Ógnir heimsveldanna?

panorama_brjost
Það gerðist eitthvað sérstakt þegar íslensk brjóst fylltu samskiptamiðlana þann 26. mars. Gjörningurinn afhjúpaði múra samfélagsins gagnvart nekt kvenna. Hann afhjúpaði hve samhengi nektarinnar skiptir miklu máli, þ.e. hver birtir og hvernig. Á frelsandi degi sem slíkum átti Sirkústjaldið afmæli. Til þess að sýna samstöðu í baráttunni frelsaði ritstjórnin geirvörtur sínar úr viðjum klæða þetta sama kvöld. Hér birtast myndirnar ásamt textum frá hverri og einni.

Byltingarnar gerast ekki bara á sumrin – Gréta Sigríður

Femínismi er gífurlega yfirgripsmikið fyrirbæri enda snertir hann allar hliðar mannlífsins. Baráttan fyrir því að viðurkenna öll hlutverk kvenlíkamans, ekki bara það kynferðislega, var yfirskrift frelsunardags geirvörtunnar, en áhrifin sem sú barátta hafði var mun margþættari. Konur landsins tóku höndum saman í nafni geirvörtunnar, og sýndu bæði sjálfum sér og öðrum fram á vald sitt til að taka ákvarðanir um sitt líf sjálfar.

Ég hef alltaf öfundað rauðsokkur 8. áratugarins vegna þess hve vissar þær virtust vera um að gerðir sínar hefðu áhrif. Það er gífurlega þreytandi að þurfa í sífellu að spyrja sig af hverju ekkert sé að gerast. Af hverju erum við ennþá að berjast fyrir því að líkamar okkar séu okkar eigin og það sé okkar að skilgreina hlutverk þeirra? Af hverju erum við ennþá að berjast fyrir því að áhugamál okkar séu skilgreind fyrir okkur? Hvernig í ósköpunum getur það staðist að konur fái ennþá minna borgað fyrir sömu vinnu? Þegar maður hefur á tilfinningunni að ekkert sem maður geri hafi áhrif er virðist lítið annað í stöðunni en að samþykkja óbreytt ástand.

Árangur þessarar herferðar er vissulega sá að flestir ef ekki allir landsmenn neyddust til að, ef ekki viðurkenna, þá að minnstakosti að velta fyrir sér þeirri hugmynd að hægt sé að skilgreina nakin brjóst á fleiri vegu en bara kynferðislega. Hann er hins vegar ekki síður sá að konur, bæði ungar og aldnar sáu að gjörðir þeirra og ákvarðanir höfðu áhrif og að þær hafi vald til að breyta fastmótuðum hefðum samfélagsins. Þar sem ég sat í Laugardalslauginni með frjálsu geirvörturnar mínar heyrði ég á tal ungra kvenna. Önnur þeirra kvartaði yfir kuldanum og velti fyrir sér viturleika þess að berjast fyrir nekt þegar svo kalt er í veðri. Vinkona hennar fyrtist við og spurði hana með þjósti: „Heldurðu að byltingarnar gerist bara á sumrin?“

 

 

Ógnir heimsveldanna? - Ljósmynd: Valdís Thor

Ljósmynd: Valdís Thor

 

 

Hugleiðing – Nína

Þegar ég var fimm ára gömul fór ég með fjölskyldunni minni til Flórída. Ég fékk að fara í sundlaugina, sem mér fannst mjög gaman, og leika með mér hinum börnunum. Hins vegar fékk ég ekki að gera það óáreitt. Gæslufólk sundlaugarinnar gerði athugasemd við það að ég skyldi vera ber að ofan. Ég átti að vera í sundbol því ég var stelpa og nekt mín þótti truflandi fyrir aðra gesti. Mamma og pabbi hristu hausinn og höfðu tvo valkosti; að setja mig í sundbol eða klippa á mig drengjakoll.

Foreldrum mínum þótti Ameríkanninn íhaldssamur, allt annað væri nú uppi á teningnum í Evrópu. Hins vegar finnst mér eins og kvenmannsbrjóst séu að verða að æ meira tabú, bæði hér og erlendis. Tilkomu Netsins fylgdi bæði klámvæðing og ritskoðun – og í kjölfarið var eins og almennt sammæli væri um það að kvenmannsbrjóst væru kynferðislegt viðfang. Til þess að leiðrétta þennan hvimleiða misskilning þurfum við konur að fara úr að ofan. Líka eldri konur. Líka stelpur á viðkvæmum aldri. Andstæðingar Freethenipple­byltingarinnar segja að við munum sjá eftir því seinna að birta myndir opinberlega af brjóstunum á okkur. Ég held hinu gagnstæða fram: að við myndum sjá eftir að hafa ekki verið þátttakendur í þessu þarfa framtaki og birt myndir. Þess vegna fór ég úr að ofan.

 

Á sporbaug – Bjarndís Helga

Ég birti mynd á Facebook af geirvörtu. Geirvartan var ekki að gera neitt af sér heldur stóð bara þarna í birtunni frá lampanum. Hún var ekki að skaða neinn, hún var ekki að segja neitt særandi eða meiðandi. Hún var ekki með hatursáróður eða ógnandi tilburði við nokkurn mann. Þessi geirvarta hefur nært líkama smábarna og verið dáð af elskhugum. Hún hefur oft verið kynæsandi en líka átt sínu vondu daga, sár og aum eftir hungraða barnsmunna. Hún er ekkert eitt, hún er allt eftir samhengi.

Í brjósti mínu eru bækistöðvar alvaldsins. Í sporbaug mínum ráðast örlög hálfs mannkynsins. Brjóstin á mér eru platónsk fyrirmynd himintunglanna sem öllu stýra.

Morguninn eftir var búið að loka á Facebook aðganginn minn þar til ég hafði staðfest að ég væri ekki með neinar fleiri ósiðlegar myndir. Og svo sá ég að einhver ein einmanna sorgleg sál hafði afvinað mig. Ég veit ekki hver það er og er alveg sama en mér finnst það samt undarlegt. Ég skil stundum ekki heiminn sem ég bý í.

 

Brjóstumkennanlegur grátkór forræðishyggjunnar – Sigríður Nanna

Ég beraði brjóstin en langaði jafnvel til að hrista þau framan í heiminn. Ég fæddist ber, en nú fer ég úr fötunum til að minna á að ég fæddist svona, en að ég sé samfélagslega skilyrt sem kynvera, sé ég fest á filmu. Samfélagsmiðlar segja mig kynferðislega, segja nekt mína kynferðislega án þess að ég hafi ætlað það sjálf. Er nekt fullorðinna kvenna alltaf kynferðisleg? Ætli samfélagsmiðlar séu karlkyns? Eru brjóst á internetinu kannski bara eitt lítið dæmi um að karlar séu mælistikan, eða kynið og við einungis hitt kynið. Hver ákvað að kvennabrjóst eigi að vera prívat og karlabrjóst almenn?

Er ég kannski ennþá ómótaður unglingspönkari sem á eftir að koma til vits og ára, róast og fela á mér geirvörtunar í prúðum búningi formæðra minna? Varð ég kannski of líberal eftir að ég kynntist núdistum, spilaði boccia við berrassað fólk á öllum aldri á nektarströnd í norðanverðri Evrópu? Þeim var alveg sama um nekt og kenndu þau mér að sjá sjálfa mig eins og ég ein vildi sjá mig. Þið hin skiptið ekki máli. Ég er fullorðin og þroskuð kona sem bera mínar geirvörtur í tilraun til að brjóta kvenleika minn út úr viðjum feðraveldisins. Kvenleikinn er minn og ég ætla að ákveða hvernig hann skal sýndur.

Mér var kennt að skammast mín fyrir nekt sem sögð var ósæmileg. Ég spyr hver það var sem ákvað að ber brjóst væru ósæmileg og ögrandi. Af hverju göngum við að skilyrtri formgerð um ákveðnar samfélagsreglur og samþykkjum allt í blindni? Rökin gegn byltingu brjóstanna missa marks. Þeir sem andmæla verða sem brjóstumkennanlegur grátkór forræðishyggjunnar. Það skal enginn segja mér hvernig ég á að vera eða dæma mig og mínar geirvörtur. Ykkur á öllum að vera sama! Ég hef heyrt alls konar rök, um að fólk vilji ekki sjá vörturnar, að þær að stuðli að bráðabrundi allra karlmanna og óhugnalegum kynlífsfantasíum. Einhverjum fannst það góð hugmynd að kyngera mig því ég er kona og prúðar raddir sem óttast breytingar mótmæla byltingunni og viðhalda þannig lærðri skömminni.

 

Ég er bert brjóstið og bert brjóstið er ég – Árný Elínborg

Brjóst eru ekki einradda, þau eru í eðli sínu tvö. Þegar ég opnaði Facebook á nýafstöðnu þingi brjósta þá voru þau ekki lengur tvö, þau voru tvö plús tvö plús tvö plús eitt og fjölgaði sífellt. Þyrpingin varð að einu margradda og risavöxnu brjósti sem leið niður stræti Reykjavíkur, malarvegi íslenskra sveita og götur íslenskra bæja. Einhverjir hlupu í burtu öskrandi og blöskrandi. Aðrir fögnuðu og tóku þátt. Brjóstið liðaðist niður Laugaveg að Austurstræti og flatti út ljósastaura og hús féllu á hliðina. Vegatálmar sem takmörkuðu bílaumferð höfðu ekkert í brjóstið. Ekki einu sinni steinhús Alþingis hafði roð í brjóstið. Orðin sjálfstæði og frelsi fengu nýtt samhengi. Stafrænt samhengi. Tálmar urðu afstæðir, þeir voru jú manngerðir, þá var hægt að fjarlægja og færa til. Áfram liðaðist brjóstið og áfram sýnir það mátt sinn. Fyllir götur af sætri mjólk, úða og fegurð. Berskjöldun. Ég er bert brjóstið og bert brjóstið er ég. Því þyrping er sterkari en eitt eða tvö. Og brjóst eru allt, margs konar bárur á hafi. Þau næra, tæla, hanga og rísa, ýmist sköllótt eða hærð, stór eða lítil. Því allt má vera til.

 

Skilgreiningarvaldið er okkar – Kristín María

Free the nipple dagurinn færði skilgreiningarvaldið úr höndum feðraveldisins og markaðsaflanna í hendur okkar, kvennanna. Eftirlit með kvenlíkömum hefur aukist hratt með tilkomu nýrra miðla og skilaboðin sem þar birtast er að konur hafi mun meira að skammast sín fyrir en karlar.

Sem bókmenntafræðingur aðhyllist ég túlkunarfrelsi lesandans þar sem höfundarætlun á ekki að skipta máli. En líkaminn er ekki texti, nema hann sé settur fram í texta. Framsetning líkamans á að vera forsendum hvers og eins en ekki samfélagsins (lesist: feðraveldisins). Höfundarætlun skiptir öllu máli þegar kemur að líkamstjáningu og enginn annar á að hafa vald til þess að túlka eða ritskoða líkamstjáningu annara eða setja það í annarskonar samhengi en viðkomandi hafði í huga. Með því að afhjúpa geirvörtuna, gera kvenbrjóst að sjálfsögðum hlut sem hefur enga aðra merkingu en þá sem blasir við, er verið að uppræta hin neikvæðu formerki sem brjóst eru túlkuð út frá í netheiminum jafnt sem raunheiminum.

Athugið: Geirvörturnar tilheyra mér og aðeins ég hef umboð til þess að skilgreina þær.

 

Af börnum og bikíníum – Hugleiðing -Elísabet

Ég, eins og Nína, fór til útlanda með foreldrum mínum þegar ég var fimm ára, að vísu ekki til Flórída heldur á sólaströnd í Evrópu. Ég, eins og hún, fékk að vera bara í sundskýlu á ströndinni en enginn setti þó neitt út á nekt mína. Það er þó ekki hægt að rekja einungis til frjálslyndis Evrópubúa heldur höfðu foreldrar mínir klippt hárið mitt stutt áður en við fórum út, í drengjakoll. Ætli flestir hafi ekki bara talið mig strák.

Næst þegar ég man eftir mér á sundfötum var í skólasundi. Þá var ég komin í djúpbleikan sundbol úr krumpuefni, alveg eins bol og besta vinkona mín átti. Ég var áreiðanlega 7 ára. Ennþá ekkert að fela en allar stelpurnar voru í sundbolum.

Núna þegar ég fer í sund er ég í bikíníi sem ég keypti í H&M. Oftast er ég bara ánægð með að vera í því, mér finnst bikíníið líka flott. En ef mér dytti í hug að sleppa toppnum, einn góðan veðurdag, er það líka allt í lagi. Kannski þrengir hann allt í einu óþægilega að mér. Kannski langar mig að sóla mig. Það skiptir ekki máli. Það segir nefnilega ekki eitthvað um mig hvort ég sé í bikíní-topp eða ekki þegar ég fer í sund. Eða þegar ég er í sólbaði úti í garði. Eða bara einhvers staðar annars staðar.

Ég segi ekki að ég stefni á að ganga berbrjósta niður Laugaveginn. Málið snýst ekki um það. Heldur um völdin yfir því hvernig líkami okkar er settur fram, kynferðislegum tengslum þessara tveggja fitukirtla sem eru annars stigs kyneinkenni okkar kvenfólks eins og skegg í andliti er annars stigs kyneinkenni karlmanna.

Það verður ekki þar með sagt að við viljum aðskilja kynþokkann algerlega frá brjóstunum. Fólki má ennþá finnast þau sexý, alveg eins og mörgum þykir skegg svakalega sexý. En við munum hafa tekið stjórnina. Þetta verður á okkar forsendum.

 

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone