Morrissey: Píslarvottur eða andstjarna?

mozziah2

morrissey

Ferill poppstjörnunnar Morrisseys er á fremur undarlegum stað. Fréttir af honum hafa lítið breyst í gegnum árin, þar sem hann ýmist predikar grænmetisát eða skammast í bresku krúnunni. Þetta hefur hann gert frá því hann var í þeirri hljómsveit sem gerði hann frægan, The Smiths. Er Morrissey frægur fyrir nokkuð annað? Við lauslega rannsókn finnst varla sú grein á internetinu þar sem tengsl Morrissey við hljómsveitina eru ekki rakin. Fáar lifandi poppstjörnur hafa þó hlotið eins goðsagnakennda ímynd og „stóri kjafturinn“ Morrissey. Sú ímynd má segja að hafi verið innsigluð á lokametrum The Smiths, þá helst í myndbandi við lagið „Stop me if you think you‘ve heard this one before“, og haldist nokkuð óbreytt. Morrissey hefur átt erfitt um vik með að losna undan þeirri ímynd, sem dapra söngvaskáldið í skrýtnu hljómsveitinni. Það má því velta fyrir sér hvort það sé viljandi gert að Morrissey kjósi að synda sífellt gegn straumnum og vera einskonar píslarvottur.

Velkomin til Moz Angeles

Táknmynd Morrisseys hefur teygt sig langt út fyrir það menningarsvæði sem hann sjálfur er sprottinn úr og fest þar djúpar rætur. Víða er að finna mjög afmarkaða fylgjendahópa sem halda einskonar helgiathafnir tileinkaðar honum einum. Heimildamyndin Is it really so strange? (2004) fjallar ítarlega um menningarkima í Los Angeles þar sem stór hópur fólks, að miklu leyti ættað frá Mið-og Suður-Ameríku, hittist reglulega á klúbbakvöldum sérstaklega tileinkuðum Morrissey. Það er aðeins dæmi um þær vinsældir sem hann hefur öðlast í Los Angeles, allt frá árinu 1991 þegar hann hélt sína fyrstu tónleika þar. Fyrir það hefur borgin gjarnan verið kölluð „Moz Angeles“.

Ef litið er á félagslegan raunveruleika innflytjenda frá Mið- og Suður-Ameríku á svæðinu í kringum Los Angeles síðustu áratugi er ákveðna samsvörun að finna milli kerfisbundinnar mismununar innflytjenda og vinsælda Morrisseys. Hann virðist ná sterkum tengslum, raunar þvert á menningu, við fólk sem telur sig jaðarsett eða útundan í samfélaginu af ýmsum ástæðum og gefur þeim rými til þess að endurspegla sig sjálft. Haldin eru klúbbakvöld, karókí og tónleikar þar sem The Smiths eru settir á svið eins og leikrit, jafnvel af yngri kynslóðum sem hvorki upplifðu hljómsveitina né hafa séð Morrissey á sviði. Þar má finna hina vinsælu hljómsveit Mexrrissey sem spilar aðeins ábreiður af lögum The Smiths og Morrissey í mexíkóskum þjóðlagabúningi auk hljómsveita á borð við Sweet and Tender Hooligans en lykilmaður hennar er hinn „mexíkóski“ Morrissey, Jose Maldonado, sem á sér eins konar hliðarsjálf sem Morrissey-eftirherma.

Vinsældir Morrisseys eru ekki aðeins miklar í Los Angeles heldur einnig í Mið-Ameríku og sér í lagi Mexíkó. Í viðtali við Washington Post heldur einn af aðdáendum Morrisseys þar í landi því fram að þjóðfélagslegar aðstæður liggi að baki þessari miklu aðdáun: „[…] the fact that Mexicans are obsessed with Morrissey has something to do with having grown up heavily oppressed by their government, Catholicism and unwavering machismo patriarchal standards“. Þau fyrirbæri eða stofnanir sem hann nefnir hefur Morrissey gagnrýnt harðlega í gegnum tíðina; íhaldsamt hefðasamfélag, alræði stjórnvalda, hefðbundnar kynjaímyndir og kirkjuna. En í samhengi við hið síðastnefnda er vert að benda á írsk-kaþólskan uppruna Morrisseys. Ímynd hans, eins og hún birtist í Los Angeles og Mexíkó, snertir beinlínis við táknheimi kaþólskunnar. Viðburðirnir sem tileinkaðir eru honum minna á dýrlinga- og píslarvottartrú þar sem myndir af honum eru uppi um alla veggi, fólk klæðist fötum eins og Morrissey og tónlistin er alfarið helguð honum einum.

Eitt af aðalsmerkjum Morrisseys sem listamanns, og styrkt hefur píslarvottarímyndina, eru afar sterkar skoðanir hans á hinum ýmsu málefnum. Slíkt hefur haldið honum á jaðri samfélagsumræðunnar og ef til vill má rekja það til hans eigin fyrirmynda, til dæmis James Dean og Oscar Wilde, en báðir voru þeir fulltrúar hins félagslega einangraða gagnvart hinu „eðlilega“ og gefna í samfélaginu. Oscar Wilde var gerður útlægur á síðustu árum ævi sinnar fyrir „kynvillu“ og James Dean var þekktastur fyrir að vera uppreisnarseggur og storka kerfinu. Það er því óljóst hvort „andstjörnuhegðun“ Morrisseys í heimi popptónlistarinnar sé meðvituð tilraun, innblásin af hans helstu skapandi fyrirmyndum, eða hvort hún sé óviljandi afleiðing þess að stór hluti meginstraums tónlistarunnenda og gagnrýnenda líti hann hornauga.

„Ég vil bara vera ég“

Morrissey hefur frá upphafi verið passívur gagnvart aðdáendum þegar hann ræðir vinsældir sínar en sú afstaða hefur leitt hann á stað sem er í æ minni tengslum við umheiminn. Í nýlegu viðtali við hinn þekkta spjallþáttastjórnanda Larry King útskýrði hann afstöðu sína til frægðarinnar svo:

I just speak the words of ordinary people. I‘m not flash, I‘m not glitsy and I‘m not part of the industry. So sometimes I can seem a bit strange […] Most people who want to be in the industry, who want to sing and be successful, they have to behave a certain way – and they do – and have a fixed idea about glamour. I‘ve never had any of that. […] And I just wanted to be me, for better or for worse.

Morrissey er enn að í dag og á síðustu árum hefur hann gefið út bækur og plötur með reglulegu millibili. Sólóferill hans hefur þó í gegnum tíðina verið eins og langt bergmál af því tímabili þegar hann var með The Smiths og því lengra sem líður frá árinu 1987, því erfiðara verður að staðsetja Morrissey í nútímanum. Í dag verður frægð hans ef til vill best útskýrð þannig að meginstraumurinn sér hann sem gamla poppstjörnu sem ítrekað kemur sér í vandræði fyrir umdeildar skoðanir eða stórkarlalegar yfirlýsingar.

Lítill og afmarkaður, nær trúarlegur, hópur aðdáenda lifir þó góðu lífi víða um veröld og heldur táknum söngvaskáldsins hátt á lofti. Augljóst er að Morrissey hefur engan áhuga á hlaupa á eftir vinsældum sínum með nýbreytni og sveigjanleika en slíkt gerir að verkum að í augum flestra er hann píslarvottur í heimi poppsins.

mozziah

 

Frekari upplýsingar:

„Mexrrissey: The phenomenon that created a Mexican supergroup“

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone