Með helförina á heilanum – Illska í Borgarleikhúsinu

Sol.Illska

illska-fjallkonan-dokk-final

Agnes er með helförina og seinni heimsstyrjöldina á heilanum. Hún vinnur að meistararitgerð sinni um nýnasista af holdi og blóði og kynnist bæði villuráfandi íslenskufræðingnum Ómari og fróða nýnasistanum Arnóri á svotil sama tíma. Agnes og Ómar byrja saman, skiptast á að hita kaffi fyrir hvort annað, færa hvort öðru morgunmat í rúmið og veita hvort öðru kurteislega munnmök. Á sama tíma hittir Agnes Arnór í rannsóknarskyni. Hann er ástfanginn af henni þrátt fyrir að fyrirlíta uppruna hennar og er fremur upptekin af því að réttlæta tilfinningar sínar fyrir sjálfum sér. Agnes verður ófrísk og það er alls ekki ljóst hver faðir barnsins er.

Þetta er í mjög grófum dráttum söguþráður Illsku í uppsetningu Óskabarna Ógæfunnar í Borgarleikhúsinu. Sýningin er leikgerð samnefndrar bókar eftir Eirík Örn Norðdahl. Leikmyndina gerði Brynja Björnsdóttir og sýningin er leikin í risastórum tröppum sem líta út eins og hrá steinsteypa og vekja upp módernísk hugrenningatengsl. Búningagerð var í höndum Guðmundar Jörundssonar og þar er íslenski fáninn þjóðnýttur á alla mögulega vegu. Hann er notaður sem teppi, kjóll og ungbarn, svo eitthvað sé nefnt. Þetta verður til þess að skapa afskaplega sérkennilegan heim, og er fantavel gert. Tónlistin er mjög skemmtileg viðbót við verkið en Garðar Borgþórsson stjórnaði valinu á henni. Hún skapar eins konar kabarettstemmingu sem fellur vel inn í heildarmynd sýningarinnar.

 

Villuráfandi íslenskufræðingar og ákveðnir nýnasistar

Sólveig Guðmundsdóttir fer með hlutverk Agnesar og er, að öðrum ólöstuðum, stjarna sýningarinnar. Agnes verður lífsglöð, viðkunnanleg og nær nánu sambandi við áhorfendur. Það er auðséð hvers vegna hún heillar hinn stefnulausa Ómar (Hannes Óla Ágústsson) og nýnasistann Arnór (Svein Ólaf Gunnarsson). Ómar er passívur í sýningunni, þar til í blálokin og kannski er ekki alveg nægilega vel undirbyggt hvað í hans karakter verður til þess að hann grípur til þess örþrifaráðs að brenna hús þeirra Agnesar til grunna. Nýnasistinn Arnór vekur samúð áhorfandans þrátt fyrir að drættirnir ættu að vera fremur ósympatískir. Hann stendur með Agnesi og hjálpar henni og elskar hana einlæglega, en Ómar er passívur fyrst og fremst og stendur steinrunninn frammi fyrir því að Agnes þarfnast hjálpar sem hann er ófær um að veita. Það þyrfti að sýna neikvæða drætti Arnórs meira, það er hamrað inn í áhorfandann að hann er nýnasisti en það rímar ekki alveg við upplifunina á honum. Það er sagt, en lítið sýnt.

Sol.Illska

Hvar er illskan?

Það hefur verið mikið um uppsetningar á skáldverkum í íslensku leikhúslífi undanfarið og spurningin er alltaf sú sama. Hvernig stendur sýningin sig óháð bókinni? Þessi sýning stendur ágætlega sjálf og ég velti því meira að segja fyrir mér hvort það sé hindrun að hafa lesið bókina en ekki hjálp. Í sýningunni eru margir fróðleiksmolar um hin og þessi hugtök og fjölmörgum spurningum er velt upp um þjóðerni, popúlisma, fasisma. Hvað þýðir það að vera Íslendingur? Er Agnes íslensk? Það eru margar góðar pælingar en í sýningu er ekki sama svigrúmið til þess að koma öllum þessum þráðum heim og saman og það vantar einhvern rauðan þráð, einhverja úrvinnslu, til þess að hugtakasprengjan sem á sér stað í skáldsögunni skili sér til áhorfandans, til þess að sýningin standi undir nafninu Illska – Ísland, ástin og helförin. Vegna þess að hér er reynt að vinna með of marga þræði verður aðaláherslan á hið persónulega en ekki hið almenna en mér fannst helsti kostur bókarinnar vera hvernig hið persónulega, ástarþríhyrningurinn, var notað til þess að koma hinu almenna til skila. Leikgerðin dansar línudans með Agnesi – er hún kona í krísu sem er með þráhyggju fyrir helförinni eða er helförin raunverulegur áhrifavaldur í hennar lífi? Ástarþríhyrningurinn verður þannig í forgrunni í sýningunni og þjóðerni, nasismi og illska mynda einhvers konar bakgrunn.

Þrátt fyrir þetta nær Illska að vera góð leiksýning vegna þess að leikararnir skila sínum hlutverkum mjög vel og áhorfandinn fær einlægan áhuga á persónunum sem þeir skapa. Það verður spennandi að fylgjast með sjálfstæða leikhópnum Óskabörn Ógæfunnar þegar fram líða stundir.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone