Leigumorðingi gengur laus í Keflavík

Joe_Coop. - Copy

Leikfélag Keflavíkur frumsýndi nýverið leikritið Killer Joe í Frumleikhúsinu í Keflavík. Dagssetning frumsýningar var vel við hæfi, föstudagurinn 13. mars, þar sem verkið er eiginleg hrollvekja eða spennutryllir. Höfundur handrits er Tracy Letts en íslenska þýðingu annaðist Stefán Baldursson. Leikarinn og Keflvíkingurinn Davíð Guðbrandsson leikstýrir verkinu og er það frumraun hans á sviði leikstjórnar. Persónur og leikarar eru eftirfarandi: Joe Cooper: Rúnar Þór Sigurbjörnsson, Ansel Smith: Gustav Helgi Haraldsson, Sharla Smith: Sólrún Steinarsdóttir, Chris Smith: Jón Bjarni Ísaksson og Dottie Smith: Jenný Jónsdóttir.

Fötin skapa manninn

Verkið fjallar um sérkennilega, brotna og „disfúnksjónal“ fjölskyldu í Texas í Bandaríkjunum, Smith-fjölskylduna, sem býr við bág kjör en elur með sér draum um betra líf. Fjölskyldan samanstendur af heimilisföðurnum Ansel, eiginkonu hans Shörlu og syni Ansel og dóttur Chris og Dottie. Þau eru orðljót og óhefluð og klæðaburður þeirra er fábrotinn en leikararnir völdu sjálfir búningana. Óhreint, strítt hár Chris og föl húðin endurspeglar líferni hans, sem dópisti og dópsali, og sá Jóna Þórðardóttir um förðun og gervi. Aðrir meðlimir Smith-fjölskyldunnar undirstrika ágætlega stöðu sína og stétt, sem fátæk fjölskylda í suðurríkjum Bandaríkjanna, og þá sérstaklega í klæðaburði sem samanstendur af þægilegum, lausum fatnaði á borð við joggingbuxur, stuttermaboli og smekkbuxur. Leigumorðinginn Joe Cooper er höfuðpersóna verksins en hann er ávallt snyrtilegur til fara, klæðist jakkafötum og spariskóm og innsiglar þannig vald sitt.

Ansel_Smith - Copy

Dramatík og innri trúverðugleiki

Sögusvið er heimili Smith-fjölskyldunnar og leikmyndin, eftir Davíð Örn Óskarsson, samanstendur af samliggjandi stofu og eldhúsi, sem innréttað er í nokkuð hlutlausum gamaldagsstíl. Þar að auki er herbergisgangur og útidyrahurð sem leikarar ganga inn og út um og þótt verkið gerist allt í einu rými gengur það ágætlega upp þannig. Atriði sem gætu átt sér stað fyrir utan heimilið koma fram í samtölum á milli persóna en eins og gjarnan er þegar hrottalegir glæpir eru settir á svið og túlkaðir í íslenskum veruleika reynist stundum erfitt að taka þá trúanlega. Þá var á köflum eins og örlítið breytt orðalag í setningum leikara hefði skipt sköpum fyrir innri trúverðugleika en annars var heildarmyndin góð.

Lýsingu annaðist Sæmundur Már Sæmundsson og styður hún afar vel við verkið en þá var eitt tiltekið atriði sérstaklega eftirtektarvert. Atriðið er á milli Joe Cooper og Dottie Smith, það er afar dramatískt og vekur í senn upp óhugnað og lotningu. Það á sér stað við eldhúsborðið á heimili fjölskyldunnar og lýkur á þá leið að Dottie beygir sig yfir eldhúsborðið, með Joe fyrir aftan sig, um leið og ljósin dofna þar til einungis sést ljós frá kerti á borðinu sem baðar andlit hennar birtu. Hljóðmaður er Atli Marcher Pálsson og var hljóð til fyrirmyndar að frátöldu einu atriði, þegar Dottie kveikir á teiknimynd í sjónvarpinu, en þá kom hljóð inn áður en kveikt var á sjónvarpinu.

Chris_Ans._Smith

Siðlaus viðskipti

Verkið hefst þegar Chris bankar upp á á heimili föður síns um miðja nótt, frávita af ótta. Hann hefur komið sér í verulegar skuldir, í dópheiminum, og er með hugmynd að því hvernig fjölskyldan getur komist á skjótan og auðveldan hátt yfir háar fjárupphæðir. Hugmyndina viðrar hann við föður sinn en þær aðgerðir sem þarf að beita eru hins vegar fremur siðlausar og fela í sér viðskipti við leigumorðingjann Joe Cooper. Það sem fjölskylduna grunar ekki er að allt getur farið á versta veg, sem það síðan gerir. Kynning persóna var á köflum flöt en fljótlega duttu leikararnir í hlutverk sín og náðu þá að hrífa áhorfendur með sér. Það var mikið hlegið í salnum enda er verkið, þótt um spennutrylli sé að ræða, fullt af gríni en túlkun leikara á persónum er jafnframt spaugileg. Til að mynda er Gustav Helgi Haraldsson óborganlegur í hlutverki meðvirka húsbóndans Ansels og stundum voru svipbrigði hans nægjanleg til þess að salurinn skellti upp úr.

Dottie_Smith

Túlkun Jennýjar Jónsdóttur á barnslegri einlægni Dottiear er afar sannfærandi og samspil leikara verður til þess að hægt er að finna til samkenndar með persónum, hverri einni og einustu, jafnvel þótt gjörðir þeirra og áætlanir séu miður góðar. Samband Shörlu og eiginmanns hennar, Ansel, er í senn skondið og sorglegt og sá kærleikur sem ríkir á milli systkinanna Dottiear og Chris er greinilegur. Þó virðist Chris eiga erfitt með að sýna þann kærleika í verki og situr því gjarnan uppi með sjálfsásakanir og sektarkennd. Persóna Joe Cooper er trúlega flóknust þeirra og því örugglega erfiðasta hlutverkið að túlka en Cooper er hvort tveggja í senn siðblindur leigumorðingi og/eða ástfanginn elskhugi; þótt hugmyndir hans um ástina séu vissulega hálf brenglaðar. Rúnar Þór dansar afar fínlega á línunni og mörkin á milli góðs og ills renna ágætlega saman í túlkun hans á Cooper.

Sharla_Smith

Aðstandendur sýningarinnar mega vera ánægðir með afurð sína sem ætti að höfða til flestra leihúsgesta. Það þarf þó vart að taka fram að verkið er aðeins ætlað fullorðnum sökum þeirrar grótesku sem er að finna í því; spennu, hryllings, eymdar, nektar og grófs húmors.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone