Salò: 120 dagar í Sódómu

salo

Sýnd í Bíó Paradís þann 11. september klukkan 20.00.


Kvikmyndin Salò er ítölsk-frönsk art-house hrollvekja. Hún er byggð á verki Marquis de Sade, 120 dagar í Sódómu. Kvikmyndin kom út árið 1975 og hefur verið nefnd ein sú mest truflandi og viðbjóðslegasta kvikmynd sem hefur verið gerð.

Leikstjórinn Pier Paolo Pasolini færir efniviðinn nær nútímanum og gerist kvikmyndin skömmu eftir fall Mussolini 1943. Fjórir spilltir, fasískir ítalskir efnamenn einsetja sér að upplifa allar sínar æðstu nautnir, langt út fyrir ramma siðferðis og samfélagslegra hafta. Þeir ræna því átján unglingum, fara með þá í afskekkta höll og misþyrma þeim á alla mögulega vegu í fjóra mánuði. Fjórar vændiskonur fylgja efnamönnunum og segja þeim sögur á meðan þeir kvelja fórnarlömb sín.

Kvikmyndin tekur á ýmsum þemum eins og pólítískri spillingu, misnotkun valds, siðleysi, sadisma, fasisma og kynverund.

Rammi kvikmyndarinnar byggir á Gleðileiknum guðdómlega eftir Dante og skiptist í fjóra hluta: Forgarð helvítis, óráðshringinn, saurhringinn og blóðhringinn.

Kvikmyndin vitnar ósjaldan í nokkur þekkt verk bókmenntasögunnar: bók Friedrich Nietzsche, Af sifjafræði siðferðisins, ljóðasafn Ezra Pound, Söngvarnir (The Cantos) og verk Marcel Proust, Í leit að glötuðum tíma.

Þrátt fyrir afskaplega hrollvekjandi og truflandi efnivið, hefur kvikmyndin verið mærð fyrir listrænt gildi sitt og þykir ein af mikilvægari kvikmyndum sögunnar.


Vissir þú að…
– kvikmyndin er enn bönnuð í sumum löndum?
– hún var fyrst leyfð í Bretlandi árið 2000 og ekki fyrr en 2010 í Ástralíu?
– hún varð afskaplega vinsæl í Svíþjóð og toppaði miðasölu The Omen sama ár?
– samkvæmt leikonunni Hélène Surgère var stemmingin á settinu mjög létt og skemmtileg og kvikmyndin varð í raun og veru til á klippiborðinu?
– nafnið Salò vísar í ítalskan bæ sem ríkistjórn Mussolini gerði að höfuðstað sínum?

Þessar staðreyndir og fleiri er að finna á vef Internet Movie Database.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone