Njála ‘is the new black’ – Umfjöllun um Njálu í uppsetningu Borgarleikhússins

Njála
Njála

Það er ákveðin áskorun fólgin í því að berjast við dreka. Sviðsetning Njálu er mjög svipuð drekabardaga, að því leyti að efnið er stærra en sviðið, viðfangsefnið óáþreifanlegt og ekki heiglum hent að takast á við það. Að auki eru drekar ekki til – og hin eina sanna Njála ekki heldur. Í viðtali í leikskrá segir leikstjóri Njálu, Þorleifur Örn Arnarson, að Njála sé verk sem ekki er hægt að setja á svið og í því liggi áskorunin. Leikdómarar Sirkústjaldsins örkuðu því af stað hinir fúllyndustu og alls ekki bjartsýnir á að drekinn yrði sigraður.

Óvænt ánægja

Hópurinn sem stendur að uppsetningu Njálu er samansettur af frábærum listamönnum úr hinum ýmsu áttum. Leikgerðina skrifuðu þeir Mikael Torfason og Þorleifur Örn og danshöfundur er Erna Ómarsdóttir. Við samningu leikgerðarinnar nýttu höfundar sér ítarlegar rannsóknir Helgu Kress og það var snjallt hjá þeim, sérstaklega hvað varðar hlutverk Hallgerðar og dansinn um hárið, þar sem titill greinar Helgu, Fá mér leppa tvo er endurtekinn í sífellu, auk fróðleiks um hár Hallgerðar og merkingu þess í verkinu. Leiksýningin er gagnvirk, áhorfendur eru hvattir til þess að taka myndir og myndbönd og deila þeim á samfélagsmiðlum. Listamennirnir  vinna afskaplega vel saman að sýningunni og áhorfandinn skynjar mjög sterkt hið nána samstarf sem einkennir hópinn. Það er ákveðið frjálslyndi og ótamið flæði í sýningunni sem gerir það að verkum að þeir hnökrar sem kunna að vera til staðar, verða ekki til þess að áhorfandinn missi tengingu við verkið. Það á bæði við um verkið sem túlkun á miðaldabókmenntum og sem spegil samtímans. Það skiptir einfaldlega ekki máli hvort uppsetningin er að öllu leyti fullkomin.

Njála

Uppsetningin er á engan hátt hefðbundin, heldur verður verkið í meðförum Þorleifs Arnar tryllt karnival, brotið upp með hefðbundnum upplestri og leiknum atriðum sem tekin eru beint úr Njálu. Það verður að minnast sérstaklega á hlut Íslenska dansflokksins, en dansatriðin voru framúrstefnuleg og áttu stóran þátt í að skapa stemmingu verksins. Í aragrúa atriða, búninga, dansa, upplesturs og grótesks karnivals verður ógjörningur að lýsa upplifuninni til fulls. Tilvíanir í nútímann; Star Wars, Elvis Presley, tómatsósubrúsar og dásamlegt rappatriði Reykjavíkurdætra verða að tryllingslegri, hamslausri upplifun í bland við textann úr miðaldaverkinu svo áhorfandinn veit aldrei á hverju hann á von.

Gulldrengurinn Gunnar og kvenleiki Njáls

Í leiksýningu sem þessari þar sem listamennirnir eru fjölmargir og allir skila sínu hlutverki mjög vel, verður erfitt að tiltaka sérstaklega ákveðna leikara eða flytjendur. Þó verður að minnast sérstaklega á Brynhildi Guðjónsdóttir sem gerir hlutverk Njáls eftirminnilegt. Hjörtur Jóhann Jónsson er einnig áberandi góður í hlutverkum sínum, bæði sem hinn líkamlegi og hádramatíski Skarphéðinn og hin aumingjalegi og kómíski Otkell. Þuríður Blær Jóhannsdóttir, sem er nýútskrifuð úr Listaháskóla Íslands, túlkar hlutverk Þorgerðar á kraftmikinn hátt og myndar þar að auki dúett með Sölku Valsdóttur í fyrrnefndu rappatriði. Því gleymir enginn í bráð.

Hjörtur Jóhann í hlutverki Skarphéðins

Hjörtur Jóhann í hlutverki Skarphéðins

Þorleifur Örn hefur áður gert tilraun til þess að blanda sígildu íslensku bókmenntaverki við samtímaatburði. Uppsetning hans á Sjálfstæðu fólki var talsvert í umræðunni á síðasta leikári fyrir þær sakir að tilvísunum í nútímann var misjafnlega tekið. Sjálfur hafði hann á orði að leikstjórn hans væri sýn utanaðkomandi á íslenskt samfélag. Það er engu líkara en Þorleifur hafi í uppsetningu Njálu ákveðið að taka það skref til fulls sem hann gat ekki stigið í Sjálfstæðu fólki. Hér gengur hann alla leið og rúmlega það og úr verður brjáluð blanda, þar sem tilfinningarnar fá að flæða óheftar til áhorfandans og láta engan ósnortinn. Njála verður í meðförum Þorleifs og Mikaels saga um uppgjör íslensku þjóðarinnar, sagan af því að uppgjör verður að ná alla leið inn í sálina til þess að enda ekki sem yfirborðskenndur plástur á svöðusár. Þannig verður gulldrengurinn Gunnar á Hlíðarenda að hálfgerðum útrásarvíkingi sem ekki getur tekið tillit til hagsmuna heildarinnar, heldur böðlast áfram í vitleysisgangi og þá er voðinn vís.

Njála

Njála er stórkostlegt verk, bæði sagan sjálf og þessi uppsetning Borgarleikhússins. Þessi sýning ætti ekki að virka, hún ætti ekki að ná utan um kjarna Njálu – en hún gerir það. Hún er samansett úr brotum svo upplifunin verður svolítið þannig líka, brotakennd en af því að hvert brot er marghliða nær verkið að skapa einhvers konar hugarástand sem raðar sér og endurraðar í huga áhorfandans löngu eftir að sýningu lýkur.

Það má því með sanni segja að drekinn hafi ekki bara verið sigraður, heldur gjörsigraður í tómatsósublóðbaði.

Hildur Ýr Ísberg og Bjarndís Helga Tómasdóttir

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone