Ófriðarár, fullveldi og íslenskir hermenn: Þegar siðmenningin fór fjandans til eftir Gunnar Þór Bjarnason

hermenn

 

hermenn

Fyrir hundrað árum geisaði stríð. Stríðið mikla var það kallað, þar sem nágrannaþjóðir börðust hver við aðra og mannfall var mikið. Áhrifa stríðsins gætti víða um heim og Ísland var þar ekki undanskilið. Þegar stríðið hófst um mitt ár 1914 voru Íslendingar undir stjórn Dana. Þegar vopnahléi var komið á í nóvember 1918 höfðu Íslendingar slitið sig frá Danmörku og 1. desember sama ár varð Ísland fullvalda ríki. Þetta, og fjölmargt annað, er umfjöllunarefnið í bók Gunnars Þórs Bjarnasonar, Þegar siðmenningin fór fjandans til – Íslendingar og stríðið mikla 1914 – 1918.  Það er ef til vill viðeigandi að á fullveldisdaginn var bókin tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2015, í flokki fræðibóka og rita almenns efnis. Að loknum lestri bókarinnar kemur það lítið á óvart því hér er á ferðinni prýðilegt rit um fyrri heimsstyrjöldina, aðdraganda hennar og áhrif hérlendis og erlendis.

Segja má að heimsstyrjöldin fyrri hafi fallið í skuggann af heimsstyrjöldinni síðari í hugum fólks. Í dægurmenningunni hefur seinna stríð verið mun meira áberandi, landið var hersetið og stríðið hafði beinni áhrif á íslensku þjóðina. Þar af leiðandi vita flestir meira um seinna stríð þó þeir hafi einhverja grunnþekkingu á fyrri heimsstyrjöldinni, t.d. hvaða ár hún hófst og hvenær henni lauk. Hins vegar erum við líklega fæst meðvituð um hve mikil áhrif stríðið hafði hérlendis og hversu stórt hlutverk það lék í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Gunnar sagði sjálfur í viðtali í Kiljunni að áhrif fyrra stríðs á Íslandi hafi verið vanmetin vegna þeirrar miklu áherslu sem lögð er á að skrifa um seinna stríðið. Ef ég, sem leikmaður, ber þekkingu mína á styrjöldunum tveimur saman þá hef ég nokkuð yfirgripsmikla þekkingu á heimsstyrjöldinni síðari en nánast öll þekking mín á heimsstyrjöldinn fyrri, fyrir lestur bókarinnar, takmarkaðist við að hafa lesið Vopnin kvödd. Ég get því verið sammála orðum Gunnars.

 

Thegar_sidmenninginfortilfjandans

Í bókinni fjallar Gunnar Þór  um sagnfræðilegar staðreyndir samhliða dægurmenningu stríðsáranna, auk þess sem hann vitnar í blaðagreinar og sendibréf auk þess sem hann tengir atburði úti í heimi við það sem var að gerast á sömu stundu hérlendis. Sem dæmi þá segir hann frá kvikmyndasýningu í Nýja bíó að kvöldi fimmtudagsins 23. júlí 1914.  Um það leyti sem sýningunni er að ljúka tilkynnir austurríski sendiherrann í Belgrad að Serbum hafi verið settir úrslitakostir verði þeir ekki við kröfum Austurríkis – Ungverjalands (bls. 54) og fimm dögum síðar var stríði lýst yfir. Atriði á borð við þetta skapa ákveðna stemmningu við lesturinn. Lesandinn getur séð fyrir sér gesti Nýja bíós ganga út í bjarta sumarnóttina á sama tíma og afdrifaríkur fundur á sér stað í 3000 kílómetra fjarlægð.

Skemmtileg sagnfræði

Bók Gunnars er vel unnin og yfirgripsmikil frásögn um stríðsárin fyrri. Það er líklega stærsti kosturinn hvað bókin er aðgengileg. Hér er komið rit með öllum upplýsinum sem hinn almenni lesandi þarf um fyrri heimsstyrjöldina og áhrif hennar á Ísland. Með heimildanotkun sinni, tilvitnunum í dagblöð, sendibréf og fleira sýnir Gunnar hversu vel Íslendingar fylgdust með gangi mála í Evrópu og að stríðið fór alls ekki framhjá íbúum eyjunnar í norðri. Gunnar er góður penni, hann býr yfir fjölbreyttum orðaforða og glæðir textann lífi þannig að lesandanum líður ekki eins og hann sé að lesa fræðirit. Í upphafi bókarinnar setur Gunnar lesandann í stellingar og undirbýr hann fyrir þá sögu sem hann ætlar að segja. Gunnar málar upp mynd af framfarasinnaðri Evrópu um aldamótin 1900, útskýrir hver aðdragandi stríðsins var og setur jafnframt ýmsa atburði á stríðsárunum í samhengi við heimsmyndina fyrr og síðar. Þó farið sé um víðan völl fer Gunnar aldrei út af sporinu í frásögninni. Honum hefur tekist vel upp með að skrifa sagnfræðirit sem er ekki aðeins fróðlegt heldur líka skemmtilegt aflestrar.

GunnarÞórBjarnason2012_lit

Höfundur fer nokkuð ítarlega í það sem átti sér stað á þessum 51 mánuði sem stríðið stóð yfir en kemst alveg hjá því að gera textann þurran og frásagnir af atburðum langdregnar. Til að byrja með var það skemmtilegur bókatitillinn sem vakti löngun hjá mér til að lesa bókina, en heiti bókarinnar er tilvísun í Héðin Valdimarsson, tekin úr bréfi sem hann ritaði móður sinni í upphafi stríðsáranna. Hins vegar héldu frásagnarhæfileikar og áreynslulaus ritstíll Gunnars mér við efnið. Það verður svo að segjast að kaflaheitin í bókinni eru oft og tíðum alveg frábær, kaflar á borð við Dásamlegar hamfarir?, Óbeinlínis í ófriðinn, Allsherjarhátíð fyrir andskotann og Þetta yndislega heimsstríð. Hér er á ferðinni áhugaverð innsýn í tilveru Íslendinga á ófriðartímum fyrir 100 árum þar sem virkilega er vandað til verka og áhugafólk um íslenska sögu og sagnfræði ætti ekki að láta þessa fróðlegu bók framhjá sér fara.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone