„Sjórinn lætur ekki að sér hæða“: Mar í Frystiklefanum á Rifi

Mynd: Robert Youngson
Mynd: Robert Youngson

Við brunum út á Snæfellsnes einn sólríkan sunnudag í mars, bílinn er fullur af spenntum leikhúsgestum en tíminn er naumur. Leiðin liggur á Rif, sem er friðsælt 150 manna sjávarþorp á norðvestanverðu Snæfellsnesi. Við erum þar til þess að sjá leikritið Mar í Frystiklefanum. Verkið er sýnt klukkan 17.00, til þess að gefa gestum færi á að koma úr bænum og jafnvel fara aftur til baka um kvöldið, en bílferðin á Rif tekur 2,5 tíma. Það kom mér í raun á óvart að það tæki ekki lengri tíma að ferðast á ysta brodda Snæfellsness og komast í þetta töfrandi umhverfi, vegalengdin er vel viðráðanleg fyrir dagsferð og margt skemmtilegt að skoða í nágrenninu.

Leikarinn og leikhússtjórinn Kári Viðarsson hefur byggt upp blómlega menningarstarfsemi í Frystiklefanum frá árinu 2010 og opnaði í fyrra samþætt leikhús og farfuglaheimili á stað sem lendir annars svolítið út af korti þeirrar höfuðborgarmiðuðu menningarumfjöllunar sem við eigum að venjast. Leiksýningarnar í Frystiklefanum hafa frá upphafi verið ný íslensk verk sem tengjast sögu og menningu Snæfellsness á einhvern hátt, þeirra á meðal má nefna Hetja (2010) og Góðir hálsar (2011), en sumar sýninganna eru einnig fluttar á ensku fyrir þá ferðamenn eiga leið hjá.

Mar var frumsýnt þann 19. desember 2014 en vegna mikillar aðsóknar var ákveðið að bæta við sýningum nú í vor. Verkið byggir á sannsögulegum atburðum, tveimur sjóslysum sem urðu úti við strendur Snæfellsness á síðustu öld. Fyrra slysið varð árið 1962 er togarinn Elliði fórst 25 sjómílur norðvestan af Öndverðanesi, en þá var stærsti hluti áhafnarinnar bjargað á síðustu stundu. Seinna slysið endaði ekki jafn farsællega en þá var hvarf trillan Margrét með tvo menn um borð á Breiðafirði árið 1997. Verkið nýtir sér þar fyrir utan raunverulega útvarpsupptöku af talstöðvasamskiptum í tengslum við björgunaraðgerðirnar. Þetta verður því eins konar heimildaleikhús, sem hefur talsverð áhrif á upplifun áhorfenda sem líður eins og hann sé staddur í atburðarásinni miðri. Höfundar verksins eru Kári Viðarsson og Hallgrímur H. Helgason en leikstjóri er Árni Grétar Jóhannsson.

Tilfinningarót í öldusjó

Rýmið í Frystiklefanum er ekki stórt en salurinn er fullsetinn sunnudaginn sem við komum vestur, gestir á öllum aldri vefja sig í teppum til að bægja kuldanum frá. Það er augljóst að efni leikritsins á erindi við breiðan hóp fólks. Leikarar sýningarinnar eru einungis tveir, Freydís Bjarnadóttir og annar höfundanna, Kári. Freydís er ekki menntuð leikkona og segir í verkinu frá sinni eigin persónulegu upplifun af því þegar seinni slysið varð, en fósturfaðir hennar Steini var einn þeirra manna sem fórst á Margréti. Einræður hennar fjalla um það tilfinningarót sem hvarf bátsins olli; eftirsjá og söknuður eftir fósturföðurnum. Sú von og ótti sem braust um hjá fjölskyldumeðlimum sem eftir í landi sátu eru gerð einstaklega góð skil og ratar frásögn hennar beint í hjartastað. Kári Viðarsson leikur bæði Birgi Óskarsson, loftskeytamann á Elliða sem lifði til að segja sögu sína, og fósturföðurinn Steina.

Mynd: Robert Youngson

Mynd: Robert Youngson

Leikararnir standa sig með eindæmum vel, sérstaklega með tilliti til þess að Freydís hefur ekki leikið áður, og þau halda sýningunni á floti algerlega sjálf og með sparsama umgjörð. Leikmyndin er afskaplega vel útfærð, en Kári sá sjálfur um hana. Atriðin sem Kári leikur á sjónum eiga sér stað inni í grind sem hangir í lofinu og ruggar því til eins og í öldusjó; sjórinn, lekar og veðráttan fá þar að leika lausum hala fyrir augum manns. Freydís, sem leikur bæði sjálfa sig sem táningstelpu og ólétta konu Birgis á Elliða, stendur hins vegar með báðar fætur á stöðugu sviðinu, í landi.

Það eina sem truflar upplifunina örlítið er það hversu óskýr mörkin milli þessara tveggja sjóslysa verða, en þau gerast á mismunandi tímum, þar sem aðalleikararnir eru þeir sömu og sviðsmyndin helst óbreytt milli atriða. Þó fá áhorfendur stundum vísbendingar, eins og þegar persónur ræða Radíó Luxembourg og lag Óðins Valdimarssonar „Ferðalok“, sem staðsetja mann í tíma. Það hefði þó jafnvel mátt vinna betur úr þeim atriðum sem tengjast slysunum ekki beint og fylla þannig út í myndina af persónum verksins enn betur.

Raddir fortíðar

Sýningin er stutt en afskaplega áhrifamikil og vinna allir þættir hennar saman á saumlausan hátt. Hljóðmyndin setur strax tóninn á upphafsmínútunum, en hún er í höndum Ragnars Inga Hrafnkelssonar. Ljósahönnuðir eru Friðþjófur Þorsteinsson og Robert Youngson og skila þeir sínu verki vel. Leikurinn er framúrskarandi og spennan sem myndast við það að sjá áhöfnina, í gegnum loftskeytamanninn Birgi, berjast um og eiga í brösuglegum útvarpssamskiptum inni í sökkvandi skipinu heldur manni algerlega í heljargreipum. Þrátt fyrir að hinar raunverulegu upptökur, sem Birgir talast á við, séu ekki alltaf auðskiljanlegar né orðaforði persónanna okkur tamur – og minnir helst á sjóveðurspá RÚV sem flestir eru orðnir vanir að leiða letilega hjá sér – fer spenna verksins ekki framhjá neinum.

Fallegt landslag umlykur okkur á Rifi; jökullinn gnæfir yfir, sjávarlyktin fyllir vitin, blár himinn, fjöllin og svo hafið – alltaf hafið – sem leikur svo mikið hlutverk í lífi allra sem búa hérna og, fyrir ekki ýkja löngu síðan, í lífi allra Íslendinga. Það bætir miklu við upplifunina af sýningunni að komast út úr bænum í annað umhverfi en líka það að verkin sem sýnd eru í Frystiklefanum sækja efnivið sinn í menningu, sögu og reynsluheim þeirra sem byggja þetta svæði. Sjóslysin tvö höfðu áhrif á alla í bænum, en sú saga sem sögð er í Mar lifir ekki einungis í minningu Snæfellinga heldur talar til allra sem á hana hlýða. Verði fleiri sýningar á borð við Mar settar upp hér tel ég það óhjákvæmilegt að fleiri dragist hingað í leit að leikhúsupplifunum sem jafnast á við og slá jafnvel við mörgum þeirra sýninga sem má sjá í stóru leikhúsunum við Kringluna og á Hverfisgötu.

Það væri gaman að sjá hvernig þetta leikhús gæti þróast ef það væri meira fjármagn til staðar svo hugsjónarmaður á borð við Kára gæti fengið að einbeita sér að verkefnastjórnun og tekið fleiri leikara inn í hópinn. Eins og er gengur leikhúsið fyrir frjálsum framlögum og styrkjum, leikhúsgestir geta borgað ef og eins mikið og þeim sýnist annað hvort fyrir eða eftir sýningu og þar að auki er alltaf hægt að fá ókeypis gistinu á farfuglaheimili leikhússins fyrir þá sem það þurfa. Þetta er einstök leikhúsupplifun og ættu sem flestir að drífa sig að njóta hennar.

Mar er sýnt um helgina 28. og 29. mars, kl. 17.00.

Hönnun leikskrár: Ragnheiður Þorgrímsdóttir

Hönnun leikskrár: Ragnheiður Þorgrímsdóttir

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone