Póststrúktúralismi fyrir unglinga

Mynd fengin af Facebook síðu viðburðarins https://www.facebook.com/events/729472057101865/
Mynd fengin af Facebook síðu viðburðarins https://www.facebook.com/events/729472057101865/

Nýtt íslenskt leikrit eftir Þórarinn Leifsson, Útlenski drengurinn, í leikstjórn Vigdísar Jakobsdóttur var frumsýnt í Tjarnarbíói á Degi íslenskrar tungu. Að verkinu stendur glænýr leikhópur, Glenna, sem ætlar að einbeita sér að því að „skapa framsækið og spennandi leikhús í hæsta gæðaflokki fyrir yngri áhorfendur,“ líkt og segir í leikskrá sýningarinnar. Hópurinn leitaði til ungmenna við vinnslu verksins og fékk álit þeirra og ráðgjöf til þess að færa sýninguna sem næst raunveruleika þessa aldurshóps. Þórarinn Leifsson heldur hér áfram að fást við erfið samfélagsmálefni í verkum fyrir börn, en áður hefur hann skrifað nokkrar barnabækur sem taka á svipuðum málefnum og eru til umræðu í verkinu.

Verkið fjallar um Dóra litla, leikinn af Halldóri Halldórssyni, sem fellur á lestarprófi og er í kjölfarið skilgreindur sem útlendingur. Stráknum, sem var áður vinsælastur í skólanum, er gert að sækja um dvalarleyfi sem hælisleitandi og skúra skólann sem hluta af „starfsnámi af mannúðarástæðum“. Bekkjarfélagar hans eru til að byrja með hissa á niðurstöðunni en flestir þeirra hætta fljótlega að efast um utangarðsstöðu Dóra. Bendedikt Karl Gröndal og María Heba Þorkelsdóttur leika ofurmeðvirku krakkana Jonna og Þóru sem láta auðveldlega berast með straumnum. Hlutverk þeirra er að sýna hversu auðveldlega kúgun og mismunun þrífst í umhverfi þar sem skortur er á fræðslu og gagnrýnni hugsun.

Tungumálið er valdatæki

Misbeiting valds er miðlægt þema verksins. Sem vinsælasti strákur skólans hefur Dóri vald yfir samnemendum sínum og kennurum. Hann kemst upp með allt því ef hann fær ekki það sem hann vill þegir hann þar til hann fær vilja sínum framgengt. Hann er fljótur að beina athygli sinni að nýju stelpunni Uglu (Magneu Björk Valdimarsdóttur) og benda á það í fari hennar sem er á skjön við meginstrauma nútímans. Þegar Dóri missir síðan völdin og verður þolandi í stað gerenda er Ugla sú eina sem deilir reynslu hans og kemur honum til hjálpar.

Veigamesta persóna leikritsins er þó án efa Ágúst aðstoðarskólastjóri, leikinn af Þorsteini Bachmann. Hann er forpokaður íhaldsmaður sem fer á valdatripp um leið og skólastjórinn (Arndís Hrönn Egilsdóttir) skreppur á ráðstefnu. Úr munni Ágústs berst samsuða af fordómafullri og afturhaldsamri orðræðu sem finnst víða í íslensku samfélagi nú um stundir. Ágúst viðrar skoðanir sínar á hinu alræmda Útvarp Sögu, setur sig í fasískar stellingar og upp úr honum vella afbakaðar tilvitnanir á borð við: „Hugsið ekki hvað skólinn getur gert fyrir börnin heldur hvað börnin geta gert fyrir skólann!“. Þorsteinn Bachmann fer á kostum sem illmennið með óvænta leyndarmálið. Hann er í senn hreinasti óþokki og óborganlega fyndinn. Aðstoðarskólastjórinn alræmdi notar meðal annars íslenskukunnáttu sem valdatæki. Hann lítur á tungumálið sem mælistiku á verðmæti einstaklinga í samfélaginu. Honum tekst meira að segja að sannfæra foreldra Dóra um að hann sé í raun útlendingur og þurfi að vera undir eftirliti í skólanum þar til lausn finnist á þessu „vandamáli“. Helsta vopn hans er einfaldlega að taka tungumálið af Dóra, þykjast ekki skilja hann og láta hann rétta upp hönd til þess að tjá sig.

Dóri litli

Grunnskólinn er sögusvið verksins. Skóli á að vera vettvangur þar sem börn fræðast um heiminn en ekki staður þar sem mýtum er viðhaldið og alið er á fordómum gagnvart hinu óþekkta. Verkið vekur upp spurningar um hvaða viðhorfum er haldið að börnum í skólastofum og hverskonar gildum er miðlað í gegnum námsefni. Galli sýningarinnar fellst einna helst í því að börnin fá ekki sjálf að komast að niðurstöðu sem byggir á gagnrýnni hugsun heldur kemur Sigrún skólastjóri óvænt til baka af ráðstefnunni, stoppar skrípaleikinn og fræðir börnin um staðreyndir málsins. Því miður var persóna skólastjórans, sem Arndís Hrönn túlkaði, heldur flöt. Ekki er við leikkonuna að sakast heldur virðist einfaldlega ekki hafa verið neinn frumleiki afgangs þegar kom að því að skrifa persónuna. Hún átti sína stærstu innkomu í enda verksins þegar tími var til kominn að bjarga málunum en hlutverkið varð undir lokin meira í ætt við málpípu en þrívíða persónu. Hún var þó ekki alveg gegnsæ því, líkt og Ágúst, átti hún sér óvænt leyndarmál.

Tæknivætt leikhús fyrir nútímafólk

Vert er að minnast á leikmyndina sem var afskaplega vel úthugsuð og skemmtileg. Heiðurinn af henni eiga Helena Stefánsdóttir og Arnar Steinn Friðbjarnarson. Tölvugerðum hreyfimyndum var varpað á þrjá fleka auk þess sem smærri fletir voru myndlýstir eftir þörfum. Sviðsmyndin var látin líta út fyrir að vera gagnvirk, leikararnir virtust stundum stjórna henni eins og snertiskjá til þess að undirstrika orð sín. Tölvur, iPadar og Skype var notað til þess að endurspegla veruleika nútímaunglinga og var tækninni meðvitað stillt upp á móti þurru kennsluefni um Jón Sigurðsson.

Hljóðheimur Jónasar Sigurðssonar undirstrikaði hinn meinta framandleika aðalpersónunnar. Með því að vitna í tónlist Austurlanda dýpkuðu tengslin við kenningar um tilbúinn oríentalisma Vesturlanda. Í aðdraganda frumsýningarinnar var leikhópurinn duglegur að hlaða inn tónlist og myndefni úr sýningunni á netið. Á Youtube er hægt að hlusta á tónlist Jónasar auk þess sem þar er að finna stutt myndbönd þar sem hver persóna tjáir sig um það sem henni er kært. Þetta er ekki einungis sniðug aðferð til kynningar heldur einnig skemmtileg viðbót við tækniumræðuna í leikritinu. Tæknin fer inn á leiksviðið og persónur leikritsins öðlast annað líf fyrir utan leiksviðið með hjálp internetsins. Hápólitískt leikrit sem tekur á samtímanum á að sjálfsögðu ekki að láta fjórða vegginn stoppa sig heldur mæta unga fólkinu á þeirra heimavelli. Það verður að minnsta kosti ekki leiðinlegra á netinu fyrir vikið.

 

 

Hlekkir á myndböndin

Lagið “Eilífðar smáblóm” eftir Jónas Sigurðsson í flutningi Kött Grá Pje og Bambaló

Ágúst aðstoðarskólastjóri

Dóri litli

Þóra – JonniUgla

 

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone