Má bjóða þér loft?

photo credit: flowercat via photopin cc

-Ó, hefurðu ekki áhuga á því?

–Jæja þá, úr því að við höfum tíma, eigum við þá kannski frekar að tala um kynbundið ofbeldi, dómsdagsspár eða spillingu og fordóma í samfélaginu? Já, finnst þér þau efni of raunveruleg? Gott og vel,  snúum okkur þá aðeins að loftinu, fyrst þér þykir það óraunverulegra. Ræðum aðeins hvað það er við loftið sem fælir okkur frá umræðunni.

-Þú segir að þú sért þeirrar skoðunar að hlýnun jarðar sé mýta, að hún eigi sér ekki stað og ef um er að ræða örfáar hækkandi gráður þá megi útskýra þær með því að líta á  hitabreytingar mannkynssögunnar. Og ef hún sé þá yfir höfuð til þá mun hún alls ekki hafa áhrif á okkur og komandi kynslóðir.

-Má ég spyrja þig hvaða loftslagsvísindamaður það var sem fékk þig á þá skoðun?

-Ó, þú segir nokkuð. Þú hefur þetta sem sagt ekki eftir loftslagsvísindamanni, heldur stjórnmálafræðingi og hagfræðingi. Já, sei sei, þeir  stýra því efnislega í samfélögum og hagkerfum. Ég verð nú samt að benda þér á að á undanförnum árum hafa náttúruhamfarir sem tengjast vatni og vindum stóraukist. Ég skal sko segja þér það vinur minn að guð hefur ekkert með þetta að gera. Umræðan kann þó að vekja með manni sömu tilfinningar og dómsdagsspár trúarbragðanna því þetta er umræða um yfirvofandi og óáþreifanlegt ástand. Þess vegna nennir fólk ekki að spá í þessu vandamáli sem virðist ekki alvarlegt. Þett er alvarlegt og við stefnum að okkar eigin dómsdegi. Þetta er ekki fjarlægur veruleiki sem við getum forðast og vonast til að vísindin bjargi.

-Já, fyrst þú hlustar enn á mig vinur minn, langar mig að biðja þig um að kynna þér þá vísindalegu umræðu sem þér hefur markvisst verið haldið frá. Þar er að finna staðreyndir um að yfirborð sjávar hafi hækkað og að jörðin mun ekki haldast í þeirri mynd sem hún er í dag ef kolefnislosun heldur áfram óbreytt. Hlýnun jarðar á sér stað núna skal ég segja þér.

-Vissir þú að það er aðeins lítill hópur manna sem hafnar því að hlýnun jarðar eigi sér stað? Sá hópur er hins vegar hávær og nýtir sér ómótaðar skoðanir fjöldans og viðheldur afneitun og kemur í veg fyrir að fólk móti sér skoðun með því að halda því fram að rannsóknir séu stutt á veg komnar. Stór hluti heimsbúa hefur aldrei heyrt um loftslagsbreytingar af mannavöldum og enn annar hópur er upplýstur um hættuna, en trúir ekki að hún sé raunveruleg. Að hún sé kannski að hluta til sósíalísk herkænska til að hægja á kapítalískum tryllitækjum.

-Ég skal sko segja þér það vinur minn, að hlýnun jarðar lætur sig stjórnmál  lítið varða. Hún er hér og nú og skiptir sér ekki í fylkingar. Stærsti hópurinn er  fólk sem hefur hlustað á rök afneitunarsinna, sá hópur sem trúir því að rannsóknir benda til annars, eða að rannsóknir séu ekki nógu langt á veg komnar. Sá hópur sem sér hættuna, er sá sem þarf að taka við stjórn umræðunnar. Hann þarf að smíða sér stefnu, verða að hreyfingu, ekki hreyfingu sósíalista eða græningja, heldur hreyfingu jarðarbúa sem átta sig á því að ástæðan fyrir því að ekkert sé að gert við vandanum sé vegna ómótaðra skoðanna heimsbúa.

-Umræðuna þarf að miða að markhópnum. Hún þarf að vera jafn skipulögð og umræðan sem byggir á afneitun. Það þarf að aðgreina hópana og ákveða hvernig umræðu skal kynna hverjum hópi. Við þurfum áætlun um hvernig kynna skal staðreyndir með einföldum hætti svo þeir sem hafa látið sig lítið varða um loftslagsmál reyni að skilja í stað þess að verða ónæmir fyrir umræðunni.

-Stattu upp kæri vinur, láttu þig heiminn varða. Á meðan þú ert enn undir áhrifum orða minna skaltu skoða málið og ræða það við þinn næsta mann. Það er rangt að halda því fram að hagkerfið þoli ekki breytingar, mannkynið þolir þær hins vegar ekki.

Vertu sæll.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone