Kunstschlager verður að stofustássi

Kunstschlager-hópurinn

Í Listasafni Reykjavíkur-Hafnarhúsi gefur um þessar mundir að líta þykkt, grátt tjald sem hangir fyrir rými á annarri hæð safnsins. Þar er lítið vinalegt skilti sem upplýsir gesti um að verið sé að setja upp nýja sýningu. Sirkustjaldið fékk að gægjast bak við tjaldið og var þar allt á iði. Rýmið, sem áður hýsti súpubar og veitingaaðstöðu, hefur verið viðarklætt og málað í skærum litum, gólfið er þakið skrautlegum dúk og við stóra gluggann sem snýr út að höfninni voru fimm ungir listamenn að bisa við að festa upp fallega bleika glerfilmu. Í rýminu er verið að undirbúa opnun á Kunstschlager stofu í Hafnarhúsi, en hún opnar laugardaginn 21. mars, kl 16.00.

Kunstschlager er hópur ungra listamanna sem ráku Kunstschlager-galleríið á Rauðarárstíg í tvö og hálft ár frá því um sumarið árið 2012 fram í janúar 2015. Einhverjar mannabreytingar hafa orðið síðan galleríið opnaði fyrst, en nú eru 8 listamenn í hópnum, flest innan við þrítugt. Þau hafa sömuleiðis ferðast um sem listahópur og haldið samsýningar innanlands sem utan. Elín Edda Pálsdóttir fékk að setjast niður með tveimur af myndlistarmönnum hópsins, Þórdísi Erlu Zoëga og Hrönn Gunnarsdóttur, og spyrja þær út í Kunstschlager stofu, sýningarröðina sem þau munu halda í D-sal Hafnarhússins í sumar og framhaldið.

Mynd: Elín Edda Pálsdóttir

Mynd: Elín Edda Pálsdóttir

Gætuð þið byrjað á því að segja aðeins frá því hvað Kunstschlager er?
HG: Já, þetta byrjaði áður en við tvær vorum komnar í hópinn þegar krakkarnir voru að leita sér að vinnustofu og fundu síðan rými sem var með möguleika á sýningarrými líka. Þannig að þetta gallerí byrjaði eiginlega svona óvart.
ÞEZ: Þetta var sumarið 2012. Frá þeim tíma er svo fólk búið að koma og fara. Ég held að meðlimir Kunstschlager, þeir sem eru og hafa verið, séu örugglega allt í allt 15 til 16 talsins.
HG: Já, örugglega. En við komum báðar inn síðasta sumar, svona í enda sumars.
ÞEZ: Alveg á fullkomnum tíma!

Hvernig kom þessi sýning í Hafnarhúsinu til?
ÞEZ: Hann Hafþór, sem er safnstjóri, hafði samband við Helga (Þórsson) og Gullu (Guðlaugu Míu Eyþórsdóttur) og bauð okkur þetta af því að hann vissi af því að við höfðum misst húnæðið okkar. Mér skilst að hugmyndin hafi verið sú að hann vissi að við hefðum verið mikið að koma fram fyrir hönd listamanna frá þessu tímaskeiði, þessari yngri kynslóð sem hefur kannski ekki fengið að sýna nógu mikið. Þannig að það má segja að við höfum verið að brúa bilið, kynslóðabilið, það er.

Hvernig verður Kunstschlager stofan sjálf?
ÞEZ: Þetta verður svona grautarpottur.
HG: Hún verður litrík.
ÞEZ: Þetta verður í rauninni Kunstschlager innsetning, þar sem við bjóðum öðrum listamönnum að koma og sýna. Það verður vídeóklefi og hljóðverka-skúlptúr og við fáum þá fólk til að senda okkur hljóðverk og vídeóverk. Svo verður „korkurinn“ líka –
HG: Þar verður tvívíð list til sýnis.
ÞEZ: Þetta er allt efni sem verður sýnt í rúllandi dagskrá og það verða nokkuð ör skipti og margir í einu til þess að gefa sem flestum tækifæri á að sýna.
HG: Það má búast við því að Kunstschlager stofan taki miklum breytingum á tímabilinu.
ÞEZ: Við ætlum líka að hafa svolítið öra viðburði. Reyna til dæmis að nýta fimmtudagana þegar safnið er opið til átta og vera með viðburði þar sem við fáum til dæmis til okkar tónlistarfólk eða höldum ljóðakvöld.

En hvernig verður svo sýningarröðin í D-sal Hafnarhússins?

ÞEZ: Hún hefst 12. maí.
HG: Það verða sex mismunandi sýningar í D-salnum, sem standa yfir í tvær vikur hver.
ÞEZ: Já, við erum búin að skipta þessu tímabili á milli okkar í sex sýningar og því sýningartímabili lýkur 20. september.
HG: Við hugsum þetta þannig að við fáum fleira fólk með okkur í þeim sýningum, þannig að við verðum svolítið sýningarstjórar í leiðinni. Við búum til sýningu eftir okkar höfði; en það verða ekki einkasýningar.
ÞEZ: Nei, það snýst frekar um að ráða þemanu eða heildarhugmyndinni. Við veljum þá listamenn sem okkur líst vel á í það, svo þessar sýningar verða allar mjög ólíkar. En það verður smá samráð innan hópsins hverjir koma með okkur.
HG: En það er kannski of snemmt að fara að gefa nokkuð upp um það, ekkert hefur verið formlega ákveðið.

IMG_0693

Hvatvísi og litagleði

Mynduð þið segja að það væri einhver sérstök hugmyndafræði á bak við Kunstschlager? Núna eruð þið til dæmis að tala um að fá inn unga listamenn, er það grunnstef hjá ykkur?

ÞEZ: Nei, ekki beint. Maður sækir náttúrulega í sinn aldurshóp, við erum kannski ennþá ungir listamenn. En ég held samt að það sé svolítil hvatvísi – að vera ekki endilega að hugsa allt of mikið heldur bara gera, samt ekki endilega á anarkískan hátt. Það er drifkraftur og litagleði og formgleði. Að það séu engar reglur, allt er leyfilegt.

Hvernig mynduð þið lýsa Kunstschlager fagurfræðinni?
ÞEZ: Það er viss fagurfræði í gangi sem er kannski erfitt að útskýra með orðum. Það er samt greinilegt þegar maður skoðar myndir frá Kunstschlager að hún sé til staðar.
HG: Það er svolítill leikur.
ÞEZ: Já, mikil leikgleði. Við gerum mikið af því að tala um Kunstschlager-stílinn og Kunstschlager-stemninguna, líka til þess að virkja fólk til að taka þátt í þessari stemningu með okkur. Við erum til dæmis að fara að vera með sýningu á Eiðistorgi núna í næsta mánuði sem verður bara ótrúlega fyndið.
HG: En það er ekki einhver stíll sem er alveg ákveðinn þannig, það er bara létt og leikandi yfirbragð.
ÞEZ: Það er líka visst frelsi í því fyrir okkur, sem erum öll svona ólíkir listamenn, að fara inn í þennan ákveðna Kunstschlager-stíl, það er gaman að missa sig í allt öðru en maður gerir vanalega. Samt er stíllinn í stöðugri þróun, þegar það koma nýir einstaklingar inn með ný sjónarmið.

Mynd: Þórdís Erla Zoega

Mynd: Þórdís Erla Zoega

Sjaldséð tækifæri

Felast nýmæli í því að Hafnarhús, sem er með stærstu söfnum landsins, sé að bjóða svona ungum listahópi inn á safnið til að halda eigin sýningar þar?
ÞEZ: Ég veit ekki til þess að það hafi verið gert áður.
HG: Nei, ég held ekki.
ÞEZ: Við vildum samt ekki leggja of mikla áherslu á það í kynningunni, að þetta hafi aldrei verið gert áður, því við bara vitum það ekki. En ekkert neitt nýlega að minnsta kosti.
HG: Ekki á þennan hátt…
ÞEZ: Nei, að gefa okkur bara heilt rými inni á safninu og láta okkur ráða alveg öllu sem gerist á þessum fermetrum!

Kom eitthvað fram, þegar þið voruð fengin í að sýna í Hafnarhúsi, til hvers safnstjórinn, Hafþór, ætlaðist af hópnum, eða var það alveg opið?
HG: Hann vildi náttúrulega bara fá okkur inn, hann vissi alveg hvað hann var að fara út í og við hverju hann ætti að búast.
ÞEZ: Sem er náttúrulega mjög mikið traust. Við höfum vakið athygli með ýmsum viðburðum á síðustu misserum og staðið svolítið í því að halda stórar sýningar.
HG: Honum fannst líka svo leiðinlegt að það hefði lokað hjá okkur [um áramótin] þegar við vorum að gera svo margt.
ÞEZ: Já, hann sagði alveg að þetta mátti ekki missa sín úr myndlistarsenunni, mætti ekki detta út. Sem ég held að sé ein ástæða þess að við fengum þetta tækifæri.

Þið eruð ekki eina stofan á hérlendu listasafni, til dæmis opnaði Vasulka-stofa í Listasafni Íslands fyrir ári síðan. Er opnun Kunstschlager stofu hjá Hafnarhúsinu einhverskonar andsvar við því?
HG: Það er okkar hugmynd að það sé Kunstschlager stofa, við völdum það nafn sjálf.
ÞEZ: Já, það er enginn tenging á milli okkar, svo er líka til Kjarvalsstofa. Þetta lá bara svo vel við, það var alltaf verið að opna einhverjar stofur út um allt og við vildum bara eiga okkar stofu líka!

Það er ekki lengur opinn basar þar sem allt er til sölu heldur er þetta orðin virðuleg stofa?
ÞEZ: Já, fyrst við vorum komin inn á safn þá fannst okkur við eiginlega þurfa að vera núna Kunstschlager stofa.

Er einhver stöðnun í listheiminum sem verið er að bregðast við með því að fá svona unga listamenn inn á safnið?
HG: Það er alltaf þannig að þeir sem eru nýjastir þurfa að berjast fyrir því að fá að sýna á svona stöðum. Við erum kannski að opna leið fyrir aðra í því.
ÞEZ: Já, ég hugsaði mér að það væri að minnsta kosti tíu ár í að ég fengi eitthvað svona tækifæri. Það er náttúrulega svolítið letjandi, að búast ekki við því að maður verði tekinn alvarlega fyrr en maður er kominn á fertugsaldur, og þá aðeins ef allt gengur að óskum. Því maður er bara að sjá listamenn á þeim aldri inni á þessum söfnum. En það þarf ekki að vera svoleiðis, það er alveg pláss fyrir alla, en má þá bara vera með örari dagskrá. Sem við ætlum einmitt að gera og gefa sem flestum tækifæri á að sýna með okkur.

Mynd: Þórdís Erla Zoega

Mynd: Þórdís Erla Zoega

Kunstschlager á rottunni

Vitið þið eitthvað hvað verður svo um hópinn eftir að þið hættið að sýna í Listasafninu í september?ÞEZ: Það er nú eitthvað í deiglunni sem er ekki komið opinberlega á hreint, eitthvað mjög spennandi. En ég held að Kunstschlager sem art collective muni alveg lifa áfram.

HG: Já, hópurinn, þó að við verðum ekki endilega með eigið sýningarrými.
ÞEZ: Það er svolítið takmarkið, það er mjög gaman að halda pop-up sýningar og álíka, en þó er ekkert útilokað að við fáum aftur rými í framtíðinni. Svo eru líka bara allir ungir og jafnvel að fara að læra meira og fara út. Þá fara einhverjir en nýir bætast við.

Hverju má svo fólk búast við á opnuninni á laugardaginn?
ÞEZ: Það verður eiginlega bara að koma í ljós! Helgi verður líklegast í lúgunni eitthvað að kokka.
HG: Hann vildi nú ekki alveg gefa það upp strax hvað hann ætlar að elda, en það verður örugglega frábært.
ÞEZ: Líklegast eitthvað í stíl við pylsurnar sem hann gerði á sýningunni okkar á Hjalteyri, sem voru vafðar í fars og með ýmsu óvæntu meðlæti. Þetta er svona furðuleg matseld, eitthvað sem er gott – en lítur kannski ekki svo vel út!

 

Ég þakka Þórdísi og Hrönn fyrir og leyfi þeim að halda áfram með undirbúningin. Við mælum hjartanlega með því að allir sem komast skelli sér á opnun Kunstschlager stofu laugardaginn 21. mars kl. 16.00 og fylgist svo vel með þeim viðburðum sem hópurinn mun standa að í Hafnarhúsinu í sumar.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone