulega erfiðleika. Sonja fær takmarkað að umgangast son sinn og er föst í gildru eiturlyfjasmyglsins, Agla sætir rannsókn sérstaks saksóknara, grunuð um aðild í markaðsmisnotkun auk þess sem Bragi fylgist með eiginkonu sinni hverfa inn í algleymi alzheimersjúkdómsins.

Ástir og örlög kvenna

Gildran er auglýst sem glæpasaga en hún fellur ekki eingöngu í þann flokk og jafnvel ekki fyrst og fremst. Í sögunni er lögð áhersla á hvernig Sonja reynir að bæta líf sitt á meðan hún horfist í augu við ömurlegar aðstæður sínar, en hún er þvinguð til að smygla eiturlyfjum. Hún er fórnarlamb á margan hátt og pikkföst í vítahring. Agla leikur stórt hlutverk innan sögunnar og þarf að undirbúa sig undir að taka afleiðingum gjörða sinna. Við fáum góða innsýn í hugarheim tollvarðarins Braga og einnig Tómasar litla, sem er aðframkominn af söknuði eftir móður sinni. Inn í þetta fléttast ástarsagan, ekki aðeins ástarsamband Sonju og Öglu, heldur einnig ást Braga á deyjandi eiginkonu sinni þótt það samband sé vissulega í aukahlutverki.

Hér er á ferðinni prýðilegur krimmi og ef Lilja heldur áfram á þessum nótum í framtíðinni má Yrsa fara að gæta sín. Við gætum eignast nýja glæpasagnadrottningu.

Eðli ástarsambands Sonju og Öglu, sem og samskipti þeirra, gætu virst klisjukennd en það eru þau alls ekki. Þetta verður einkum ljóst ef litið er til þess að báðar konurnar burðast með leyndarmál og snemma í bókinni er greint frá því að ástarsamband þeirra hafi átt stóran þátt í því hvernig komið er fyrir Sonju. Agla er drykkfelld og á erfitt með að viðurkenna þær tilfinningar sem hún ber til Sonju vegna eigin fordóma. Hún er hins vegar sannfærandi persóna og samband þeirra Sonju er alveg einstaklega vanvirkt, eins og mætti ímynda sér að samband tveggja gífurlega vansælla einstaklinga gæti verið. Það er lögð það mikil áhersla á sambandið í sögunni að segja má að Gildran sé í raun glæpasaga með ástarsöguívafi, en þó laus við öll rauðuseríuáhrif.

Ný glæpasagnadrottning?

Sem mikill aðdáandi glæpasagna verð ég að segja að Gildran kom skemmtilega á óvart. Bókin er þriðja bók Lilju sem hefur áður sent frá sér bækurnar Spor (2009) og Fyrirgefninguna (2010) auk þess sem hún samdi leikritið Stóru börnin sem var valið leikrit ársins á Grímuverðlaunahátíðinni 2014. Handritið að Gildrunni var selt til franska forlagsins Métailié nokkru áður en bókin kom út en Métailié hefur áður gefið út sögur íslenskra rithöfunda, þar á meðal Arnaldar Indriðasonar og Steinars Braga. Ég var því með ákveðnar væntingar til bókarinnar en ekki of miklar því vissulega gæti íslensk saga um eiturlyfjasmygl ekki verið annað en ein stór klisja frá upphafi til enda ekki satt? Nei, svo sannarlega ekki.

LiljaSig

Lilja Sigurðardóttir

Gildran er vel útfærð og jafnvel þau atriði innan bókarinnar sem eru ýkt (t.d. parturinn með tígrisdýrinu á heimili eiturlyfjabarónsins í London) eru sett fram þannig að þau ganga upp. Lilja er mjög góður sögumaður og hefur greinilega unnið rannsóknarvinnuna sína. Hún útskýrir vel hvernig starfsemi tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli er háttað og allt ferlið við smyglið virðist trúverðugt. Lilja hefur góð tök á frásagnarforminu og þó svo að það sé ekkert nýtt undir sólinni í heimi glæpasagna tekst henni að komast hjá því að falla í þá gildru að ýkja persónur eða aðstæður eins og oft vill verða í sögum sem þessum. Bókin er vel skrifuð og kaflarnir eru stuttir. Því formi er undirrituð mjög hrifin af þegar kemur að glæpasögum því stuttir kaflar geta bætt flæði sögunnar. Persónusköpunin er einnig til fyrirmyndar, persónurnar eru vel skrifaðar, trúverðugar og viðbrögð þeirra við aðstæðum virka eðlileg. Framvinda sögunnar er hröð og engu er ofaukið, hvorki í persónusköpun eða óþarfa málalengingum.

Það er ekki á allra færi að skrifa góða sakamálasögu og það er sérstaklega vandmeðfarið þegar glæpirnir eiga sér stað á fámennri eyju eins og Íslandi, því það er hætt við að söguþráðurinn verði ýktur og ósannfærandi ef höfundar reyna að yfirfæra atburði sem gætu átt sér stað í bandarískri glæpasögu yfir á litla Ísland. T.d. væri skotbardagi á milli gengja fyrir utan Kringluna seint talinn raunsær. Hér er á ferðinni prýðilegur krimmi og ef Lilja heldur áfram á þessum nótum í framtíðinni má Yrsa fara að gæta sín. Við gætum eignast nýja glæpasagnadrottningu.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone