Úrslit ljóðasamkeppni Sirkústjaldsins og Hinsegin daga

Hýrir húslestrar
Hýrir húslestrar
Hýrir húslestrar - hinsegin dagar 2016

Elísabet Jökulsdóttir og Viðar Eggertsson en þau sátu í dómnefnd ásamt Fríðu Ísberg  – ljósmynd: Sigrún Björk Einarsdóttir

 

Úrslit í ljóðasamkeppni Hinsegin daga og Sirkústjaldsins voru kynnt undir lok Hýrra húslestra í Iðnó föstudagskvöldið 5. ágúst. Samkeppninni bárust alls 36 ljóð. Dómnefndina skipuðu Fríða Ísberg, Elísabet Kristín Jökulsdóttir og Viðar Eggertsson. Svo skemmtilega og óvænt vildi til að í 2. og 3. sæti voru ljóð eftir Írisi Ellenberger og vinningsljóðið var eftir Auði Magndísi, konu hennar. Þar sem dómnefndinni bárust öll ljóðin nafnlaust kom niðurstaðan nefndinni mikið á óvart, sérstaklega í ljósi þess hversu ólík að stíl ljóð Írisar Ellenbergar eru. Þær hjónur, Auður og Íris hafa örugglega fundið góðan stað í bókahillunni sinni fyrir bókagjafirnar sem Forlagið veitti. Við þökkum Forlaginu sérstaklega fyrir.

Hýrir húslestrar

Skáldhjónurnar Auður Magndís og Íris – ljósmynd: Sigrún Björk Einarsdóttir

 

Hér á eftir birtum við vinningsljóðin þrjú en á næstu vikum verða fleiri ljóð sem bárust í samkeppnina birt á síðu Sirkústjaldsins.

Fleiri myndir frá viðburðinum og Hinsegin dögum má sjá á vefsíðu PressPhotos.

 

 

Fyrsta sæti

Þú mættir bara til mín einn daginn
með ekkert vegabréf
og ótrúverðuga sögu

Ég vissi ekki hvað ég ætti að gera við þig
svo ég kom þér bara fyrir
svona til að byrja með

Súrefnisdæla
steinar
líkan af skipsflaki
matur á hverjum degi kl. 14

Þú syntir
í örvæntingu
í hringi
í nokkur ár

Á meðan kynnti ég mér vistfræði Íslands
og sá að þín var þar hvergi getið
svo ég veiddi ég þig upp úr glerkúlunni
og sturtaði þér niður í klósettið

höf. Auður Magndís Auðardóttir 

 

Annað sæti

Neðan úr iðrum úthafanna liggur stálstrengur
sem teygir sig upp að yfirborðinu
í átt til himins
gegnum ósónlög
veðrahvolf og heiðhvolf
inn í myrkrið milli stjarnanna

Þar hefur hún marað í hulduefni með kóbalt undir tungunni
og fylgst með alheiminum belgja sig út
meðan blóð hennar litar strekkt stálið
lekur upp sköflunginn
drýpur af hökunni
og myndar stöðuvatn í naflanum

Hún sópar stjörnuryki inn í brjóstholið
og mælir andartökin í eilífðum
þar til gnístir í beinum hennar
og tindrandi svarblámi vellur úr sprungunum
Þá heldur hún af stað í átt að sverðþoku Óríons
þrjátíu sólum tortímt í hverju fótspori

höf: Íris Ellenberger

 

Þriðja sæti

Nína

Ég sá þig í speglinum á kvennaklósettinu á Hlemmi. Þú minntir mig á Viv Albertine. Ég drap á sígarettunni í vaskinum og þóttist túbera á mér taglið

Þú tókst grænbláan eyeliner upp úr bakpokanum þínum og sagðir: Flott hár. Hvernig færðu bláa litinn til að haldast svona tindrandi og fallegur?
Ég roðnaði og svaraði: Æi, bara ekkert sérstakt
En varir mínar meintu: Ef þú hallar þér aðeins nær þá skal ég hvísla því að þér. Með tungunni

Þú málaðir túrkísslikju á efra augnlokið, síðan það neðra, og sagðir: Æðislegur bolur. Ég elska Siouxie and the Banshees
Ég leit undan og umlaði: Já, eh takk
En augu mín meintu: Þú mátt eiga hann ef þú klæðir mig úr honum og sýgur á mér geirvörturnar, fast

Þú rótaðir í svörtu hárinu, litaðir varir þínar í stíl og sagðir: Fékkstu þessar leðurbuxur í Karnabæ? Flott snið. Fellur vel að rassinum
Ég kyngdi og hvíslaði: Nei, í London
En mjaðmir mínar meintu: Ef þú smeygir hendinn inn fyrir buxnastrenginn og kafar djúpt skal ég sýna þér leiðina til Nangijala

Inni á klósettbásinn hafði einhver krotað: Fuck me!
Ég hallaði höfðinu aftur á vatnskassann og muldraði: Plís

höf. Íris Ellenberger

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone