Sölvi Dúnn – Enn ein Játningin

Enn ein Játningin

Sölvi Dúnn Snæbjörnsson opnaði nýverið einkasýninguna Enn Ein Játningin í Sím Salnum, Hafnarstræti 16. Sýningin stendur til 23. mars, og er opin alla virka daga á milli 10:00 – 16:00.

Tvær portrett myndir standa á einum veggnum. Önnur er af listamanninum sjálfum, hin af ónefndum eldri manni sem horfir út í sýningarsalinn. Ef sýningartextinn er lesinn má áætla að eldri maðurinn sé listamaður sem Sölvi játar ást sína á, og virðist tileinka þessa sýningu.

Listamennirnir tveir eru málaðir inn í sýningarsalinn og standa andspænis þremur kyrralífsmyndum, tveimur útskornum lágmyndum, og níu tréristum. Öll verkin liggja á mörkum málverks og teikningar. Myndirnar tala sínu máli sem sjálfstæðar einingar og þeim er stillt upp eftir óljósri tímalínu. Tími náttúrunnar kemur fram í sífelldum endurtekningum á líflínum trjáa, bæði í efnisvali og myndefni. Með hjálp tímans dregur viðurinn upp sínar eigin aldurslínur sem standa eftir sem mörk um fyrri reynslu.

Tilvistarkennt efnisval

Enn ein játningin 1

Eftir fyrsta hring í gegnum sýninguna er eins og tveimur verkum sé ofaukið. Eftir stutta umhugsun verða þessi verk hins vegar að mikilvægum lyklum í sýningunni. Lágmyndirnar tvær birta sína eigin tilveru þar sem útskurðurinn endurspeglar samtímis hefðir handverksins og efniskennd efniviðarins. Með mjög einföldu samtali verða plöturnar að sínum eigin spegli. Aldurslínur trésins eru skornar út í timburplötuna sjálfa, en einnig er hægt að sjá náttúrulegar líflínur plöntunnar. Þannig myndar vinnuaðferðin brú á milli tilvistarkenndrar frásagnar í málverkum sýningarinnar yfir í hefð grafíklistarinnar á mótstandandi veggi.

Enn ein játningin 2

Sögulegt samtal

Í einföldu myndmáli talar hann við listasöguna á beinskeyttan hátt. Uppstilltar kyrralífsmyndir af blómapottum, kaffibollum og hauskúpum tengjast ósjálfrátt inn í fornan táknheim fyrri tíma. Ein myndin er af hauskúpu svíns við hliðina á kaffibolla sem er stillt upp inni í bláu herbergi. Úr bakgrunninum mætir áhorfandanum starandi auga í gegnum gægjugat. Enn á ný verður myndin að eigin viðfangsefni innan í myndefninu.

Myndin verður að góðlátlegri áminningu um hina passívu stöðu sem okkur býðst frammi fyrir „meistaraverki listamannsins” inni í hvítmáluðu galleríinu, þar sem okkur er gert að taka þegjandi á móti viðfangsefninu.

Enn ein játningin 3

Einlæg sjálfhverfa

Það er hægt að segja að Sölvi sverji sig inn í nokkuð afmarkaða litapallettu íslenskrar málarasenu. Útflattur teiknimyndasögustíllinn tengir hann við götulistina og grafíkina, þó hann sé ekki endilega á heimavelli þar. Verkin standa á einhvers konar millistigi. Það má segja að hann sé malerískur grafíklistamaður, sem vinnur sig djúpt niður í vinnuhefðir handverksins.

Sölvi Dúnn opnar fyrir einlæga túlkun á sjálfhverfu málaraferlinu. Þrátt fyrir að vera með mjög skýrt myndmál sem vísar út fyrir myndinar sjálfar, verða þær á sama tíma að sjálfhverfum speglum sem ranghvolfa sinni eigin merkingu. Þrátt fyrir að stilla sjálfum sér út í myrkrað horn sýningarsalsins (ljósið yfir sjálfsmyndinni var slökkt), setur hann sjálfan sig í forgrunn á eigin sýningu, býður meistara sínum á sýninguna sem stendur agndofa með hálfdauða sígarettu undir geislabaugi sem listamaðurinn sjálfur skrifar undir. Hann snýr tileinkun sinni til eigin meistara, upp í ranghverfu sína, og myndgerir aðdáun sína á öðrum listamanni, innan í sínum eigin myndheimi.

Sjálfur stendur hann undir pressu tímans, sem birtist loks ekki í formi líflína trésins, heldur í hörðustu svipu stúdíómyndlistarmannsins; klukkuverksins. Samt sem áður stendur hann uppi sem sigurvegari, höfundur eigin sýningar sem hann tileinkar ástinni á meistara sínum.

Enn ein játningin 4

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone