Mýkt og næmni í Gallerí i8 – Sýning Margrétar H. Blöndal

Picture1

Myndlistarumfjöllun

Sýning Margrétar H. Blöndal

Gallerí i8

21.janúar-5.mars 2016

 

Ólífuolía, vatnslitur og blýantur

Dagana 21.janúar til 5.mars stendur yfir sýning á teikningum eftir Margréti H. Blöndal.  Að þessu sinni eru þetta teikningar á tvívíðum fleti.  Margrét hefur mikið fengist við skúlptúra sem kalla mætti einskonar teikningu í rými. Mikil tengsl eru á milli teikninganna sem nú eru sýndar og skúlptúranna. Það má nánast sjá þær lifna á blaðinu og breytast í þrívíð form. Teikningarnar eru unnar með blýanti, vatnslit og ólífuolíu. Mikil mýkt og næmni er í verkunum og þau vekja með manni góða tilfinningu að því leyti að þau eru á einhvern hátt sönn og án tilgerðar. Þau skilja mikið eftir fyrir áhorfandann að túlka, eru á mörkum þess að vera fíguratíf og abstrakt. Í þeim er mikið líf og náttúra. Ólífuolían gegnir stóru hutverki, hún býr til einskonar hjúp um teikninguna og er líka teikning í sjálfu sér. Hún býr til skemmtilega áferð þegar hún er notuð með vatnslitnum. Teikningin verður hálfgegnsæ og birtan í litnum verður ótrúlega falleg.

Í viðtali  við Margréti í Víðsjá á RÚV þann 1. febrúar síðastliðinn, kemur fram að pappírinn sem hún notar í sýningunni hefur hún valið gaumgæfilega.  Sá pappír sem henni fannst henta best er pappír sem er notaður til að prenta kiljur. Framsetningin er látlaus á hvítu kartoni, í hvítum ramma á hvítum veggjum gallerísins. Þannig njóta myndirnar sín mjög vel. Í fyrrnefndu viðtali fjallar Margrét einnig um hugmyndirnar að verkunum. Þær eru sprottnar úr hversdeginum, út frá ljósmyndum sem hún hefur tekið.  Ekki á þann hátt að hún teikni eftir ljósmyndinni heldur er það kannski bara eitthvert lítið smáatriði eða tilfinning úr myndinni sem er kveikjan.  Hún lýsir því hvernig sú tilfinning kemur stundum yfir hana að hún þráir að vinna með teikninguna og hinn tvívíða flöt. Hún lýsir einnig þeirri góðu líðan sem felst í því að leyfa sér að setjast við verkið.  Ef til vill er það einmitt þetta sem skilar sér svo vel og áhorfandinn skynjar í teikningunum.

Picture1  Picture2  Picture3

Myndirnar sem birtast með þessum texta eru úr bókinni, Margrét H. Blöndal Drawings.

Augnakonfekt heim í stofu

Samhliða sýningunni gefur Crymogea út bók með teikningum eftir Margréti.  Í henni birtast teikningar af sýningunni og einnig fleiri teikningar.  Inngang að bókinni skrifar Gavin Morris og fjallar þar um teikningarnar og skúlptúr verk Margrétar.  Að öðru leiti er enginn texti í bókinni, engir titlar á teikningunum og þær fá að njóta sín ómengaðar og frjálsar.  Bókinni er svo sannarlega hægt að fletta aftur og aftur.  Alltaf birtist eitthvað nýtt, þú tekur eftir nýrri línu, virðir fyrir þér hvernig olían og vatnsliturinn blandast og mynda fíngerða dropa.

 

Sjá nánar:

Margrét H. Blöndal. Margrét H. Blöndal Drawings. Reykjavík: Crymogea, 2016.

Víðsjá. RÚV, February 1, 2016.

http://www.ruv.is/sarpurinn/ras1/vidsja/20160201.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone