Milli bíls og Bónuss – Veggmálverk í Breiðholti

ErróÁlftahólar

Í febrúar lá leið mín í Breiðholtið að skoða útilistaverkin sem Reykjavíkurborg hefur komið þar fyrir á undanförnum árum. Tíu þeirra mynda ratleik sem ég hafði til hliðsjónar og er að finna á vefsíðu Listasafns Reykjavíkur. Ég ólst upp í Breiðholti og enn líður mér pínulítið eins og ég sé á heimavelli þar, taldi mig geta rennt yfir þetta á einum eftirmiðdegi. Þremur Breiðholtsferðum síðar á ég enn tvo skúlptúra óskoðaða.

Þetta voru skemmtilegir leiðangrar, fyrir utan þegar ég villtist í Seljahverfinu í kafaldssnjó í leit að verkum Ásmundar Sveinssonar og aftur í leit að veggmálverki Errós í Álftahólum. Ég kom við í Nýló og keypti svo kæfu í pólsku búðinni. Þarna var líf og slangur af fólki. Ég ætla að fara aftur fljótlega og heimsækja Gamla kaffihúsið.

 

Risastór ratleikur

Í ratleiknum eru sex skúlptúrar og fjögur veggmálverk. Hér verður fjallað um málverkin; Fjöðrina eftir Söru Riel, staðsetta í Asparhólum, Birtingarmynd eftir Theresu Himmer í Jórufelli, Án titils, eftir Ragnar Kjartansson í Krummahólum og Veggmynd eftir Erró í Álftahólum. Fjöðrin er mjög aðgengilegt verk, við nánari skoðun samsett úr myndum af fuglshömum fjölmargra fuglategunda. Á vefsíðu Listasafns Reykjavíkur kemur fram að með þessu vilji Sara m.a. vísa til fjölbreyttrar íbúasamsetningar Breiðholtsins.

Birtingarmynd Theresu Himmer er stílhreint og fallegt verk. Ekki er þó ljóst af því að horfa á veggmyndina hvað hún sýnir: uppstækkaðar steypuagnir sem finna má í byggingunni sjálfri undir klæðningunni. Veggmynd Errós líður fyrir staðsetningu sína en beint framan við blokkarvegginn sem hún prýðir, er minni blokk sem hylur hana að mestu. Það er því ekki verkið sjálft sem vekur athygli heldur staðsetningin sem vekur upp spurningar. Veggmynd Ragnars Kjartanssonar er mun betur fyrir komið og vel sýnileg frá bílastæði framan við Bónus. Ragnar lét stækka upp skissu sem upprunalega var í póstkortastærð. Í verkinu birtist draumur um sumar og sól í formi pálmatrés í skemmtilegri andstæðu við steinsteypt umhverfið, hér grípur myndin augað á hlaupunum milli bíls og Bónuss.

 

List handa hverjum?

Útilistaverk eru laus við ábúðarmikið andrúmsloft listasafna. Þau birtast á ólíkan máta eftir veðri og birtubrigðum. Þau eiga sér enga áhorfendur, hér eru allir vegfarendur. En fyrir hvern eru þessi verk? Hverjir eiga leið um? Í Breiðholti býr hlutfallslega fleira fólk af ólíkum uppruna en í öðrum hverfum borgarinnar, eða ríflega fjórðungur íbúa. Sara Riel tekur afstöðu til þessa en íbúasamsetning hverfisins virðist ekki vera höfð til hliðsjónar við framkvæmdina að öðru leyti.

Stærð verkanna vekur athygli en Fjöðrin er t.d. sautján metra há. Af hverju eru þessi verk svona risastór? Upp úr miðri síðustu öld stækkuðu málverk bandarískra málara ört og til urðu miklir flekar. Þessi listaverk tengjast einnig sögu veggmynda, en er stærð þeirra og gerð vísasta leiðin til þess að ná til almennings frá öllum heimshornum?

Þetta framtak borgarinnar, að færa listina í íbúðahverfi, er forvitnilegt og enn forvitnilegra væri að vita hvað íbúunum finnst. Er árangursríkt að fá listamenn til þess að skreyta húsveggi til þess að skapa tengsl milli almennings og myndlistar? Var listamönnunum sett það skilyrði að nota flennistóra blokkarveggi undir verk sín? Er þessi framkvæmd í takt við okkar tíma, þegar listamenn keppast við að skapa samfélagsleg listaverk? Hvert er hlutverk þessara listaverka? Spurningarnar sem vakna eru margar.

Veggmálverkin fjögur eru öll sterk listaverk hvert á sinn hátt. Mér fannst þau flott. En hvað finnst íbúunum í hverfinu? Hvað sjá þeir þegar þeir líta á þessi verk, í framhjáhlaupi, í slyddunni? Hvenær er list í almenningsrými vel heppnuð?

 

ErróÁlftahólar

Mynd: Listasafn Reykjavíkur

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone