Ljóð vikunnar: Anton Helgi Jónsson

Ljóð í leiðinni -bakkápa

 

Lúr í vagninum

 

Það jafnast ekkert á við lúr í vagninum.

 

Ég grenja þegar mamma dúðar mig niður

en sofna um leið og hún vaggar af stað.

 

Mamma trillar oft vagninum inn í strætó.

Önnur mamma trillar þeim vagni um borgina.

Enn önnur mamma trillar jörðinni kringum sólina.

Mamma allra mamma trillar sólkerfi út eftir vetrarbraut.

 

Allt þetta gerist meðan ég fæ mér lúr í vagninum.

 

Á meðan ég fæ mér lúr gerist líka allt hér heima.

Fjallajeppi spólar á gangstétt.

Hundamaður setur kúk í poka.

 

Ég veit alveg hvert við erum að fara.

Ég hef komið áður.

 

Bráðum verð ég þriggja mánaða

bráðum verð ég eins árs og tólf ára

bráðum fer að styttast í tvítugt og þrítugt.

 

Allt í einu hrekk ég upp og næsta stopp er áttrætt.

 

Ég þekki þessi augu sem horfa á mig. Mamma.

 

COVER

 

 

Ljóðið „Lúr í vagninum“ eftir Anton Helga Jónsson var frumbirt í bókinni „Ljóð í leiðinni: Skáld um Reykjavík“, sem kom út hjá Meðgönguljóðum í tilefni af Lestrarhátíð 2013.
Anton Helgi Jónsson er ekki bara afburðaskáld heldur líka afburðaflytjandi afburðaljóða sinna. Ef þú þarft einhvern tímann að stela góðum framkomutöktum til eigin nota mættu þá á upplestur hjá honum.
Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone