Samsæri eða sannleikur? The End í ljósi hugmynda Baudrillards um samsæri listarinnar

img_1089

Á haustmánuðum 2008 var (ímynduðu) góðæristímabil Íslendinga lokið með táknrænum hætti, þegar þáverandi forsætisráðherra bað þjóðina Guðs blessunar á erfiðum tímum. Tálmynd Mammons sem Guðs botnlausrar keyrslu og neyslu gufaði upp á einni nóttu og þjóðin var í áfalli. Mitt í þessum hræringum kviknaði hugmynd hjá myndlistarmanninum Ragnari Kjartanssyni (f.1976) að verkinu The End sem var framlag Íslands á elstu og stærstu listahátið heims, Feneyjartvíæringnum, árið eftir.

Jean Baudrillard

Jean Baudrillard

Raunveruleikinn eða öllu heldur hvarf hans var eitt helsta viðfangsefni hins umdeilda franska menningarfræðings, Jean Baudrillard (1929-2007). Að hans mati hafði raunveruleikinn látið undan fyrir eftirlíkingum af sjálfum sér: „Við búum þar af leiðandi í eyðimörk veruleikans þar sem eftirlíkingin er orðin raunverulegri en „raunveruleikinn” sjálfur.” Baudrillard greindi firringu nútímamannsins í ofurveruleika tækninnar og tómleika taumlausrar neysluhyggju póstmódernismans. Menning samtímans er gegnsýrð af ofuveruleikanum, hann birtist í hröðun nútímans, raunveruleikaþáttum sjónvarpsins og upplýsingatækninni. Baudrillard var umdeildur fræðimaður, ekki síst vegna greiningar sinnar á samtímaatburðum, og gagnrýnendum þótti hann ábyrgðarlaus boðberi tómhyggju og merkingarleysis, postuli póstmódernismans.

Hugmyndin um hvarfið er gegnumgangandi í heimspeki sem og myndlist 20. aldar og uppreisn gegn fagurfræðilegum viðmiðum birtist til að mynda í framúrstefnunni strax í upphafi aldarinnar. Samkvæmt Baudrillard er samtímalistin orðin marklaus og vinnur stöðugt að upphafningu eigin markleysis. Írónía listarinnar hlær tilgerðarlega að brotthvarfi sínu og sendir mótsagnakennt kveðjublikk til umheimsins. „Þegar listin var enn fær um að gantast með endalok sín og brotthvarf listhlutarins svifu töfrar gullgerðarlistarinnar enn yfir vötnum” sagði Baudrillard.
Er Ragnar að gantast með endalok listarinnar eða er honum alvara? Hér verður leitast við að skoða verkið The End út frá hugmyndum Baudrillards um samsæri listarinnar og rætt um hvort fella megi það undir samsæriskenningar eða hvort þar birtist einlægni og sannleikur.

 

The End

Hugmyndin að verkinu The End varð til, mitt í fjármálahamförum Íslands veturinn 2008-2009. Ragnar átti í bréfaskriftum við sænska myndlistarmanninn Andejas Ejiksson meðan hugmyndin að báðum hlutum verksins var að gerjast með listamanninum sem einnig ræddi hugmyndir sínar við þáverandi eiginkonu sína, Ásdísi Sif myndlistarmann, og sýningarstjórana Markús Þór Andrésson og Dortheé Kirch, ásamt vinum og fjölskyldu. Verkið sem var tvískipt var sýnt í íslenska skálanum, sem er höll við Canal Grande í Feneyjum. Annars vegar er það viðamikil 30 mínútna myndbandsinnsetning The End – Rocky Mountains, unnin úti undir berum himni í kanadísku Klettafjöllunum og sýnt var á fimmrása hljóðrás og skjám í rýminu. Þar lék Ragnar óræða sveitatónlist á banjó, gítar, konsertflygil og trommur, ásamt tónlistarmanninum Davíð Þór Jónssyni. Á hverjum skjá heyrist í því hljóðfæri sem spilað er á og við það að standa mitt í rými myndbandsinnsetningarinnar næst samhljómur hljóðfæranna af skjánum fimm. Í viðtali við Einar Fal Ingólfsson segir Ragnar: „Þetta var tekið upp læf í frostinu í þessu ægifagra umhverfi Klettafjallanna.” Hins vegar fór fram sex mánaða langur gjörningur þar sem listamaðurinn vann í opinni vinnustofu við að mála um það bil eina mynd á dag af fyrirsætunni, myndlistarmanninum og vini sínum, Páli Hauki Björnssyni á svartri Speedo sundskýlu þar sem hann sötraði letilega bjór og reykti vindla milli þess sem hann las í bók. Málverkin eru því einhvers konar hliðarafurð gjörningsins. Að mati Ragnars er ferlið mikilvægara en afurðin, það að gera hluti er heillandi.

Málverkin tekin að hlaðast upp í Feneyjarskálanum

Málverkin tekin að hlaðast upp í Feneyjarskálanum

„Ég er ekki af kynslóð myndlistarmanna sem gerir eitthvað massa-frumlegt. Verkið mitt í Feneyjum er tregafull táknmynd þeirrar staðreyndar.” Á írónískan hátt upphefur Ragnar hina rómantísku hugmynd um listamanninn að verki á vinnustofu sinni – „[é]g er sökker fyrir rómantík”, segir hann. Sviðsetningin endurómar sögu endurreisnarmálara Feneyjaskólans sem trúðu á framfarir og dögun upplýsandi framtíðar sem mundi rísa upp úr myrkri miðalda. Þessi hugmynd byggir á því að dauði listarinnar hafi þegar átt sér stað og hún eigi sér viðreisnar von í nýju skeiði húmanismans. Af þessu má ráða að hugmyndir um dauða listarinnar eru langt í frá nýjar af nálinni. Dekadens samtímans svífur einnig yfir vötnum í The End, tilgangsleysi og tómleiki endurspeglast í tómum bjórflöskum sem hlaðast upp á tímabilinu. Gjörningurinn vekur upp spurningar um síbreytilega stöðu listamannsins og undirliggjandi er angurvær óður til ímyndar listamannsins sem er löngu horfin.

 

Hvarfið

Í daglegu lífi mannsins eru aðstæður rökgreiningar allt um lykjandi, stöðugt er verið að skilgreina hluti til þess að afmarka þá. Heimsmynd samtímans gengur út á að skilgreina alla hluti og smætta þá í mælanlegar einingar. Uppruni þessarar vísindalegu aðferðarfræði er rakin til Cogito-kenningar franska heimspekingsins René Descartes (1596-1650). Hann gerði skýran greinarmun á efni og anda, hugveru og hlutveru, líkama og sál, þegar hann sagði „ég hugsa, þess vegna er ég til.” Rof mannsins frá umheiminum hófst þó mun fyrr og er kennt við sjónarhorn gríska eðlis- og stærðfræðingsins Arkímedesar (um 287-212 f.KR) en þegar maðurinn umbreytti heiminum í krafti tækni og vísinda og hóf að skoða heiminn frá hlutlægu sjónarhorni tókst honum að greina sig frá heiminum og skoða hann utan frá. Hugmynd mannsins um heiminn og raunveruleikann er þannig búinn til af vísindunum. Þegar maðurinn tók að nema vísindalega orðræðu var heimurinn um leið numinn frá manninum. Kjarninn í framúrstefnulist 20. aldar fjallar að miklu leyti um þetta hvarf, viðtekin gildi og viðmið voru sett í uppnám. Fagurfræðilegum gildum var kollvarpað og hugmyndinni um listhlutinn sem hlut á markaði var snúið á hvolf.

Les Demoiselles d'Avignon frá árinu 1907

Les Demoiselles d’Avignon frá árinu 1907

Í verkum eins og Stúlkurnar frá Avignon sem Pablo Picasso (1881-1973) málaði árið 1907 er dæmi um verk þar sem ráðist er harkalega að algildum fegurðarviðmiðum þess tíma. Framúrstefnan sagði skilið við hinn hefðbundna listhlut og fagurfræði. Fagurfræðin hverfist um hvarfið og listhluturinn er skrifaður út úr myndlistinni. Önnur slík varða gegn ríkjandi hugmyndafræði um list, fagurfræði og listamanninn eru „readymade“ verk Duchamps (1887-1968). Með Fountain, þekktasta verki sínu frá árinu 1917, tók hann hversdagslegan hlut, hlandskál úr postulíni, sneri henni á hvolf og merkti undir dulnefni. Með þessum verknaði tókst Duchamp einnig að snúa hugmyndum manna um upprunaleika, list og listaverk á hvolf. Spurningin um hvað er list og hver er listamaðurinn eða höfundurinn urðu ágengar í kölfarið. Hugmyndin um listhlutinn sem vöru á markaði er hér sett á flot, það er ekki aðeins hvarf listhlutarins sjálfs sem blasir við heldur hverfur líka höfundurinn/listamaðurinn. Roland Barthes gekk síðar alla leið og lýsti yfir dauða höfundarins og fæðingu lesandans í grein sinni „Dauði höfundarins” frá árinu 1968.

Í verkum Ragnars má greina melankólíska sorg yfir þessu hvarfi. Í The End er hin rómantíska hugmynd um höfundinn/listamanninn upphafin og sett á svið í löngum gjörningi. Gjörningurinn er í eðli sínu stundlegur, hann gerist á einhverju tímabili, reyndar mjög löngu í þessi tilviki þar sem reynir á úthald og þolgæði listamanns og fyrirsætu, og hann er hverfull. Skrásetningu gjörninga fylgir hugleiðing um hið stundlega – fortíðina í núinu, segir Ragnar. „Listaverk eru augnablik í tíma. Mér líkar þegar þau hverfa, týnast. Þannig lifa þau áfram sem minningar í sögum eða hverfa einfaldlega í tómið.”
Gunnar J. Árnason heimspekingur heldur því fram að með konseptlistinni hafi listhugtakið tapað merkingu sinni, með því að útiloka alla vísun í hið hversdagslega og þátttöku listarinnar í mannlegri reynslu: „Með konseptlistinni má segja að ákveðnum endapunkti hafi verið náð; konseptlist markar endalok módernismans og upphaf þess sem hefur verið kallað póstmódernismi í myndlist.” Aðspurður hvort hann sé forsíðudrengur póstmódernismans neitar Ragnar því ekki en segir jafnframt að hann sé alltaf að reyna að komast undan póstmódernismanum en telji ekki þörf á því lengur, við lifum á hrikalega póstmódernískum tímum þar sem allt hverfist um úrvinnslu eldri hugmynda. Mig langaði til að mynda til að læra að mála í Listaháskólanum en hann var svo póstmódernískur skóli að það var ekki hægt að kenna mér það, það gekk allt út á konseptið.

Í gjörningi Ragnars er það sköpunin sem skiptir höfuðmáli. Málverkin voru bara afurð gjörningsins en þegar á leið og þau tóku að hlaðast upp spurðu margir sýningargesta hvort þetta væri málverkasýning. „Og ætlarðu svo að brenna málverkin þegar þetta er búið?”, spurði amma listamannsins. Hún hittir einmitt naglann á höfuðið og er kannski sú eina sem skilur konseptlist til hlítar, segir Ragnar, og eftir nokkrar umræður komst hann að því að það að eyðileggja verkin í sýningarlok væri ef til vill aum og klisjukennd yfirlýsing um dauða málverksins.

 

Hvarfið í meðförum Baudrillards

Baudrillard hélt uppi gagnrýni á ástand samfélagsins í skrifum sínum og taldi að verkefni listarinnar væri að þurrkast út og hverfa, allar merkingar að hverfa og hann leitaðist við að ná utan um þetta hvarf. Baudrillard lauk doktorsprófi í félagsfræði árið 1966. Ári síðar skrifaði hann viðamikinn ritdóm í marxíska tímaritið L’homme et la société um bókina Understanding Media, eftir kanadíska bókmennta- og miðlafræðinginn Marshall McLuhan (1911-1980), eins helsta áhrifavalds hans á fræðasviðinu. Fram til 1973 gaf Baudrillard út þrjár bækur sem fjalla um neysluþjóðfélagið út frá gagnrýnu marxísku sjónarhorni.

Marshall Mcluhan

Marshall Mcluhan

McLuhan var áhrifamikill fræðimaður á 7. áratugnum og í bók sinni Understanding Media. The Extensions of Man frá 1964 setti hann fram hugmyndir sínar um áhrif miðla fram yfir inntakið sem þeir miðla, inntakið felst í tækninýjungunum. McLuhan greindi tæknibyltingu nútímans og það hvernig notkun þessara tækninýjunga breytti samskiptum fólks. Þær verða að framlengingu á okkur sjálfum, orsakirnar liggja í nýjum sviðum mannlífsins sem verða til við þessa framlengingu, segir hann. Með uppfinningu stafrófsins og tilkomu prenttækninnar verður alger sprenging í upplýsingaflæði að mati McLuhans, skilaboð sem áður gengu manna á milli og voru skynjuð með öllum líkamanum voru nú skynjuð í auknum mæli með sjóninni. Þetta olli ákveðnum klofningi í skyn- og vitundarlífi mannsins. Öll ný tækni framlengir eiginleika mannsins. Tæknin breytir ásýnd heimsins og gerir hann framandlegan og þetta telur McLuhan ástæðuna fyrir sífelldu endurliti til fortíðar, menn leita að merkingu í heimi sem er orðin manninum framandi, augun eru alltaf í baksýnisspeglinum.

Í verkum Ragnars má vissulega greina ákveðið endurlit sem og rómantíska melankólíu. Í The End er allt gert til að skapa réttu umgörðina fyrir vinnustofu málarans, markmiðið var að skapa eðlilega stemmningu sem var samt ekki þessa heims. „Fólk stígur inn í þennan veruleika, sem er svo óraunverulegur en samt okkar daglega líf…Þetta er eins og að stíga út úr hversdagslífinu” og inn í goðsögnina, segir Ragnar.

Að mati Baudrillards er veröldin öll lifandi gengin í björg eftirlíkingarinnar, níhilisminn nærist nú á eftirlíkingunni og fælingunni en ekki eyðileggingunni. Hann greinir möguleika níhilismans í heiminum í dag sem óleysanlega pattstöðu og fyrsta ásjóna hennar er rómantíkin sem er fagurfræðilegt form níhilismans eða spjátrungsháttur. Á leiksviði fjölmiðlanna gerist ekki neitt lengur, segir Baudrillard, við erum viðtakendur tækni þeirra og „bergnumin af hvers konar hvarfháttum, háttum okkar eigin hvarfs. Melankólísk og heilluð, þannig er ástatt um okkur á tímum ósjálfráðs gagnsæis.” Merkingin er að deyja út, miðlar samtímans gera okkur fráhverf uppruna merkingarinnar, uppruninn deyr út með miðluninni og skýrist í merkingarleysi veruleikans. Í gjörningi Ragnars endurspeglast þetta merkingarleysi sem býr í samtímanum; tilgangsleysi endurtekningarinnar, nautnalegar reykingar og bjórdrykkja bera á þversagnarlegan hátt bæði merki hnignunar samtímans og rómantísks endurlits.

 

Endurtekin stef í verkum Ragnars

Ragnar er gagnger rómantíker, listamaður sem leitar að listrænni lausn við ráðgátu tilvistarinnar. Hann notar listina til að ummynda hrylling tómsins og meint tilgangsleysi lífsins. Allt frá útskriftarverkefni sínu hefur Ragnar haldið áfram á braut endurtekningarinnar. Í Bliss (2011) sungu frænkur hans sama stefið endurtekið í sex tíma á dag í 17 daga löngum gjörningi og svo mætti áfram telja. Írónían er aldrei langt undan hjá Ragnari og í verkum sínum er hann að fást við stórar og miklar tilfinningar mannsins; trú, harm og dauða. Hann er bæði kaldhæðinn og einlægur í senn, sækir í rómantíkina á forsendum kaldhæðninnar og skoðar hlutina ofan í kjölinn. Ragnar lítur á listina sem raunveruleikaflótta, nokkurs konar kaþarsis, hann mætir sársaukanum og sorginni í lífinu með því að horfast í augu við þessar tilfinningar. Listin kemur andanum upp á hærra svið og virkar sefandi.

Sýningarstjórinn Markús Þór segir Ragnar fara fínlega í mörk leikhússins og lífsins í verkum sínum, við vitum ekki alveg hvar mörk lífs hans og leikhússins skarast, hann þykist og leikur sér og býr til einlæga en um leið óraunverulega umgjörð. Með endurtekningunni næst fram eiginleiki ítrekunar um leið og hún þurrkar út, flæðið verður á þversagnarkenndan hátt bæði stöðugt og stundlegt. Ragnar nýtir sér þetta í verkum sinum, tekur hluti sem skipta öllu og engu máli og beitir miskunnarlaust í verkum sínum.

 

Samsæri listarinnar

Samkvæmt Baudrillard upphefur samtímalistin stöðugt eigið markleysi og lágkúrugildi, hún hefur glatað tálmyndinni til að þjóna fagurfræðilegri lágkúru. „Ef hægt er að segja að tálmynd þrárinnar hafi glatast í alltumlykjandi klámvæðingu samtímans, mætti einnig halda því fram að þráin eftir tálmyndinni hafi týnt sér í samtímalistinni.” Allir leyndardómar hafa verið þurrkaðir út, við trúum ekki lengur á dulda merkingu hlutanna, allt er orðið sýnilegt og listin er að sama skapi orðin gegnfagurfræðileg. Baudrillard bendir á list framúrstefnunnar sem dæmi; hvernig klofningur veruleikans birtist í listinni þegar kúbistarnir sprengdu upp myndflötinn og leituðust við að sýna allar hliðar veruleikans í einu. Í þessu greinir hann eindreginn vilja til að þvinga leyndardóma hlutarins fram en nú hefur orgía nútímalistar komið fram. Þvingunin veldur að lokum brotthvarfi launungar tálmyndarinnar og þrárinnar í þágu gegnsæis allra hluta. Klámið er út um allt, samofið allri sjónmenningu, svo sem sjónvarpi og annari sjónrænni tækni. Tálmyndin er horfin og listin stendur berskjölduð eftir.

Baudrillard veltir því upp hvort eitthvað búi að baki markleysi listarinnar, einhver ráðgáta eða dulúð. Hér má staldra við og spyrja sig hvað búi að baki gjörnings Ragnars, The End. Hann býður til díonýskískrar veislu í Feneyjum og setur endalokin á svið. Sér hann sæng sína útbreidda og vonast eftir frelsi í hinu endalausa og tímalausa, daðrar hann við lausnina þegar talað eru um eilíft gildi listarinnar eða er hann að boða messíanska endurkomu? Ragnar sá verkið fyrir sér sem vita á ofurrómantískum stað á hjara veraldar, myndbandið sýnir félagana í sjálfskipaðri útlegð til að skapa himneskan samhljóm í ofurraunverulegri víðáttu Klettafjallanna í anda Disney. Verkið er mjög persónulegt, segir Ragnar, en að sama skapi áhugavert að skoða það í samhengi hrunsins á Íslandi þar sem hræðsla við hið ókomna blandast voninni.

Ægifegurð Klettafjallanna í baksýn

Ægifegurð Klettafjallanna í baksýn

Að mati Baudrillard er verkefni listarinnar að þurrka út allar merkingar, táknin afhjúpa alla leyndardóma og tæling þrárinnar er ekki lengur til staðar, táknin verða gegnsæ og klámið birtist okkur allstaðar og hvergi samtímis. Framsetning listhlutarins byggir á afbyggingu. Þegar listhluturinn er horfinn hættum við að þrá tálmyndina á bak við hann. Orgía listarinnar veldur því að hún er orðin gegnfagurfræðileg. Það sem gerist hins vegar er að í samtímanum er listhluturinn langt frá því horfinn, heldur verður gegnsæi hans of augljóst til að vera satt, það er of fallegt til að vera satt. Baudrillard greinir einhvern tilgang með markleysinu og gegnsæi heimsins, eitthvað býr að baki. Við tökum að þrá tálmyndina þegar ekkert er hulið leyndardómi lengur, örlög okkar leynast í írónískum búningi. Listneytendur skilja ekki neitt í listinni lengur, listamennirnir framleiða hluti sem hafa enga merkingu lengur og vísa aðeins til sjálfs sín. Þetta kallar Baudrillard samsæri listarinnar. Hugmyndafræði listarinnar gengur út á að eigna sér lágkúruna og meðalmennskuna og velta sér upp úr markleysinu. „Allar þessar ótölulegu innsetningar og gjörningar; ekkert annað en málamiðlunarleikur við ríkjandi ástand og undangegna listasögu eins og hún leggur sig. Játning á ófrumleika, lágkúru og markleysi, hafin upp sem gildi og allt að því fagurfræðilega afbrigðilegt algleymi. Markmið allrar þessarar meðalmennsku er auðvitað að göfga sig með því að hefja sig upp á írónískt annað stig listarinnar.” Einnig hefur verið bent á að í verkum Ragnars glími hann við vöntunina og fjarveruna, glamúrinn verði að hnignun og við verðum vitni að sjónarspili útfararinnar, getuleysis og hnignunarinnar, rústir viðfangsefnis samtímans fastar í klisju eigin þrár.

Gjörningur Ragnars hverfist einmitt um þetta tilgagnsleysi sem birtist í díonýsískum raunveruleika sem settur var á svið í Feneyjum á írónískan hátt. Það merkilega gerðist að afurðir gjörningsins, málverkin sem áttu að heita hliðarafurð listaverksins sjálfs, urðu að eftirsóttri söluvöru á markaðstorgi listarinnar. Þau voru seld í einu lagi til The Sandretto Foundation á Ítalíu og myndbandsverkin sem gerð voru í fimm eintökum auk tveggja a.p. (artist approval) eintaka voru öll seld áður en gjörningnum lauk. Að mati Baudrillard hefur endurframleiðsla merkingarleysis listarinnar gengið í lið með markaðsöflunum eða innvígðra aðila listheimsins sem viðhalda samsærinu með söluferli markleysisins, ríkjandi er gegndarlaus krafa um að knýja áfram hagvöxt markaðarins. Þetta kallar Baudrillard glæp hins innvígða falsara, gagnrýnendur og listaverkasalar ala á sektarkennd neytandans og selja honum neindina. Samsærinu er viðhaldið af listasviðinu og listinni með upphengingum, sýningum, fjárfestingum, listaverkasöfnum og fleira. Nýlistin reiðir sig á skilningsleysið og sektarkennd þeirra sem skilja ekkert í listinni eða því að þar sé ekkert að skilja.

 

Endirinn endalausi

Af ofangreindu má sjá að margir þættir í verki Ragnars í The End eru eins og sniðnir að samsæriskenningum Baudrillards um listina. Ragnar upphefur dekadens og tilgangsleysi samtímans með gjörningi sínum. Hann ummyndar brotthvarf veruleikans þar sem hin horfna ímynd listamannsins á vinnustofunni er upphafin og endurframleidd. Vangaveltur um neysluhyggju samtímans og firringu samhliða efnahagshruni landsins leiða óneitanlega hugann að beittri gagnrýni Baudrillards á firringu nútímamannsins mitt í ofviðri og hraða upplýsingatækninnar og ofurveruleikans. Hér var bikarinn drukkinn í botn, draslið safnaðist upp á sex mánaða löngu tímabili í tilbúinni sviðsetningu listamanna vinnustofunnar og málverkin sem þóttu ekki góð ein og sér virkuðu vel sem heild og Ragnar var í essinu sínu í hlutverki listamannsins. Það er líka áhugavert að velta því upp hvernig verkið sem heitir „Endir” endar aldrei eða endalokin eru að minnsta kosti sífellt dregin á langinn með endurtekningunni. Hin melankólíska sorg yfir þessu hvarfi fær aukið vægi með sífellu endurtekningarinnar. Gjörningingurinn vakti gríðarlega athygli og uppskar aðdáun listheimsins, listaverkin seldust fyrir háar fjárhæðir þar sem hinir innvígðu „falsarar” Baudrillards nutu góðs af. Þetta hefði Baudrillad talið klám í ofurklæmdum heimi og kallað kveðjublikk listarinnar sem hlær að brotthvarfi sínu, eins og hann komst að orði.

Hefði Ragnar hins vegar keyrt allt í botn og fylgt orðum ömmu sinnar um að kveikja í verkunum að gjörningnum loknum hefði hann átt möguleika á að snúa upp á endalokin og virkja samsærið sér í hag. En það væri ekki í hans anda. Ragnar er í eðli sínu rómantíker en ekki póstmódernisti, hann daðrar á írónískan hátt við rómantíkina og þó að í því felist þversögn er Ragnar í einlægni að sýna okkur hina gömlu góðu tíma málarans á vinnustofunni samtímis sem honum finnst upphafning málverksins kjánaleg. Írónían er fylgifiskur þeirra tíma sem við lifum og kemur óvart inn, en einlægnin er vandmeðfarin – mitt á milli þess að vera væmin og kaldhæðin. „Út úr íróníunni kemur oft hrein og tær einlægni.”

Á undanförnum árum hafa fræðmenn greint sveiflu milli póstmódernískra og módernískra einkenna í skilgreininu á ástandi samtímans. Í nýlegum útvarpsþætti um Ragnar og list hans telur Markús Þór Ragnar vera að vinna úr arfleifð póstmódernískrar íróníu og sækja í rómantík á forsendum kaldhæðninnar. Listamenn eru að brjótast undan póstmódernískum hugmyndum þar sem ekkert var rétt, enginn sannleikur til og listamaðurinn hafði ekkert að segja – listamenn hafa sannarlega einhvern kjarna og eitthvað að segja, segir Markús Þór, og þeir vilja brjótast undan hinu póstmóderníska viðhorfi sem segir að framlag þeirra sé aðeins á valdi áhorfandans. Ragnar kemur með eitthvað frá eigin brjósti og á þeim forsendum skiljum við verkin, með þessu er verið að hverfa að einhverju leyti aftur til módernisma. Hugtakið metamóderismi hefur verið sett fram til skilgreiningar á ríkjandi tilhneigingu til að sveiflast milli ólíkra póstmódernískra einkenna og módernískra einkenna – meta vísar þá til einhvers sem er á milli. Verk Ragnars má setja undir hatt metamódernisma þar sem módernísk einlægni og þrá eftir tilgangi birtist í bland við fjölhyggju, þekkingu og þekkingarleysi og póstmóderníska íróníu. Því má halda fram að í The End birtist bæði samsæri listarinnar eins og Baudrillard kallaði það og sannleikur og einlægni listamanns sem liggur eitthvað mikilvægt á hjarta.

 

 

Heimildir:

Barthes, Roland, “Dauði höfundarins”. Spor í bókmenntafræði 20. aldar: frá Shklovskíj til Foucault. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 1991.

Baudrillard, Jean. Frá eftirlíkingu til eyðimerkur. Reykjavík: ReykjavíkurAkademían, 2000.

Descartes, René. Orðræða um aðferð. Magnús G. Jónsson þýð. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1991.

Didi-Huberman, Georges, Confronting Images. Pennsylvania: The Pennsylvania State University Press, 2005.

Einar Falur Ingólfsson, „Út úr íróníunni kemur oft hrein og tær einlægni“, Lesbók Morgunblaðsins, 30. maí 2009, 6-7.

Foster, Hal, Krauss, Rosalind, Bois, Yve-Alain og Buchloh, Benjamin H.D. Art Since 1900. London: Thames & Hudson, 2004.

Geir Svansson, „Jean Baudrillard allur – þar sem hann er séður”. Lesbók Morgunblaðiðsins , 10. mars 2007, 15.

Gunnar J. Árnason, „List án listaverka: Danto, Kosuth og konseptlist”. Lesbók Morgunblaðsins, 24. júní 1995, 4-5.

McLuhan, Marshall, Miðill – áhrif – merking. Reykjavík: ReykjavíkurAkademían, 2005.

Pétur Blöndal, „Hversdagslífið er svo furðulegt í Feneyjum”. Morgunblaðið Sunnudagsmoggi, 8. nóvember 2009.

Schoen, C., Budak, A., Alemani, C., Malbran, F., Markús Þór Andrésson og Dorothée Kirch. The End Ragnar Kjartansson. Ostfildern: Hatje Cantz Verlag, 2009.

Þröstur Helgason. Birgir Andrésson: Í íslenskum litum. Reykjavík: Crymogea, 2010.

Vefsíður:
Notes on Metamodernism, „What is metamodernisim?”, birt 15. júlí 2010, http://www.metamodernism.com/2010/07/15/what-is-metamodernism/, sótt 14. maí 2013.

Útvarpsþættir:
„Það er svo sorglegt og fallegt að vera manneskja”. Útvarpsþáttur fluttur á RÚV 29. mars 2013, í umsjá Elísabetar Indru Ragnarsdóttur og Þorgerðar E. Sigurðardóttur.

Myndir með grein sóttar á veraldarvefinn:
http://interartive.org/2009/10/art-live-kjartansson/
http://en.wikipedia.org/wiki/Jean_Baudrillard
http://www.biografiasyvidas.com/biografia/m/mcluhan.htm
http://www.actingoutpolitics.com/pablo-picassos-les-demoiselles-davignon-1907-women-in-brothel-life-as-it-is-the-human-unconscious-and-formal-revolution-in-painting/
http://www.canadianart.ca/see-it/2012/06/14/ragnar-kjartannsson-scrap-metal/

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone