Sjónvarpskakan: Vangavelta um miðlun og bakkelsi

Yfirborð Sjónvarpskökunnar líkist óneitanlega frystri, þrívíðri mynd af snjó, sjónvarpssnjó. Yfirborð sjónvarpssnjós líkist hins vegar óneitanlega einvíðri mynd af því að keyra í gegnum hríðbyl að næturlagi með háu ljósin á. Heiti Sjónvarpskökunnar vísar því í sjónvarpssnjó, sem síðan vísar í alvöru snjó. Kakan er eftirmynd af eftirmynd í kerfi vísana þar sem frummyndin (snjór) kemur málinu eiginlega ekkert við. Og enn flækist málið því sjónvarpssnjór er sýnilegur skortur á mynd, því það fennir á skjánum þegar stillt er á rás sem ekki er með útsendingu.

Bakkelsið er skúlptúr af mynd af myndleysi

Sjónvarpssnjór tilheyrir horfnum heim túbusjónvarspins, eða svona að mestu leyti, en á tímum stafrænna útsendinga verða veðurskilyrði flatskjáa æ betri. Þar að auki reiða færri landsmenn sig á skipulagðar útsendingar sjónvarpsstofnana. Heldur hafa þeir með mátt internetsins og ýmissa gagnaveitna á öldum ljósvakans gerst dagsskrástjórar eigin lífs og tilveru – svo má allavega segja um yngri kynslóðirnar. Myndræna myndleysan sjónvarpssnjór er því tákn sem er holt að innan, það er tákn sem er á grafarbakkanum, tákn sem er alveg við það glata upprunalegri vísun sinni og þar með tilgangi.

Sjónvarpskaka er því ekki bara eftirmynd af eftirmynd og þrívíð mynd af myndskorti heldur einnig (bakaður) minnisvarði um tækni, táknkerfi og samfélagslegan raunveruleika sem er á hverfandi hveli. Tilkoma nýs miðils felur nefnilega oft í sér dauða forvera hans líkt og skáldin í The Buggles ortu eftirminnanlega um í söngtexta lagsins Video Killed the Radio Star, eins og útlegðist á íslensku: Myndbandið gekk af útvarpsstjörnunni dauðri. Myndband lagsins var einmitt það allra fyrsta sem sýnt var á MTV-tónlistarstöðinni þegar hún hóf göngu sína árið 1979, en með tilkomu þeirrar sjónvarpsstöðvar var tónlistarmenningu bylt til frambúðar með því að tengja tónlist í auknum mæli við hið sjónræna.

Miðlun er merking

Miðill er merking í sjálfu sér, eða svo vill fræðimaðurinn Marshal McLuhan meina. Það er ekki hverju nýir miðlar miðla, sem oftast er gamalt efni, heldur hvernig þeir gera það  og með því breyta þeir upplifun mannsins á sjálfum sér og samfélaginu.

Sjónvarpskökunni eru þau örlög skipuð í fyllingu tímans að verða líkneski án vísunar og kemur sér því þægilega fyrir á meðal annarra líkneskja trúarbragða horfinna menningarheima. Kakan verður okkur jafn framandi og Stonehenge, Pýramíðarnir eða stytturnar á Páskaeyju; minnisvarði sem glatað hefur samfélagslegu hlutverki sínu og táknrænu gildi – nema þá kannski helst sem ráðgata.

Svo þegar þið standið í framtíðinni með vitin full af kókosangan og furðulostin augu barnabarnanna fyrir framan ykkur sem spyrja forvitin ,,afhverju heitir þetta sjónvarpskaka og afhverju lítur hún svona út?´´ meðan þau benda á angandi kökuna ofan í ofnskúffunni, þá svarið þið hikandi:

„Ég hreinlega man það ekki“.

sjáanlegur myndskortur

sjáanlegur myndskortur

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone