Retró Reykjavík – Dátar og dræsur í Þýska húsinu eftir Arnald Indriðason

þýska húsið

Það er fátt í þessu lífi sem veitir mér jafn mikla ánægju og góður krimmi. Ég er skólabókadæmi um svokallaðan hægindastólsspæjara (e. arm chair detective) og nýt mín afskaplega vel í að sjá út vísbendingar í fléttunni og mynda mér skoðanir á því hver framdi glæpinn og hvers vegna. Þessi umræddi hægindastólsspæjari er einnig bókmenntafræðingur og ansi hreint lunkinn við að lesa í frásagnartæki og hefur því oftar en ekki erindi sem erfiði.

Arnaldur hefur snilldarleg tök á því að blanda saman frumlegheitum og klisjum svo úr verður sannfærandi tónn sem setur svip sinn á frásögnina.

Þýska húsið er nýjasta bók Arnaldar Indriðasonar. Sögusviðið er Reykjavík í seinni heimsstyrjöld og spæjararnir knáu úr Skuggasundi (2013), Flóvent og Thorson, leysa hér sitt fyrsta mál saman. Maður er skotinn í höfuðið og fljótlega fara ýmsir þræðir sögunnar að fléttast sundur og saman. Úr nægu er að velja fyrir spæjarann heima, því fléttan er listilega vel gerð, ein staðreynd raðast ofan á aðra þannig að heildin verður hörkuspennandi frásögn með alls kyns hliðarfrásögnum.

Frumlegheit og klisjur

Orðalag og lýsingar eru klisjukenndar á köflum en það kemur ekki að sök, því form glæpasögunnar þarf svolítið á klisjum að halda. Það þurfa að vera vörður á leiðinni sem lesendur þekkja og mynda ákveðið andrúmsloft. Svo lengi sem höfundur er flinkur í forminu og góður í að byggja upp spennu er klisjan viðbót við söguna. Arnaldur hefur snilldarleg tök á því að blanda saman frumlegheitum og klisjum svo úr verður sannfærandi tónn sem setur svip sinn á frásögnina.

 

Arnaldur Indriðason

Arnaldur Indriðason

Flóvent og Thorson eru fínasta tilbreyting frá hinum lífsþreytta spæjara, því báðir eru heldur reynslulitlir í morðmálum. Thorson er algerlega reynslulaus og þrátt fyrir að Flóvent sé eini rannsóknarlögreglumaðurinn á Íslandi er hann litlu betur settur, því morð eru fátíð og því reynir lítið á rannsóknarhæfileika hans á því sviði. Persónusköpunin nær mestu flugi í þessu tvíeyki þó Thorson njóti sín ef til vill betur hjá lesandanum. Það stafar ef til vill af því að hann er í klípu í þessari sögu, fulltrúi herlögreglunnar í rannsókninni og í stöðugri baráttu við jafnvægi á milli sinna yfirmanna í hernum annars vegar og Flóvent og íslensku lögreglunnar hins vegar. Stundum er auðveldara fyrir lesandann að tengjast persónu í vanda.

Sært stolt hægindastólsspæjarans

Spennan magnast eftir því sem líður á bókina og undið er ofan af sífellt fleiri þráðum í frásögninni. Lausnin kemur svo eins og þruma úr heiðskíru lofti og ég játa það hér með að stolt mitt sem hægindastólsspæjara var eilítið sært þegar ég lokaði bókinni. Vísbendingarnar sem ég hafði stolt tekið eftir á leiðinni reyndust vera blindgötur og lausnin er í anda hins skandinavíska realisma, hrá, óuppgerð og afskaplega, afskaplega óvænt. Þegar bókin er hins vegar skoðuð sem heild sést hvað hún er snilldarlega byggð. Samfélagsgreiningu og umfjöllun um stór mál á borð við ástandið og stéttaskiptingu er blandað við hefðbundna frásögn glæpasögunnar sem hægt er að flokka sem heldur óraunsæja og yfirborðskennda í eðli sínu. Þessi frásagnaraðferð virkar og úr verður frásögn sem er spennandi, snjöll og full af andrúmslofti liðinna tíma.

Vísbendingarnar sem ég hafði stolt tekið eftir á leiðinni reyndust vera blindgötur og lausnin er í anda hins skandinavíska realisma, hrá, óuppgerð og afskaplega, afskaplega óvænt.

Ástandið verður umfjöllunarefni sögunnar þó það sé ekki í miðju frásagnarinnar. Femme fatale, eða hið hættulega tálkvendi, sögunnar yfirgefur unnusta sinn fyrir breskan hermann og hennar siðgæði og persóna verður að talsverðu rannsóknarefni fyrir lögreglumennina. Íslenskar stúlkur flörta við dáta á böllum og í skúmaskotum og frásögnin er stúlkunum að flestu leyti hliðholl. Þá má gera athugasemd við það að af þeim tveimur konum sem kveður að í sögunni fellur önnur nokkuð áreynslulaust í femme fatale hlutverkið en hin er til skiptis móðurleg, umhyggjusöm eldri kona og aðstoðarkona illa vísindamannsins, allt fremur stereótýpísk og lítið bitastæð hlutverk. Þetta skýtur skökku við því að öðru leyti er frásögnin afskaplega vönduð og laus við staðalímyndir.

 

Þegar á heildina er litið er Þýska húsið firnagóð bók. Höfundurinn kann sitt fag og spilar á strengi forms og lesenda með því að skapa spennuþrungið andrúmsloft sem endist fram á síðustu blaðsíðu. Spæjarinn í hægindastólnum játar sig sigraðan.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone