List! Smelltu hér!

logi

Netgallerí hófu göngu sína snemma á 10. áratugi síðustu aldar eða um það leyti sem internetið varð almenningi aðgengilegt. Þessi stafrænu sýningarrými má kalla ýmsum nöfnum. Vefgallerí, netgallerí, vefsýningarrými, stafrænt gallerí og velji hver fyrir sig. Hér á landi var myndlistarsýning fyrst sett upp á netinu á samsýningunni „Nýr heimur – Stafrænar sýnir“  í Listasafni Íslands þar sem veflist og myndbandalist var höfð í öndvegi. Titill þeirrar vefsýningu var einfaldlega @, sem var að sögn aðstandenda það „at sem verður til þegar list og hátækni er @tt saman“. Gestir gátu rölt um  sýninguna á sjálfu Netinu sem þá var ennþá nýtt og framandi.

Nú hefur nýtt netgallerí hafið göngu sína á Íslandi en það ber nafnið Artclick Daily. Síðan var sett á laggirnar snemma á árinu sem var að líða og það eru kumpánarnir Brynjar Helgason og Ívar Glói Gunnarsson sem standa á bakvið það nútímalega framtak. Galleríið opnaði  með pomp og prakt á einkasýningu þeirra beggja þar sem boðið var upp á gif mynd af kampavíni við tilefnið. Síðan þá hafa fimm listamenn til viðbótar sett upp sýningu í rýminu og eru þær allar til sýnis enn. Það er því ómögulegt að missa af listasýningu í Artclick Daily og listin sækir þig heim með einum músasmell! Smelltu hér. 

Ég smelli mér í þetta gallerí við og við, þó aðallega á opnunum. Mig langar því til að greina dálítið frá hverri sýningu á nýstárlegan máta sem fylgir bæði takti tímans og tölvunetsins. Ég vona að gestir og gjörendur hafi af þessu bæði gagn en einnig nokkuð gaman, gjöriði svo vel:

This eftir Oleg Kauz
Listamaðurinn nær valdi yfir skyntaugum áhorfendans með áþreifanlegu og vel unnu myndbandsverki :O
#límd við skjáinn #dularfullt #svo sannarlega listrænt

this

Nur-immer-schon-bei eftir Anne de Boer
Sérhannað spíralgallerí fyrir sýningagesti. Í miðjunni er mikilfenglegt sköpunarverk sem er hægt að virða fyrir sér frá mismunandi sjónarhornum á leiðinni upp. Hver kemst á toppinn? :] #tölvuleikur & list #the true artist helps the world by revealing mystic truths

A more or less useful sculpture to place art in this world eftir Hrafnhildi Helgadóttur with art anticipating the natural course of events eftir Jan Voss.
Myndbandsverk sem rannsakar rými fyrir teikningu (0_0)
#horfa til enda #innsetning listarinnar

Screen shot 2014-03-21 at 5.55.32 PM

(  ͡ A  ͜ʖ  ͡A ) (  ͡a  ͜ʖ  ͡a )  eftir Baldvin Einarsson
Tréstubbar iða perralega í kringum sexí myndbandsverk ( o ͜ʖo)
#graðir skúlptúrar #listgredda

Sequential Set-Up eftir Ívar Glóa
Undarlegasta sýningin á svæðinu. Skoðist með tilliti til titils. (o_o)
#123 ding dong #húmor  #klumsa

Sein und Zeit eftir Brynjar Helgason
List með þýsku ívafi. Verkin eru sett inn á síðuna eins og um stofuvegg sé að ræða :-i
#heidegger und calder #sehr deutsch und mobile #i

Passion, purpose and a handshake – Unity eftir Loga Leó Gunnarsson
Listrænn leikur með stafrænt rými sem kætir. Ath. sýningin birtist í sprettiglugga! :Þ
#gif af bestu gerð #listrænt og stafrænt #imponered

Screen shot 2014-03-21 at 5.51.35 PM
Netgallerí eru þess eðlis að þau bjóða listunnendum upp á að skoða list í því rými sem hverjum hentar best. Þetta kemur sér vel fyrir fólk sem venur ekki komur sínar á listasöfn eða nær ekki í rassgatið á sýningunum sökum gleymsku. Hér geta listunnendur því notið sín án þess að fara fet úr húsi! Þessu ber að fagna.

Stafræn rými henta stafrænum miðlum best þar sem lokaútkoma allra verka í slíkum rýmum verður stafræn á sjálfri sýningunni. Þetta hentar því ekki hvaða verkum sem er en vettvangurinn býður upp á áhugaverðar nálganir. Veraldarvefurinn heldur því áfram að vera framúrstefnulegur vettvangur fyrir listsköpun – þar sem hann breiðir úr sér líkt og vetrarbraut í átt til hins óendanlega hljóta möguleikarnir að sama skapi að vera óteljandi! Það verður að vonum gaman að fylgjast með listamönnum tækla þetta sýningarými í framtíðinni.

Freyja Eilíf Logadóttir
Höfundur er nemi í myndlist

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone