Maður lifir ekki á lækinu!

syningaskra03

„Hvetja fólk til að koma með dósir, kaupa boli og klósettpappír – eða kannski bara kaupa verk.“

Um miðjan janúar tók ég eftir mikilli virkni á Facebook frá #KOMASVO og komst  að því að þetta er listasýning sex listamanna í Listasafni ASÍ sem bauð áhugasömum almenningi þátttöku með því að senda inn ljósmynd í like-keppni. Á Safnanótt, þann 6. febrúar, var sigurvegarinn kynntur; Sölvi Breiðfjörð frá Vestmannaeyjum með 1.734 likes, og ljósmyndin gefin safneign Listasafns ASÍ.

Samsýningin #KOMASVO er samstarf Ásgeirs Skúlasonar, Leifs Ýmis Eyjólfssonar, Nikulásar Stefáns Nikulássonar, Sigurðar Atla Sigurðssonar, Sindra Leifssonar og Sæmundar Þórs Helgasonar. Þeir líkja sér við íþróttalið sem þarf að spila vel saman til þess að allir njóti góðs af heildarútkomunni. Auk strákanna er Íris Stefanía Skúladóttir framkvæmdastjóri og þjálfari hópsins. Hún hefur aðstoðað þá við að setja sýninguna saman, séð um fjölmiðlaumfjöllun og ef til vill mikilvægast; hvatt þá áfram: „Komasvo strákar! Þetta verður algjör negla!“

 

Listin, markaðurinn og íþróttirnar pano5

Ástæða þess að litið var til íþrótta er sú að íþróttalið og samsýningar listamanna  þurfa á góðri liðsheild að halda en einnig fjármagni til þess að geta stundað vinnu sína. Staða listamannsins hefur tekið breytingum gegnum árin en eitt hefur haldið sér og það er þörf listamannsins fyrir velunnara. Styrkir eru af skornum skammti og sjóðir eins og myndlistarsjóður og listamannalaun virðast minnka með hverju árinu. Höfnunarbréfin, sem strákarnir fengu frá styrktaraðilum, eru meðal þess sem má sjá á sýningunni. Önnur verk eru beinlínis söluvarningur á borð við íþróttaboli merkta #KOMASVO lógóinu eða einfaldlega klósettpappír, enda er hann ómissandi þáttur í fjáröflun íþróttafélaga. Gestir eru hvattir til að koma með tómar dósir til styrktar sýningunni, nú eða bara kaupa verk. Í sýningaskránni, sem minnir á tilboðsbækling, má finna ótæmandi lista yfir þau verk sem eru til sölu en best væri að fara á Listasafn ASÍ og skoða úrvalið sem hefur vaxið með sýningunni. Sum verk hafa þurft að bíða á varaverkabekknum heillengi en önnur hafa fengið að spila með frá byrjun. Enn önnur hafa svo orðið til meðan á sýningunni stóð, verk sem listamennirnir töldu að gætu orðið sterkir leikmenn á vellinum.

Sýningin er fyrst og fremst ádeila á markaðinn og varpar ljósi á hvernig það er að vera listamaður með áhyggjur af næstu mánaðarmótum. Listamenn sýningarinnar draga markaðinn fram og sýna hversu fráleitur hann getur verið. Þeir eru meðvitaðir; senda beitt skilaboð, án þess þó að taka sig of alvarlega og reyna frekar að opna samtal um þessi mál. Markmiðið er ekki að kvarta, heldur að benda með spaugilegum hætti á hversu ömurleg staðan er.

20Einnig gagnrýna listamennirnir aðra þætti samfélagsins svo sem Nikulás Stefán í ljósmyndaseríunni Night. Hann tók sjálfsportrett af sér sem undirfatamódel og vísar þar með í auglýsingaherferð H&M í samstarfi við David Beckham. Hér er hann að leika sér að útlitsdýrkun og þráhyggjunni sem almenningur er með fyrir íþróttastjörnum. Á meðan skoðar Ásgeir Skúlason neysluhyggju í verkinu “Æ nei nei”. Verkið er triptych eða þriggja flata verk, sem sýnir hann brjóta Omaggio vasa; hann vísar þar með bæði í hönnunaræðið sem hefur gripið fólk undanfarin ár og verk listamannsins Ai Weiwei þar sem hann brýtur ævafornan vasa sem skoðun á menningu og verðmæti listaverka.

Það má einnig nefna verk eftir Leif Ými sem sýnir teikningu sem langar að vera myndlist, hún er ágætis dæmi um viðurkennt myndlistarverk en hún hangir á vegg í tröppunum bak við annað verk eftir Sæmund Þór. Leifur skoðar hér fagurfræði og gildi myndlistar, öfugt við verk Sæmundar sem er auglýsing fyrir prentfyrirtæki og það eina sem gerir það að listaverki er fullyrðing og ákvörðun hans um svo að svo sé.

10943785_497307990407561_6383878314150136501_oSigurður Atli og Sindri skoða keppnisandann sem myndast í kringum íþróttamót eða listasýningar. Sá sem selur mest og dýrast fær ákveðna stöðu sem hæfur og vinsæll listamaður. Sama má segja um íþróttamenn, sá sem skorar flest mörk er bestur og dýrastur. Sindri fór einföldu leiðina og titlaði skúlpturinn sinn Besta Verkið á Sýningunni, þar með fer það ekki á milli mála hvað áhugasamir kaupendur eiga að slást um. Verkið er ferhyrningslaga stálplata í þykkum hnoturamma en Sindri vinnur mikið með grófum efnum svo sem timbri, málmum og steypu. Sigurður Atli fer fínni höndum um málefnið í verkinu sínu, Einkunnarorð en hann setti orðin samvinna og samkeppni undir stöfum Listasafns ASÍ á utanverðu húsinu. Með þessu er verið að vekja upp spurningar um tvíræðni hópíþrótta eða þesskonar hópeflis.

 

Kaótískt skipulag

3

Listasafn ASÍ er kjörinn staður fyrir þessa sýningu, ekki bara vegna nafn síns og alþýðunnar sem í þetta sinn fékk að sýna þar, heldur einnig vegna þess að það minnir á íþróttahöll og ýtir undir samtalið milli lista og íþrótta. Ljóst parket salarins hefur meira að segja fengið nýtt hlutverk, hið íþróttalega lógó #KOMASVO er kyrfilega límt niður eins og í hinum íþróttahöllunum. Sýningarýmið hefði ekki mátt vera minna miðað við fjölda og stærð verkanna. Þau eru allt frá því að vera readymade í anda Duchamp;  Kefli eftir Sindra, til teikninga af hugsunarmynstri, Leikkerfi eftir Leif Ými, og skapa ákveðið ójafnvægi ef litið er á einstaka verk í einu. Hinsvegar sem heild þá mynda þau skipulagt kaós sem er í takt við allar þær spurningar og samtöl sem sýningin heimtar.

Þetta er umfangsmikil sýning sem má fara á oftar en einu sinni en það eru stöðugt ný verk að bætast við. Listamennirnir hafa leyft sér að færa hlutina til, haldið sýningunni þar með lifandi og í stöðugri þróun. Verkin eru ólík en spila vel saman og hvert þeirra eykur margræðni sýningarinnar. Vasily Kandinsky skrifaði um listamenn að þeir væru krafturinn sem ýtti af stað samfélagsbreytingum  með því að benda á það sem mætti betur fara. Hér eru strákarnir að gera einmitt það. Það þarf  kjark til þess að viðurkenna þá stöðu sem þeir eru í; ungir, blankir listamenn með feril sem veltur á styrkjum eða sölu verka þeirra.

Rýmingarsala markar lok þessa leiktímabils

#KOMASVO er ekki sýning sem varir frá ákveðinni dagsetningu til annarar heldur er þetta áframhaldandi verkefni og boltinn rétt byrjaður að rúlla. Strákarnir ætla að safna í landsliðið og stefna á að fara með sýninguna hringinn í kringum landið næsta sumar. Vonast þeir þá til að  fá styrk frá bensínstöðvum sem hafa hingað til ekki hikað við að styrkja íþróttalið. Leiktímabilið endar að þessu sinni 1. mars en þá missir #KOMASVO húsnæðið. Efnt verður til rýmingarsölu næstkomandi sunnudag en það verður að losa sig við góða leikmenn til þess að eiga fyrir næsta leiktímabili.

!!!#KOMASVO!!!

syningaskra02 syningaskra01

 

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone