Óhefðbundin uppskriftabók

Teikningar: Lóa Hlín HJálmtýsdóttir
Teikningar: Lóa Hlín HJálmtýsdóttir

Uppskriftabók – skáldverk er samstarfsverkefni tíu rithöfunda og sjö ritstjóra sem vinna hörðum höndum að því að koma út bók í kapphlaupi við tímann. Á einungis fjórum mánuðum tekst hópurinn á við alla þætti útgáfuferlisins: hann skrifar og ritstýrir textunum, sér um umbrot og kápuhönnun og mun sjálfur sleikja frímerkin þegar kemur að því að póstleggja tilbúnar bækurnar.

Í verkinu má finna smásögur, ljóð, myndir og ýmislegt fleira sem hverfast á einn eða annan hátt um uppskriftir – þó ekki séu þær allar nothæfar til matseldar. Efnistök eru ólík, enda er rithöfundahópurinn afar fjölbreyttur. Skáldverkin fela meðal annars í sér uppskriftir að heimili, skilnaði, jógúrtkökum, hamingjunni, samskiptum og mörgu fleira.

Teikningar: Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir

Teikningar: Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir

Teikningar: Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir

 

Uppskriftabók – skáldverk er að öllu leyti unnin af nemendum í ritlist og hagnýtri ritstjórn og útgáfu við Háskóla Íslands, sem standa sjálfir straum af öllum kostnaði. Þau fá leiðsögn frá Sigþrúði Gunnarsdóttur, sem starfar sem ritstjóri hjá Forlaginu. Hún hefur kennt þennan áfanga í meistaranáminu síðastliðinn tvö ár, en þá hafa komið út bækurnar Hvísl (2013) og Flæðarmál (2014). Fjármögnun verkefnisins fer fram í gegnum Karolina Fund, þar sem takmarkið  er að safna nægilegu fjármagni til prentunar bókarinnar. Þar má styðja við verkefnið með því að tryggja sér eintak af bókinni í forsölu.

Uppskriftabók

Höfundar eru Eygló Jónsdóttir, Guðrún Rannveig Stefánsdóttir, Halli Civelek, Kristinn Árnason, Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir, Margrét Bjarnadóttir, Skúli Jónsson, Steinunn Lilja Emilsdóttir, Sunna Dís Másdóttir og Þór Fjalar Hallgrímsson.

Mynd: Alisa Kalyanova

Mynd: Alisa Kalyanova

Ritstjórar eru Elín Edda Pálsdóttir, Elísabet Hafsteinsdóttir, Fríða Ísberg, Gréta Sigríður Einarsdóttir, María Harðardóttir, Nína Þorkelsdóttir og Ragnheiður Davíðsdóttir.

Á næstu vikum mun Sirkustjaldið taka að sér kynningu á höfundum verksins ásamt því að birta textabrot úr Uppskriftabók, sem er enn í vinnslu. Þegar söfnuninni er lokið mun bókin vera send í prentun og er stefnt á útgáfu um miðjan maí.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone