Ljóð vikunnar: Hermann Stefánsson

Ljóð í leiðinni -bakkápa

 

Kristjánsbakarí

Himinn og haf eru sama fyrirbærið,

land samanlagður þéttleiki beggja,

borg er misskilningur sem byggður er á þessu þrennu.

Í norðurátt er Kristjánsbakarí.

Þangað er langt og veitir ekki af fótum, höndum

og tungu til að sleikja glassúr af snúði.

 

Ég legg í hann. Heyrnarskynið mun ég skilja

út undan eins og Hvalfjörðinn.

Á þessu götuhorni er gjallarhorn

og lán að geta skellt við skollaeyrum

þegar hæst lætur í aðkomuhuganum.

 

Mér hefur verið útvegað snertiskyn

til að hafa uppi á mjálmandi köttum,

sönnu andvarpi, gæsum sem ég get tekið upp ef ég beygi mig,

auðmýkt sem þarf að dæla með fyrirhöfn úr götuljósum.

Mánann má finna á borgarkorti á útleiðinni.

 

Handan hans er Kristjánsbakarí.

 

 

 

COVER

 

Ljóðið „Kristjánsbakarí“ eftir Hermann Stefánsson var frumbirt í bókinni „Ljóð í leiðinni: Skáld um Reykjavík“, sem kom út hjá Meðgönguljóðum í tilefni af Lestrarhátíð 2013.
Hermann Stefánsson, skáldsagnahöfundur, ljóðskáld, ritgerðasmiður og útgefandi tímaritraðarinnar 1005, er svo svalur að eitt sinn þóttist einhver annar vera hann á internetinu til að afla sér vinsælda. Það fór illa af því að það er ekki hægt að feika snilldina.
Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone