Leyndarmál, leðja og stakur skór – Skáldverkið Tímaskekkjur

Tímaskekkjur

Tímaskekkjur er íslenskt skáldverk, unnið af tíu rithöfundum og fimm ritstjórum sem sameina krafta sína með það að markmiði að gefa út auðuga bók sem inniheldur smásögur, örsögur, ljóð og allt þar á milli.

Bókin er afrakstur námskeiðs innan Háskóla Íslands sem nefnist, Á þrykk, þar sem ritlistar- og ritstjórnarnemar kynnast öllum hliðum bókaútgáfu, frá hugmynd að prentgrip. Hópurinn starfar undir leiðsögn Sigþrúðar Gunnarsdóttur, ritstjóra hjá Forlaginu, sem kennt hefur námskeiðið undanfarin þrjú ár. Uppskera þessa samstarfs var útgáfa bókanna Hvísl (2013), Flæðarmál (2014) og Uppskriftabók – Skáldverk (2015).

Fjármögnun verkefnisins fer fram í gegnum hópfjármögnunarsíðuna Karolina Fund þar sem safnað er fyrir prentun bókarinnar. Hér má finna verkefnið á Karolina Fund. Þar er hægt að leggja til misháar upphæðir sem og tryggja sér eintak af bókinni í forsölu. Útgáfa bókarinnar er síðan fyrirhuguð í maí og verður henni fylgt út hlaði með veglegu útgáfuhófi.

Fortíð, nútíð og framtíð

Efni bókarinnar nær yfir víðan völl en tíminn er ríkjandi þema. Á Karolina Fund síðu verkefnisins má finna eftirfarandi útskýringu á þemanu: „Tíminn er fyrirbæri sem við þekkjum öll og án hans væri sennilega allt og ekkert á sama … tíma. Öll verk bókarinnar hafa því tekið sér stöðu við bakka tímans, varða hann og fylgjast með honum renna í gegnum tilveru okkar.“

Tímaskekkjur

Höfundar eru Ásdís Ingólfsdóttir, Birta Þórhallsdóttir, Einar Leif Nielsen, Fjalar Sigurðarson, Jóhanna María Einarsdóttir, Jóhannes Ólafsson, Tryggvi Steinn Sturluson, Þóra Björk Þórðardóttir, Sigrún Elíasdóttir og Una Björk Kjerúlf.

Ritstjórar eru Dýrfinna Guðmundsdóttir, Erna Guðmundsdóttir, Kristinn Pálsson, Sandra Jónsdóttir og Svanhildur Sif Halldórsdóttir.

 

Áframhaldandi umfjöllun

Sirkústjaldið mun á næstu vikum kynna ritstjóra og höfunda bókarinnar auk þess að birta brot úr verkum höfundanna. Framvindu verkefnsins er eins og áður sagði hægt að fylgjast með á Karolina Fund sem og á Facebook síðu hópsins.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone