Listin þarf ekki alltaf að vera svona háfleyg – um ljóðskáldið Adrian Henri og the Liverpool Scene

ah01

Breska ljóðskáldið og listamaðurinn Adrian Henri (1932-2000) var einn af Liverpool skáldunum svokölluðu, ásamt þeim Roger McGough og Brian Patten. Þeir voru undir miklum áhrifum frá Beat skáldum sjötta áratugarins, en eins og þau vildu Liverpool skáldin taka ljóðin úr höndum akademíunnar og fara með þau inn í klúbbana, á götuna og inn í líf venjulegs fólks. Til að ná fram ætlunarverki sínu reyndu þeir að gera ljóð og ljóðaflutning skemmtilegan með því að nýta sér bæði popptónlist og poppmenningu sem var að ryðja sér til rúms á þessum tíma. Verk þeirra eru því flest afdráttarlaus, laus við sýndarmennsku, notast við einfalt tungumál lágstéttanna, eru full af húmor og orðaleikjum og vísa í samtímamenningu, þá einna helst í afþreyingarmenningu. Henri sjálfur var mjög hrifinn af popplist og þeim möguleikum sem í henni bjuggu en eins og popplistin vildi hann gera eitthvað nýtt – eitthvað sem stæði utan hálistar og alþýðulistar. Hann vildi færa listina út á götuna, gera hana pólitíska, fjarlægja mörk fantasíu og raunveruleika og hafa áhrif á daglegt líf fólks. Hann leitaði innblásturs í hinu lágt setta og fyrirlitna og er einkennandi fyrir verk hans, bæði ljóðlistina og málaralistina, notkun hans á táknmyndum dægurmenningar, afþreyingarmenningar, neysluhyggju og borgarlandslagsins.

Hugmyndir um ljóðlist

Í ljóðabókinni Tonight at Noon (1968) má finna kaflann „Notes on Painting and Poetry“ þar sem Henri viðrar hugmyndir sínar um ljóðlist og málaralist og hvernig listamaður getur verið bæði án þess að þurfa að skilgreina sig sem annað hvort. Þar talar hann um hugtakið total work (þ. Gesamtkunstwerk), – sem rekja má til kenninga dadaisma og súrrealisma – og felur í sér að skapað er verk þar sem blandað er saman ólíkum listformum sem hvert fyrir sig hefur ólík áhrif á neytendur verksins. Við slíkt verður til verk sem miðlar ákveðinni reynslu í stað upplýsinga, verk sem þarf að upplifa en er ekki aðeins hægt að dást að úr fjarska. Henri lærði listfræði við King‘s College í Newcastle og má sjá greinileg áhrif frá málaralistinni í ljóðum hans sem eru mörg hver mjög myndræn – en hann hefur sjálfur tjáð sig um að listfræði námið hafi haft mikil áhrif á listsköpun hans. Til að yrkja ljóð notar Henri aðferð sem hann kallar direct quotes of reality en hún felst í því að hann ber alltaf með sér minnisbók sem hann skrifar jafnóðum niður í það sem hann sér og þær hugmyndir sem hann fær. Hann endurskoðar síðan þessa punkta sína, lagar þá til og gerir myndrænni, og nýtir þá svo að lokum í ljóðin sín á þann hátt að hann raðar þeim niður í númeraða röð – oftar en ekki sömu röð og hann punktar þá niður.

„Liverpool Poems“ (brot):

7

I have seen Pére UBU walking across Lime St

And Alfred Jarry cycling down Elliott Street

8

And I saw DEATH in Upper Duke St

Cloak flapping black tall Batman Collar

Striding tall shoulders down the hill past the Cathedral brown shoes slightly down at the heel.

10.

Prostitutes in the snow in Canning St like strange erotic snowmen

And Marcel Proust in the Kardomah eating Madeleine butties dipped in tea

Í þessu ljóðbroti sjást vel einkenni ljóða Henris. Brotin eru númeruð og þau varpa upp mörgum myndum í stað þess að fjalla aðeins um eina mynd. Ljóðið er mjög myndrænt, eins og flest ljóðin hans, en auðveldlega er hægt að sjá fyrir sér hvert brot sem málverk. Þar að auki má sjá hér táknmyndir borgarsamfélagsins, afþreyingar- og dægurmenningar. Minnst er á leikskáldið Alfred Jarry og hans þekktustu persónu Pére UBU, skáldið Marcel Proust og Batman. Þar að auki er rætt um götur, kirkju, kaffihús og vændiskonur, en allt eru þetta fyrirbæri sem finna má innan borgarinnar.

The Liverpool Scene

Þar sem Henri vildi færa ljóðin nær fólkinu lagði hann mikla áherslu á ljóðaflutning en hann taldi að í gegnum flutninginn gæti hann átt í samræðum við áheyrendur ásamt því að fá að upplifa viðbrögð þeirra. Hann vildi hinsvegar ekki ganga inn í hina rótgrónu hefð heldur hafði áhuga á því að sjá hversu langt hann gæti farið með ljóðið í ólíkar áttir en þó á þann hátt að það væri ennþá talið ljóð. Hann vildi skapa ljóð sem miðlaði ákveðinni reynslu við hlustun en sem hægt væri að finna aukna merkingu í við lestur. Til að ná því fram ákvað hann að notast við tónlist, þar sem hún hefur önnur áhrif á fólk en hið ritaða orð og krefst þess þar að auki að fólk hlusti á annan hátt. Henri stofnaði því ljóðahljómsveitina The Liverpool Scene árið 1967 og voru meðlimir hennar, ásamt Henri, þeir Andy Roberts, Mike Evans, Percy Jones, Brian Dobson og Mike Hart. The Liverpool Scene gaf út nokkrar frábærar plötur, héldu tónleika, komu fram í þætti á Granada Television, og túruðu m.a.s. um Bretland árið 1969 þar sem þeir opnuðu fyrir enga aðra en Led Zeppelin. Eitt þekktasta ljóð The Liverpool Scene er „Batpoem“, ljóð eftir Henri sjálfan, sem flutt er undir viðeigandi tónum titillags sjónvarpsþáttanna um Batman frá sjöunda áratugnum. „Batpoem“ er áhugavert fyrir þær sakir að þar eru táknmyndir afþreyingarmenningar notaðar til að flytja pólitískan boðskap. Miðlað er til Batman, einnar þekktustu ofurhetju myndasögunnar og erkitýpu dægurmenningar, um að koma og leysa öll vandamálin sem eru til staðar. Hann á ekki aðeins að sigra Víetnamstríðið, vera boðberi hinnar vestrænu menningar og berjast gegn glæpum, heldur á hann líka að koma með töfralausnina við kvennavandræðum karlpeningsins, pillu sem fær allar konur til að segja já. Vísanir í neysluhyggju ýta þar að auki óhjákvæmilega undir íróníu verksins en það að dreifa kók og nammi á að bæta upp þann sársauka og dauða sem stríðið hefur valdið. Írónían virkar vel í hinum ritaða texta ljóðsins en hún verður sterkari í ljóðaflutningnum og spilar þar notkun tónlistar þemalags Batmanþáttanna stórt hlutverk.

Markmiðinu náð?

Adrian Henri vildi ekki aðeins brjóta upp hefðir og reglur heldur vildi hann reyna að taka listina lengra. Hann taldi að upplifun fólks af listaverkum og sú reynsla sem þau færa þeim spilaði stórt hlutverk í túlkun verkanna. Það var einmitt ástæða þess að hann blandaði saman tónlist og ljóðum, þetta eru mismunandi form sem gefa ólíka reynslu af sama ljóðinu en slíkt gerir það að verkum að þau miðla fleiri en einni merkingu. En það var einmitt það markmið sem Henri vildi reyna að ná með ljóðlist.

Flutningur „Batpoem“

 

Heimildir:

„Adrian Henri (1932-2000)“, The Poetry Archive (án dagsetningar). <http://www.poetryarchive.org/poetryarchive/singlePoet.do?poetId=5895>

Adrian Henri, „Art as Environment“, Environment and Happenings, Thames and Hudson, London, 1974.

Adrian Henri, „Notes on Painting and Poetry“, Tonight at Noon, Rapp & Whiting, London, 1968.

Adrian Henri, „Liverpool Poems“, Collected Poems, Allison &Busby, London, 1986.

[Mynd fengin frá: http://www.adrianhenripoetryinartprize.co.uk/]
Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone