Ljóti jólasveinninn

ey1 007

Sjöfn JónsdóttirEinu sinni var jólasveinn sem var alveg afskaplega ljótur. Hann var ljótasti jólasveinninn á öllu jólasveinaheimilinu. Aumingja ljóta jólasveininum fannst auðvitað leiðinlegt að vera svona ljótur. Hann var svo ljótur að engin börn vildu dansa í kringum jólatré með honum. Þau vildu ekki einu sinni að hann gæfi þeim gott í skóinn. Ef ljóti jólasveinninn setti nammi í skóinn hjá litlu drengjunum og litlu stúlkunum þá skyrptu þau útúr sér namminu og sögðu: „Oj, ljóti jólasveininn setti þetta nammi í skóinn. Ég vil ekki borða það!“ Svo aumingja ljóti jólasveinninn sat heima allan desember mánuð og lét sér leiðast á meðan bræður hans þeyttust um fjöll og firnindi með pakka hér og pakka þar og nammigott eða smádót í skóinn handa öllum góðu litlu börnunum. Ljóti jólasveinninn gerði margar tilraunir til að fara með bræðrum sínum til að hitta krakkana í bænum. Í hvert sinn sem ný jól voru framundan hugsaði ljóti jólasveinninn með sér: „Núna verður þetta öðruvísi, núna fæ ég örugglega að vera með.“ En árin liðu og alltaf fékk hann sömu viðbrögðin. Ljóti jólasveinninn varð sorgmæddari og sorgmæddari. Litla hjartað hans varð svo sorgmætt að það skrapp saman og varð minna og minna. Það hélt samt áfram að slá dumpa, dumpa, dumpa, ósköp lágt svo enginn heyrði, bara af því það kunni ekki að hætta.
***

Svo var það eitt árið þegar ljóti jólasveinninn var 300 ára gamall, sem er ekki hár aldur fyrir jólasveina, að hann var einn heima á aðfangadag og horfði döprum augum út um rifu á jólasveinahellinum. Hann var djúpt hugsi en sagði síðan eins og við sjálfan sig: „Mikið vildi ég vera fallegur og geta tekið þátt í jólunum með öllum börnunum í litla bænum við fjörðinn. Ég myndi gleðja litlu hjörtu þeirra svo mikið og við myndum hlæja, syngja og dansa saman. Mikið væri það gaman.“
Það var komið myrkur, klukkan að verða sex og jólahátíðin var rétt að byrja hjá fólkinu í bænum. Þegar ljóti jólasveininn leit út um rifuna á jólasveinahellinum sá hann glitta í eitthvað skínandi og bjart á himninum. Hann ákvað að skríða út úr hellinum þó honum hafi verið bannað að fara að heiman á meðan jólasveinarnir og Grýla væru í bænum.
Úti sindraði fannhvít jörðin í mánaskininu og trilljón billjón stjörnur skinu og tifuðu yfir höfði hans. Ljóti jólasveinninn hafði aldrei séð aðra eins fegurð. Allt var svo fallegt að hann verkjaði í hjartað og tárin runnu niður kinnarnar. Hann fann hvernig krumpaða hjartað hans fór að slá hraðar og hærra dumpa, dumpa, dumpa, dumpa, dumpa, dumpa. Með hverju slætti stækkaði hjartað í brjóstinu þar til það fyllti út í allan líkamann; dumpa, dumpa, dumpa.
Ljóta jólasveininum langaði svo mikið til að allir í heiminum gætu líka séð hvað allt var fallegt. Jörðin, himinninn, stjörnurnar, allt var eitt stórkostlegt listaverk í vetrarkyrrðinni. Hann langaði að segja öllum frá. Hann stökk af stað út í myrkrið og hrópaði í allar áttir: „Sjáðu, sjáðu, er þetta ekki fallegt!“

***ey1 006

Fyrst hitti hann rjúpu eina sem sat sofandi undir steini. Rjúpugreyið datt næstum á hausinn þegar ljóti jólasveininn hentist fram hjá henni. „Sjáðu, sjáðu, horfðu í kringum þig. Sjáðu stjörnurnar og norðurljósin!“ Rjúpan horfði undrandi á þennan skrítna jólasvein. Hún leit syfjuðum augum til himins. Hún sá norðurljósin í allri sinni dýrð dansa í grænum og rauðum kjól yfir himininn. „Jú, jú þetta var alveg rétt svo sem, en er ástæða til að gera veður út af því?“ hugsaði rjúpan og dustaði snjó úr loðnum tánum. En það var eitthvað við þennan hoppandi jólasvein sem greip athygli hennar. Það var eitthvað svo fallegt við gleðidansinn hans, sem opnaði litla rifu inn í rjúpuhjartað og sagði henni að þetta væri mikilvæg stund sem hún mætti ekki missa af. Rjúpur eru nú þannig gerðar að þær fylgja alltaf hjartanu, jafnvel þó það komi þeim stundum í bobba. Rjúpan flögraði því áköf á eftir ljóta jólasveininum.
Næst hljóp ljóti jólasveinninn fram á gamla lágfótu sem lá sofandi rétt fyrir innan grenismunnann. „Hvaða, hvaða læti eru þetta!“ sagði tófan, „er ekki hægt að fá að sofa í friði hérna á heiðinni?“„Sjáðu, sjáðu hvað allt er fallegt„ sönglaði ljóti jólasveinninn, „Sjáðu Orion, Betelgus og Bellutrix, er þetta ekki stórfenglegt?“ Tófan rak upp stór augu. Aldrei hafði hún nokkurn tíman séð aðra eins fegurð þarna upp á heiðinni. Þetta var rétt hjá þessari undarlegu veru. Tófan reis hægt á fætur og gekk út. Kannski var ástæða til að skoða þetta aðeins betur. „Ég hef nú ekki verið að horfa mikið til himins um ævina en svei mér þessi skrítna vera hefur eitthvað til síns máls. Það er eitthvað þarna sem vert er að skoða betur.“, hugsaði hún. Og gamla tófan fann eftirvæntingu og forvitni streyma um æðarnar. Hún fann hlýju og yl í hjartanu sem hún hafði ekki fundið í langan tíma og ákvað umhugsunarlaust að taka þátt í gleðidansinum á heiðinni.
Jólasveinninn okkar hélt áfram dansi sínum og söng alla nóttina. Hann hljóp fram og til baka um heiðina. Hann talaði við fuglana, refina, mýsnar og minkana, skordýrin og fiskana, mosann og steinana. Þú gætir kannski haldið að nú væri ég að ýkja og sagan væri kannski bara plat eftir allt saman. Jú, þú hefur eflaust ekki séð steina ganga hvað þá dansa. En ég skal segja þér að steinar eru nú þeim eiginleikum gæddir að þeir geta bæði gengið, hlaupið og rennt sér en þeir bara nenna því ekki. Þeir koma sér fyrir á góðum stað og þar vilja þeir vera um aldur og ævi ef þeir geta. Þá sprettur líka á þeim mosi og alls konar gróður sem þeir skreyta sig með. Því eins og allir vita eru steinar afar glysgjarnir. En svo er það annað sem þú ættir að vita, ef þú veist það ekki nú þegar, að steinar eru mjög góðir að hlusta. Þeim finnst ekkert skemmtilegra en að láta segja sér sögu. Þeir kunna líka sjálfir fullt af skemmtilegum sögum. Ef þú hlustar vel gæturðu heyrt eina eða tvær.

***

En hvar vorum við nú í sögunni okkar? Já alveg rétt, meira að segja tröllabarnið, sem allir höfðu gleymt og var löngu orðið steinrunnið, vaknaði upp með andfælum við jólasveinadansinn. Það hristi úfinn kollinn svo smásteinar og möl þeyttust í allar áttir. Hér virðist heldur betur vera gaman, hugsaði tröllabarnið. Ekkert þótti því skemmtilegra en að hlæja og nú var greinilega tími til að hlæja þó tröllabarnið vissi ekkert hvers vegna allir voru svona glaðir og reifir. Það hreifst með í sínu einlæga tröllahjarta og veltist um alla heiðina skellihlæjandi sínum tröllabarnahlátri. „Hna hna hno hno“ söng í fjöllunum.
Loks birti af degi. Sólin kíkti með öðru auganu upp yfir efstu klettabrúnina í Ysta hamri, leit snöggt yfir heiðina og niður dalinn en lokaði síðan auganu og hvarf bak við næsta tind. En geislarnir hennar skriðu niður heiðina dansandi í gulu kjólunum sínum þar til þeir snertu húsþökin í litla bænum sem enn lá sofandi við fjörðinn. „Sjáið, sjáið“ hrópaði Kobbi könguló þar sem hann hékk í þræðinum sínum aftan í fagurgrænni mosató, sem tekið hafði létt dansspor á steininum sínum, um leið og hún sönglaði Óðinn til gleðinnar svo hringlaði í mosaþráðunum: „lalalalalalalalaa, lalalala laala, laa“ „Sjáið“ hélt Kobbi áfram, „litli bærinn glitrar eins og gull í fönninni. Förum og segjum þeim, förum og segjum þeim fréttirnar.“ Og áður en ljóti jólasveinninn vissi af var öll hersingin lögð af stað í áttina að litla bænum við fjörðinn. Hópurinn rann niður heiðina eins og fé af fjalli.

***

ey1 006Í litla bænum sváfu íbúarnir vært allir nema Gunna gamla. Hún var elsta konan í bænum, lágvaxin horuð og hokin af lífsreynslu. Hún var búin að hella sér kaffi í bolla, settist við eldhúsborðið og leit út um gluggann. Hvað var þetta sem hún sá renna niður heiðina er snjóflóð að koma á bæinn? Guð minn almáttugur ég verð að láta bæjarstjórann vita af þessu. Gunna greip símann og hringdi í ofboði í Guðfinnu bæjarstjóra. „Það er eitthvað hræðilegt að nálgast bæinn. Ég held að það sé snjóflóð,“ hrópaði hún í símann. Guðfinna stökk með andfælum út úr rúminu og ýtti kröftuglega við eiginmanni sínum Runólfi skipstjóra . „Runni á fætur það er neyðarástand. Kallaðu út slökkviliðið og láttu vekja alla. Neyðaráætlun Rauður 1 er virkjuð!“ Guðfinna kallaði bæjarstjórn saman á neyðarfund í húsi almannavarna sem var neðst í bænum; í öruggu sjóli frá ógninni sem rann niður heiðina og stefndi á bæinn.
Gunna gamla henti yfir sig náttsloppnum og hljóp á kræklóttu fótunum sínum milli húsanna, barði á dyrnar og hrópaði: „Vaknið vaknið, bjargið ykkur, heiðin er hrynja yfir okkur, heimurinn er að farast.“ Ljós kviknuðu eitt af öðru í húsunum í bænum og forvitin augu litu út. Litlu börnin drifu sig í fötin sín, eitthvað spennandi var að gerast.
Á bæjarstjórnarfundinum , sem aðeins tók þrjár og hálfa mínútu, var ákveðið að rýma bæinn og tveimur mínútum síðar heyrðist viðvörunarflaut frá slökkviliðinu sem keyrði um bæinn til að vekja mannskapinn. „Allir niður á bryggju, allir í bátana,“ þrumaði Tommi slökkviliðsstjóri alvarlegri röddu. „Hætta á ferðum. Þetta er ekki rýmingaræfing. Allir í bátana.“ Út úr húsunum í bænum þustu stóri og smáir, ungir og gamlir, tvífættir og fjórfættir og allir hlupu eins hratt og þeir gátu niður á höfn. Þegar þangað var komið tóku vel skeggjaðir skipstjórarnir á móti bæjarbúum, rólegir og yfirvegaðir skipuðu þeir fólki í bátana. Rétt þegar verið var að klára að lesta síðasta bátinn renndu ljóti jólasveinninn og vinir hans af heiðinni sér inn í tóman bæinn. Þeir stöðvuðu við fagurlega skreytt jólatréð á torginu. Ljósin á greinunum lýstu í öllu regnbogans litum. „Vá, þetta er fallegasta jólatré sem ég hef séð!“ hrópaði ljóti jólasveininn og öll hersingin hóf að dansa af miklu kappi í kringum jólatréð.
Þegar karlarnir á bryggjunni voru rétt við það að leysa landfestar starði Runólfur skipstjóri fránum augum að bænum og sá þá hvers kyns var. Hann rak upp rokna hlátur og hrópaði svo endurómaði um alla bryggjuna: „Þetta er bara ljóti jólasveinninn og hyskið ofan af heiðinni.“ „Við ráðum nú léttilega við þau,“ svaraði stór sláni og greip skóflu sem stóð upp við einn bryggjupollann. „Tökum í lurginn á þeim,“ skríkti Gunna gamla svo hátt að beinin í henni skulfu. Bæjarbúa þustu nú sem fyrr af stað, en nú aftur til baka inn í bæinn. Nú skyldi sko kenna þessu heiðarhyski að raska ekki ró manna á jóladagsmorgunn. Í áhaldahúsinu náði fólkið sér í skóflur, haka og hrífur til að lumbra á óboðnu gestunum og síðan var haldið fylktu liði að torginu. Litlu börnin með geislasverðin og dótabyssurnar sínar ljómuðu af eftirvæntingu.

***

ey1 006Frá torginu hljómaði Óðurinn til gleðinnar þar sem heiðarbúar dönsuðu af mikilli innlifun í kringum jólatréð. Bæjarbúar stöðvuðu og horfðu undrandi á þetta skrýtna sjónarspil. Skyndilega blikaði á riffil í mannþrönginni. Stóri Kobbi miðaði og skaut í áttina að ljóta jólasveininum þar sem hann dansaði gleðidansinn sinn.
En ekki vera hrædd, mosatóin sá hvað var að gerast og stökk í veg fyrir kúluna, sem tætti upp mosagreyið svo það þeyttist í allar áttir. Mosató er nefnilega afskaplega óeigingjörn lífvera og alltaf til í að bjarga öðrum frá bráðum bana. Þegar fólkið sá þessa miklu hetjudáð drýgða þarna á torginu þeirra, einmitt á jólunum leið því dálítið undarlega inni í sér. Og þegar refurinn, sem bæjarbúar voru alltaf að reyna að drepa ár eftir ár, gekk fram fyrir hópinn og hóf að raða saman mosatægjunum, sem höfðu dreifst yfir mannfjöldann, skömmuðust þau sín afar mikið. Litlu stúlkurnar og litlu drengirnir hentu dótabyssunum sínum og geislasverðunum á jörðina og fóru að hjálpa rebba að týna saman tægjurnar af mosatónni. Og eftir smá stund voru allir bæjarbúar og allir heiðarbúar farnir að hjálpa til við verkið. Gunna gamla kom með gamla slitna jötu úr fjárhúsinu og í sameiningu púsluðu þau mosatónni saman ofan í jötuna. Þegar síðasta mosaflækjan var lögð í jötuna góðu biðu allir viðstaddir með öndina í hálsinum. Mun hún lifa þetta af? Mun hún ná að komast aftur á heiðina sína og sjá sólina rísa yfir sjóndeildarhringinn?
Allir biðu milli vonar og ótta. Meira að segja stóri Kobbi, sem var nú búinn að brjóta byssuna sína og henda henni upp á þak, bað í hjartanu sínu fyrir litlu mosatónni að hún kæmist aftur heim til sín. En munið nú kæru börn eftir dumba, dumba, dumba. Þetta er nefnilega mikilvægasta hljóð í heimi, þegar það er fullt af fegurð, þakklæti og kærleika þá getur ýmislegt gerst. Og viti menn ljóti jólasveinninn okkar sveif skyndilega í fallegu jólasveinastökki að jötunni, reif sig úr jólasveinajakkanum og stóð ber niður að mitti í frostinu og snjónum. Fólkið tók andköf „vá.“ Í brjóstinu á ljóta jólasveininum sló skínandi jólasveinahjartað og lýsti upp torgið, fólkið og litlu mosatóna, sem opnaði fyrst eitt auga, þegar heitur blíður jólasveinageislinn lýsti upp jötuna, síðan hitt augað og brosti svo stóru mosabrosi til allra viðstaddra. Það bros er engu líkt skal ég segja ykkur. Allir bæjarbúar og allir heiðarbúar hrópuðu upp af fögnuði. „Nú skal halda veislu,“ skipaði Guðfinna bæjarstýra „og engu til sparað.“ Allan daginn og alla nóttina var sungið og fagnað í litla bænum við fjörðinn.

ey1 007Þannig endar sagan um ljóta jólasveininn og vini hans á heiðinni. Eða næstum því. Bara ykkur að segja. Næstu jól og þau næstu og öll hin sem komu á eftir biðu allar litlu stúlkurnar og allir litlu drengirnir eftir að ljóti jólasveininn setti í skóinn þeirra og kæmi dansandi í bæinn með vinum sínum af heiðinni.

 

Sjöfn Jónsdóttir myndskreytti.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone