Skál fyrir stríði

Rianna Dearden KATE cast HR

Tjarnarbíó frumsýndi síðastliðinn fimmtudag nýtt verk frá leikhúshópnum Lost Watch Theatre Company sem kemur frá Bretlandi. Verkið nefnist KATE eftir einni af aðalpersónunni og gerist á Íslandi árið 1940 þar sem „blessað stríðið“ er í algleymingi. Verkið er samið og leikstýrt af eina Íslendingnum í hópnum, Agnesi Þorkelsdóttur Wild, en sýningin var fyrst sett upp í Bretlandi við góðar undirtektir.

Verkið hefst á því að Kate flytur frá heimabæ sínum Ólafsvík og sest að hjá móðursystur sinni og fjölskyldu hennar í Reykjavík. Rútan sem hún ferðast með til Reykjavíkur er lítill trékassi en trékassinn er einn af fáum leikmunum sem er notaður í sýningunni. Þó er vert að minnast á annan leikmun, forláta laufblásara sem leikur hlutverk íslenska veðursins og skiptast leikararnir á að halda á honum. Umgjörðin öll er einföld, svolítið hrá en fullkomlega nóg. Einfaldleikinn leikur reyndar ákveðið hlutverk í sýningunni og gerir útfærslu ýmissa atriða meira spennandi og mjög skemmtilega á köflum eins og blásarinn góði er til vitnis um.

Peter Brook, breskur leikstjóri og höfundur bókarinnar The Empty Space (1968), sagði að í kjarna leikhúss sé auða rýmið, leikarinn og áhorfandinn allt sem þarf til að búa til leikhús. Sýningar eins og KATE sýna okkur að þegar leikhúsið kemst næst kjarna sínum gerast einhverjir töfrar og leikhúsið þarf ekki, og á ekki, að vera drifið áfram af öðrum hvötum en þeim að skapa þessa töfra.

KATE

Senuþjófurinn

Persónusköpun er með ágætum og ekki hægt að segja annað en að persónur séu frekar trúverðugar, vissulega kunnuglegar en þó ekki of erkitýpulegar. Mamman, þessi íslenska húsmóðir, alltaf að þóknast öllum, þráir ef til vill sjálf draum með dáta þegar hún otar stelpunum á ball á Borginni en pabbinn er algerlega á móti því að þær blandi geði við hermennina.

Persóna Selmu, frænku Kötu, er að mörgu leyti ímynd hinnar sterku sjálfstæðu konu sem vill ekkert með strákinn í næsta húsi hafa og sér enga þörf fyrir ást og hjónaband. Viðskipti hennar við hermennina eru að vissu leyti ákveðin vonbrigði við þessa ímynd en sýna engu að síður mennsku hennar og örvæntingu. Kannski er Selma viðskiptamiðuð eins og kaupmaðurinn faðir hennar og sér ekkert rangt við að selja aðgang að líkama sínum til að drýgja tekjurnar en Selma á sér drauma. Hún er að safna sér fyrir ferð til Ameríku, aðra leiðina. Þegar á líður sjáum við þó Selmu taka rangar ákvarðanir sem varða frænku hennar og hafa áhrif á allt hennar líf. Þannig eru persónurnar ekki heilagar, nema helst persóna Kötu sem er góð út í gegn og virðist aldrei gera nein mistök og er að mörgu leyti erkitýpa. Þá er Benni, sem við fyrstu sýn virðist einfaldur og hrekklaus náungi, flóknari persóna en svo þegar hann sýnir á sér aðra hlið þegar honum er ógnað. Benni stal senunni á köflum og var stórskemmtilegur karakter.

KATE1

Ástkæra ylhýra

Sýningin er mjög textamiðuð en það er mikill texti og mikið talað. Einhverjum gæti þótt skrítið að hlusta á Breta leika á ensku Íslendinga sem eiga vera að tala íslensku. Ofan á það þurfa þeir líka að leika breska hermenn sem vissulega tala ensku og við þetta bætast tungumálaörðugleikar Kötu sem er að æfa sig að tala ensku á meðan persónan er öll leikin á ensku. Gæti þetta þótt nokkuð flókið en er furðu skemmtilegt í reyndinni. Íslenskum orðum er fleygt fram og íslensk lög eru sungin og málið með tungumálin verður ekkert mál ef svo má að orði komast. Nú skal ósagt látið hvernig tungumálaleikfimin hafi farið í sýningargesti á Bretlandi en Íslendingnum sem skrifar þessar línur þótti í það minnsta vænt um hana.

Þótt verkið sé uppfullt af húmor og skondnum augnablikum endar það ekkert sérstaklega vel. Hernám Íslands þann 10. maí árið 1940 var upphaf mikilla breytinga á íslensku samfélagi og gríðarlegur uppgangur sem fylgdi komu setuliðsins. Það er því ekki að undra að stríðið hafi stundum verið lofað á Íslandi en í KATE er skálað fyrir stríðinu þótt alvarleiki þess sé aldrei langt undan.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone