Siglt í strand – Sjókonur á Granda

2016-04-01 12.27.10

Sjóminjasafnið Víkin úti á Granda var stofnað árið 2004 og árið 2007 var opnuð ný aðalsýning. Auk hennar eru sýndar minni sérsýningar í neðri sal safnsins og að þessu sinni má finna sérstaka sjókonusýningu, sem opnaði fyrir rúmlega ári í tilefni af 100 ára kosingarafmæli kvenna á Íslandi. Sú sýning er samstarfsverkefni Borgarsögusafnsins og mannfræðingsins Dr. Margaret E. Willson og byggir á rannsókn Willson um sjósókn kvenna sem síðar mun koma í heild sinni á bókarformi.

Konur í bakgrunni karla

Síðast heimsótti ég safnið árið 2014. Þá þótti mér eftirtektarvert að saga kvenna í aðalsýningunni, var virkilega gloppótt og framsetningu hennar verulega ábótavant. Í heimsókn minni á dögunum sá ég ekki betur en að sú sýning stæði enn óbreytt og enn hallar á hlut kvenna. Konur sýningarinnar eru oft einkennislausar, sýndar á skoplegan hátt og falla í skugga karlanna. Þær eru þó meira áberandi í lok sýningar þar sem fjallað er um sjómannaheimilið og störf kvenna í frystihúsum. Þær lýsingar voru þrátt fyrir það engan veginn jafn ítarlegar og lýsingarnar af störfum karla. Allsstaðar mátti skynja karllægt sjónarhorn á störf kvennanna á einhvern hátt.

sjóminjasafnið víkin

Konur í bakgrunni karla

Í lok heimsóknarinnar árið 2014 fékk ég að vita að í bígerð væri sýning tileinkuð Þuríði formanni, einum frægasta kvenræðara Íslands en í aðalsýningunni er hún hvergi nefnd á nafn. Því hafði ég miklar væntingar til þessarar sjókonusýningu sem ég heimsótti um daginn, en þær vonir voru fljótlega brotnar á bak aftur þegar inn í neðri salinn var komið.

Á sýningunni fær Þuríður formaður eingöngu stutta umfjöllun. Rýmið sem sýningin er í, býður upp á marga möguleika og var hálf sorglegt að sjá gert svo lítið úr þessari kvennasögu. Það er vitað mál að karlmenn hafi verið og eru enn í miklum meirihluta þeirra sem sækja sjóinn. Aftur á móti hlýtur saga kvenna í sjósókn að vera veigamikil og merkileg úr því mannfræðingurinn Willson lagðist í að safna henni saman í heila bók. Þess vegna hefði verið hægt að gera miklu innihaldsríkari sýningu en raunin er og útkoman því vægast sagt raunarleg.

Heildarumfjöllunin um Þuríði formann

Heildarumfjöllunin um Þuríði formann

Hálfkláruð sýning í rými annarar sýningar

Áður en sjókonusýningin opnaði var í salnum sýning um Reykjavíkurhöfn. Þá gengu gestir inn í salinn líkt og þeir kæmu af hinu fræga farþegaskipi Gullfoss, niður landgöngubrú á bryggju umlukta vatni. Það stakk því þennan sýningargest að í sjókonusýningunni er sú uppsetning endurnýtt svotil óbreytt, að því leyti að landgöngubrúin og bryggjan er á sínum stað. Engin sérstök ástæða virðist þó fyrir því vegna þess að uppsetningin er ekki notuð sérstaklega í nýju sýningunni að öðru leyti en maður gengur landgöngubrúna til að komast niður í salinn. Eins og áður sagði þá hefur sýningin staðið í rúmlega ár svo hún er líklega í endanlegri útgáfu, en í raun virðist hún vera hálfkláruð.

2016-04-01 12.27.10

Sýningarkassarnir á bryggjunni. Landgöngubrúin sést í bakgrunni.

Í einu horninu malar sjónvarp þar sem sýnt er viðtal við fyrrverandi sjókonu sem segir sögu sína. Með mér í salnum voru nokkrir útlendingar og vakti það athygli mína að viðtalið var ekki textað svo erlendir gestir sýningarinnar gátu ekki skilið hvað þar var verið að segja.

Sýningin samanstendur aðallega af þremur upplýstum kössum með textum og nokkrum myndum á öllum hliðum, sem sitja með jöfnu millibili á bryggjunni. Þar má lesa um konur í sjósókn við Íslandsstrendur, frá fyrstu heimildum til dagsins í dag. Salurinn er myrkur fyrir utan þessa upplýstu kassa en á veggina gengt innganginum er varpað óljósum myndum af öldugangi og sitthvoru megin við landgöngubrúna eru gamlar vísur um þekktar sjókonur. Í einu horninu malar sjónvarp þar sem sýnt er viðtal við fyrrverandi sjókonu sem segir sögu sína. Með mér í salnum voru nokkrir útlendingar og vakti það athygli mína að viðtalið var ekki textað svo erlendir gestir sýningarinnar gátu ekki skilið hvað þar var verið að segja. Við hliðina á sjónvarpinu eru stórar luktir sem lýsa upp vegg og ritað er á kvenmannsnöfn skipa og báta. Hinum megin í salnum má svo sjá nokkur skipalíkön hengd upp í loftið. Annað er ekki að finna þar inni.

Notkun á eintómum texta til lestrar, getur verið vandasamt í sýningu sem þessari. Það er ekki allra að lesa langa texta þegar þeir koma á safn. Til að gera sýninguna áhugaverðari hefði verið hægt að vera með gínur sem sýndu konur á sjó. Að sýna gestum hlutina sem þær hefðu notað, þrívíða hluti sem hægt væri að skoða, ekki bara lesa. Rýmið frá fyrri sýningunni hefði verið hægt að nota til að spila inn í sýninguna. Þarna er grind sem áður gengdi hlutverki skjólborðs á ímynduðu þilfari Gullfoss úr fyrri sýningu þaðan sem landgöngubrúin liggur inn í salinn. Af hverju var ekki til dæmis leikið með þá uppsetningu og henni breytt í þilfar eins togarans sem sjókonur sýningarinnar unnu á? Slík notkun á rýminu hefði strax gert sýninguna líflegri og eftirtektarverðari fyrir þá sem ekki hafa þolinmæði til að lesa eintóma texta og skoða tvívíðar myndir.

Skítaredding á síðustu stundu

Sjókonusýningin í safninu úti á Granda er ódýrt innlegg í kvennabaráttuumræðuna og lítur hreinlega út eins og henni hafi verið hent upp á síðustu stundu til að safnið gæti verið með í 100 ára kosningarafmæli kvenna. Sýningin gerir lítið úr sjókonum og safngestir gætu velt fyrir sér hvers vegna verið væri að draga fram svo lítilvæglegan hluta af sjósögu Íslands líkt og sýningin lætur líta út fyrir. Sögu sjókvenna Íslands hefði verið hægt að koma mikið betur á framfæri, af þeim áhuga og virðugleika sem þær eiga skilið.

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone