Misskilningur í Tjarnarbíói

missing_a_point_portret_x-1

Dansverkið This Conversation is Missing a Point er íslenskt verk sem sýnt er í Tjarnarbíói um þessar mundir. Höfundar og flytjendur verksins eru Berglind Rafnsdóttir og Unnur Elísabet Gunnarsdóttir. Einungis þrjár sýningar verða haldnar á verkinu og verður sú síðasta á þriðjudaginn næstkomandi, 17. nóvember.

missing_a_point_portret_x-2

Af hverju er þetta fyndið?

Ég fór með ákveðið stress í maganum á þessa sýningu. Ég er nefnilega hvorki útlærður danshöfundur né sérlegur fræðimaður um dans. Ég hef hins vegar mjög gaman af dansi og hvers kyns sviðslistum og mætti segja að ég hafi farið sem fulltrúi hins almenna neytanda á þessa sýningu. Þar sem ég var pínulítið stressuð yfir að „skilja“ kannski ekki verkið, þá skildi ég það auðvitað ekki í byrjun. Fyrstu tvær mínúturnar var ég upptekin af því að finna einhverja nálgun sem hægt væri að túlka. Allir fóru að hlæja. Ég hélt ég væri kannski að misskilja eitthvað. Af hverju hlæja allir núna? Var þetta einhver dansbrandari sem aðeins innvinklaðir danskúlistar skilja? Það var bara hins vegar ekkert flóknara en svo að það sem dansararnir voru að gera var fyndið. Sprenghlægilegt alveg. Þær voru svo dásamlega fyndnar og hikuðu ekki við að gera sig vandræðalegar og óskiljanlega skiljanlegar á einhvern fáránlegan hátt. Ég leyfði mér bara að njóta og hætti að stressa mig. Undir lokin þurfti ég að halda aftur af mér þar sem mér fannst ég hlæja óþarflega hátt!

missing_a_point_portret_x-1

Gleðin ein við völd

Verkið er greinilega vel æft og með það fara dansarar sem greinilega kunna sitt fag. Mér fannst mjög vel heppnað hvernig mátti heyra andardrátt dansaranna og hvísl. Þær virtust færast nær okkur áhorfendunum á einhvern undarlegan hátt. Tónlistin virtist hins vegar stundum ekki eiga við, hún varð truflandi. Kannski af því mér fannst ég ekki heyra nógu vel í dönsurunum lengur. Ég veit satt að segja ekki hvað það var í byrjun sem gerði mig örlítið pirraða yfir tónlistinni en þegar líða tók á skildi ég hvers vegna. Ég sá endurtekningu tónlistarinnar sem takt lífsins, endurtekningu rútínunnar í okkar daglega lífi. Þegar Berglind hermdi allt eftir Unni Elísabetu og þegar Unnur fór að dansa eftir sínu nefi, fipaðist Berglindi í sínum dansi og náði sér ekki á strik. Þetta er auðvitað kunnuglegt stef í lífinu, að mæla sig við aðra og finna því ekki taktinn sinn, það veit aldrei á gott. Dýpra finnst mér eiginlega ekki hægt komast að kjarna þessa verks og fannst mér stundum skorta á dýptina. Misskilningur túlkaður í dansi er fyndinn og kannski þarf ekki dýpri túlkun en það. Sem gamanverk er það vel heppnað og hin besta skemmtun. Dansararnir tóku sig ekki of hátíðlega og gerðu það sem var fyndið alveg sprenghlægilegt.

 

Ertu manneskja?

Heilt á litið er verkið fínasta skemmtun. Það þarf ekki að vera menntaður dansari til að kunna að meta það. Það er nóg að vera manneskja. Þetta er frábær sýning til að fara á með besta vini eða vinkonu. Einhverjum sem kannast við sig í hinum ýmsu kómísku aðstæðum með þér og þið getið hlegið að. Augnablikin eru svo mörg og það skemmtilega er að það er eiginlega ekki hægt að útskýra þau með orðum. Berglind og Unnur Elísabet kunna listina að fá fólk til að hlæja og ég hlakka til að sjá hvað þær gera næst.

 

Viltu vita meira?

http://tjarnarbio.is/index.php/211-this-conversation-is-missing-a-point

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone