Mjólkurkaffi eða molasopi?

latte-art

Ég neyðist til þess að játa svolítið fyrir þér, lesandi góður. Ég er lattelepjandi höfuðborgarpakk. Ég drekk latte, meira að segja daglega. Ég á lopapeysu (ekki svona venjulega íslenska, mín er útprjónuð og einlit) og ég stunda kaffihús. Ég á snjallsíma og makka. Ég er líka í doktorsnámi í íslenskum bókmenntum og hef aldrei migið í saltan sjó. Ég vinn ekki við fisk og þar með ekki að „uppbyggingu landsins”.

Ég er líka hlynnt listamannalaunum. Ég les bækur og greini þær, ég horfi á málverk, fer á leiksýningar, í kvikmyndahús og horfi á sjónvarpið. Svo les ég dagblöð, bý í húsi, keyri bíl og geri alls kyns aðra hluti sem byggja á hönnun og listum. Svona er ég nú mikið pakk. Einn af bræðrum mínum vinnur við að búa til kvikmyndir og ég myndi nú aldeilis verða stolt og glöð ef hann fengi listamannalaun, alveg eins og ég var stolt af honum þegar hann fékk styrk til að búa til stuttmynd (hún var mjög góð!). Ég á vini sem eru rithöfundar, málfræðingar, tónlistarmenn, myndlistarmenn og ljóðskáld.

Ég keyri í skólann á morgnana, með latte í ferðamáli (ég á sko svo fínt ferðamál og fína kaffivél heima hjá mér sem ég fékk í afmælisgjöf), með makkann og stundum spjaldtölvuna mína í töskunni minni. Svo sest ég við skrifborðið mitt, les fræðigreinar, skrifa, undirbý kennslu, skrifa greinar. Í hádeginu fer ég og kaupi mér mat, stundum á kaffihúsi. Stundum slæ ég öllu upp í kæruleysi og fer með makkann minn á kaffihús og læri þar. Nú hlýtur þú, lesandi góður, að hafa tekið andköf. Þetta eru nefnilega hámörk úrkynjunarinnar.

Ég skil að ég er lánssöm að geta leyft mér að læra mikið og lengi og stunda rannsóknir og fræðistörf á mínu eigin kjörna sviði. Ég veit að það geta það ekki allir og meðal annars þess vegna reyni ég að nýta mér þetta tækifæri og þessar aðstæður vel. En kæri lesandi, mig langar svo til þess að fá að vita eitt. Hvað hefurðu á móti latte?

Latte er mjólkurkaffi. Í því er lítið kaffi, mikil mjólk, sem er flóuð og freydd áður en henni er bætt við. Hvernig getur nokkur maður haft svona mikið á móti einum kaffidrykk að hann sé orðinn táknmynd úrkynjunar, letingja, platlistamanna og snobbpakks á heilu landi? Og hvað á ég að gera, kæri lesandi, þegar ég les aðsenda grein frá þér, eða komment á internetinu, þar sem þú kallar mig lattelepjandi pakk? Ég lep ekki kaffibollana mína. Því miður, það væri örugglega tilraunarinnar virði, en ég er nú svo ófrumleg að ég drekk þá bara. Hver eiga viðbrögð mín við þessu að vera? Ó, nei! Þarna hittirðu á snöggan blett! Val mitt á kaffidrykk! Nú endurskoða ég líf mitt í heild!

Ég gæti vitaskuld séð við þér, lesandi góður. Ég gæti farið að drekka cappuchino. Hann er alveg eins, nema með minni mjólk. Það er allt í lagi því ég fæ mér hvort sem er alltaf tvöfaldan latte. En ég gæti líka sagt þér að við hér á höfuðborgarsvæðinu, sem vinnum ekki við að míga í saltan sjó, eða dreypa hendi í kalt vatn, við erum líka fólk. Og flest erum við ágætlega klár og mörg okkar taka skapandi hugmyndum fegins hendi. Því segi ég við þig, ágæti lesandi: Taktu okkur eins og við erum. Við erum ágæt, þó við kvörtum yfir snjó, förum í Hörpu, leikhús og drekkum mjólkurkaffi.

 

Kær kveðja,

Hildur Ýr Ísberg, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum.

 

P.s. Ég er líka femínisti.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone