Ljóð vikunnar: Hallgrímur Helgason

Ljóð í leiðinni -bakkápa

 

Kvöldin í hverfinu

 

Ljóðfögur eru kvöldin djúpt í hverfi

með kyrratrjám og svörtu sumarlaufi

sem ber við himin húbertsnóabláan

með háu roðaofnu skýi yfir.

Í myrkviðinu ljóma gulir gluggar

nágrannahúsa hitaveitubjartir.

Þú situr einn í garðinum við glas.

 

Og mótorhjól á önum utan hverfis

umkringja höfuð þitt með flugnasuði

sem brotið er upp af ágústljóði þrastar

og einum lúnum útihurðarskelli.

Húsið er fullt af svefni sælla barna,

og símtölum eiginkvenna í heitu baði.

Allt er það líkt og ort af sjálfum þér.

 

Og allt er þetta þínu lífi gefið,

af þínu verki reist og látið standa.

Þú hefur þig inn, í húsinu á móti

er óútgefinn rithöfundur á ráfi

um rjómagula stofu í leit að titli.

Áður fyrr varstu hann en nú er honum

hugleikinn feitur þú með tæmt þitt glas.
COVER

 

 

Ljóðið „Kvöldin í hverfinu“ eftir Hallgrím Helgason var frumbirt í bókinni „Ljóð í leiðinni: Skáld um Reykjavík“ sem kom út hjá Meðgönguljóðum í tilefni af Lestrarhátíð 2013.
Hallgrímur Helgason hefur gefið út skáldsögur, ljóð, ritgerðir og leikrit af miklum móð síðan 1990 og ef þú ætlar að vera bókmenntaunnandi meðal bókmenntaunnenda þá þarftu að unna að minnsta kosti einu verki eftir hann.
Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone