Lausnin: saga um fyrsta heims vandamál

02

Bókin Lausnin eftir huldukonuna Evu Magnúsdóttur hefur fengið mikið umtal undanfarna daga. Þann 16. október birtist opnuviðtal við höfundinn í Fréttatímanum, þar sem hún sagði frá innblæstrinum að baki sögunni: æsku sinni, menntun og spennandi ferðalagi hennar til Íran þar sem hún lifði á aðeins einni evru á dag. Nokkrum dögum síðar kemur í ljós að Eva er ekki til. Blaðakona Fréttatímans var blekkt og enginn veit hver höfundur bókarinnar er. Eva er ekki eini hulduhöfundurinn sem Forlagið hefur á sínum snærum en það gefur einnig út bækur Stellu Blómkvist sem hefur skrifað þó nokkrar glæpasögur án þess að upp hafi komist um hver hin „raunverulega“ Stella er.

“Eva Magnúsdóttir”

Ýmsar kenningar eru uppi um hver “Eva” sé og aðstandendur vefritsins Druslubóka og doðranta hafa meðal annars velt því fyrir sér hvort rithöfundurinn Steinar Bragi gæti verið Eva, ritstíllinn minnir um margt á bókina Konur (2008) en Steinar Bragi neitar því. Hver sem höfundurinn er þá er á ferðinni góð auglýsingabrella, til þess gerð að vekja athygli á bók eftir óþekktan höfund sem er líkleg til að falla í skuggann en gæti jafnvel lent ofarlega á metsölulistum í kjölfar alls umtalsins. Þegar þetta er skrifað er bókin í 10. sæti á metsölulista Eymundsson en telja má líklegt að hún klífi hærra á komandi vikum. Undirrituð ætlaði ekki að fabúlera um hvaða höfundur gæti verið á bak við Lausnina en stenst ekki mátið og hallast að því að Tobba Marínós, jafnvel í slagtogi við annan höfund (Steinar Braga?), sé “Eva”. Bókin sé þá tilraun til að lyfta skvísubókmenntum á hærra plan og sýna að í Tobbu sé fleira spunnið en að skrifa klassískar skvísubækur og hugsa upp afsakanir fyrir dagdrykkju. Sjálfri þykir mér reyndar kenningin um Steinar Braga góð, því að mínu mati er margt líkt með Konum og Lausninni og umfjöllunarefnið er mjög svipað. Bækurnar fjalla báðar um óhamingjusamar konur, örvæntingarfulla leit að einhverju meira, einhvers konar lífsfyllingu.

Lausnin er í raun merkjavörur og fræga fólkið í bland við spennandi og óhugnanlega atburðarás.

Aðalpersóna Lausnarinnar hefur hingað til reynt að fylla upp í tómið með þerapíum, áfengi og karlmönnum. Stuttlega má lýsa Lausninni sem sögu af konu í velferðarríki og öllum hennar yfirþyrmandi og óyfirstíganlegu fyrsta heims vandamálum. Án þess að gefa of mikið upp mætti lýsa Lausninni sem samblandi af skvísubókmenntum og sálfræðitrylli. Skvísubókmenntir, bækur í léttari kantinum á borð við hina klassísku Dagbók Bridget Jones eftir Helen Fielding, fjalla oftar en ekki um nútímakonu á framabraut í vestrænni stórborg á meðan sálfræðitryllar, t.d.  Gone Girl eftir Gillian Flynn, leggja áherslu á andlegt ástand sögupersónanna, sem eru oftar en ekki undir gífurlegu álagi þegar tilvera þeirra umbreytist og yfirleitt til hins verra. Lausnin er í raun merkjavörur og fræga fólkið í bland við spennandi og óhugnanlega atburðarás.

Lísa Kristinsdóttir er í tilvistarkreppu

Screen Shot 2015-10-26 at 22.06.24Lísu Kristinsdóttur finnst hún ein og yfirgefin. Lísa Kristinsdóttir er gífurlega vansæl. Lísa Kristinsdóttir er í ástarsorg. En Lísa á allt, eða eins og Kaninn segir, hún „hefur“ allt. Hún á æðislega íbúð við Mýrargötu, er í töff vinnu á tískutímariti, hún á flottan farsíma, Makka, Yaris Hybrid og Sonia Rykiel kápu. Samt er hún tóm að innan. Í upphafi bókarinnar er stærsta vandamál hennar það að hún á ekki kærasta, og svo er það alltaf þessi arfur eftir afa hennar sem lætur á sér standa. Hún hefur það samt gott, hikar ekki við að splæsa á sig kaffibollum á okurprís, fara á fyllerí á virkum dögum og væla yfir ömurlegu hlutskipti sínu við vinkonur sínar. Einn daginn fær Lísa hins vegar nóg af eigin vanlíðan og ákveður að leita á náðir Lausnarinnar, fyrirtækis sem sérhæfir sig í að hjálpa fólki að verða hamingjusamt. Hvað nákvæmlega felst í lausninni sem boðið er upp á er háleynilegt og þátttakendur eru bundnir þagnareið en Lísu er sama. Hún er örvæntingarfull kona og og erfiðir tímar kalla á örþrifaráð. Hún borgar morðfjár fyrir að gerast þátttakandi í prógramminu en Lísa er treg í taumi og  eftir fjögurra daga dvöl á rannsóknarstöð Lausnarinnar afþakkar Lísa meðferðina og atburðarásin sem hefst í kjölfarið kemur öllu úr jafnvægi.

Er hægt að verðleggja hamingjuna?

Auðvelt er að túlka Lausnina og boðskap skáldsögunnar sem ádeilu á firringu vestræns nútímasamfélags. Lísa er ofdekruð, hún á allt til alls, er búin að fara í allar meðferðirnar og prófa heilun og jóga og höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð og hvað sem það allt heitir. Hún borðar glúteinlaust og lífrænt og Solla á Gló kjaftar við hana þegar hún mætir í löns. Hún á glæsilegar og töff vinkonur og það sem mörgum þætti spennandi og áhugavert líf. Henni líður samt alveg hræðilega illa en er svo ótrúlega gerspillt, sjálfsupptekin og frek að lesandinn á erfitt með að finna til samkenndar með henni. Henni finnst það ekki tiltökumál að stofna greiðslumatinu sínu í hættu þegar hamingjan stendur henni til boða fyrir einungis nokkrar milljónir. Lausnin lofar árangri á innan við hálfu ári, annars fær Lísa endurgreitt. Fyrir hamingjuna er það tilboð sem hún getur ekki hafnað. Hver lausnin er kemur í ljós þegar líður á bókina og þá er það spurningin, var það allt þess virði?

Bókin er mjög mikil „akkúrat núna“ bók, endalaust upptalning á vörumerkjum, veitinga- og skemmtistöðum og því fræga fólki sem er hvað mest umtalað í dag. Minnst er á túristavarning, heimasíður (tetrisfriends.com), hryðjuverkasamtökin ISIS ásamt því sem Lísa tekur þáttamaraþon á Netflix og svo mætti lengi telja.

Hamingjan er…

hbz-best-of-carrie-bradshaw-03_2

Carrie Bradshaw

Sögulok eru eilítið fyrirsjáanleg og höfundur virðist hafa átt í vandræðum með endinn, hann er snubbóttur og úr takti við flæði bókarinnar. Í lokin er gengið vel frá lausum endum í fléttunni en endirinn skilur samt sem áður lítið eftir sig. Það sem verra er þá virðist aðalsögupersónan hafa tekið takmörkuðum framförum í þroska og þessi lesandi átti erfitt með að samsama sig aðalsöguhetjunni frá fyrstu síðu og fram á þá síðustu. Undirrituð átti ekki von á að Lísa fyndi hamingjuna nokkur staðar og það er erfitt að finna til með henni því hún hefur mjög brenglað gildismat og kolranga forgangsröðun í lífinu. Brynhildur Björnsdóttir líkti Lísu við Carrie Bradshaw úr Sex and the city í dómi í Fréttablaðinu og sú líking er ekki fjarri lagi (í því samhengi er bent á  þessa ágætu grein fyrir þá sem hafa áhuga á að lesa um hina ofursjálfhverfu Carrie og af hverju hún er, já, hræðileg). En aftur að Lísu. Hver veit nema að aðferð Lausnarinnar sé það sem Lísa þarfnast og það sem virkar fyrir hana. Kannski hefði hún bara gott af tilbreytingunni sem felst í því að reiða fram yfirgengilega háa fjárhæð fyrir tækifærið að snúa blaðinu við. Nýtt upphaf. Ný kona. Nýtt líf?

Bókin er mjög mikil „akkúrat núna“ bók, endalaust upptalning á vörumerkjum, veitinga- og skemmtistöðum og því fræga fólki sem er hvað mest umtalað í dag. Minnst er á túristavarning, heimasíður (tetrisfriends.com), hryðjuverkasamtökin ISIS ásamt því sem Lísa tekur þáttamaraþon á Netflix og svo mætti lengi telja. Bókin mun líkast til ekki eldast vel af þessum sökum því hún er afar mikið „2015“. Undirrituð þurfti einnig að grípa til leitarvélar á internetinu á stundum til að fletta upp merkjavörum og fólki sem „á“ að vera þekkt. Þetta er að öllum líkindum gert til þess að leggja áherslu á hversu yfirborðskennd Lísa er en er að mati þessa lesanda óþarft. Það kemst alveg nægilega vel til skila hvað Lísa er upptekin af sjálfri sér án þess að höfundur slái um sig með þekkingu sinni á vinsælum vörumerkjum og fræga fólkinu. Lausnin er hinn fínasti sálfræðitryllir framan af  en fer út af sporinu í sögulok. Bókin er vel skrifuð, framvindan hröð og í bókinni eru áhugaverðar aukapersónur á borð við hina þroskaskertu Freyju sem hangir allan daginn á bland.is og veitir ákveðið „comic relief“ (atvikið með þvottavélina í kafla 38 var frábært). Lausnin hefði hins vegar getað verið töluvert betri ef meira hefði verið lagt í ögrandi sögulok heldur en upptalningu á merkjavörum.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone