Sönnum raunveruleikann með ímyndunum – fyrstu verk Errós

Frú I.B.M. og Stundvísi Hundurinn

Á sýningunni Tilurð Errós í Hafnarhúsi fær áhorfandi innsýn inn í líf listamannsins er hann tekur sín fyrstu skref í hinum alþjóðlega myndlistarheimi. Verkin sem eru til sýnis eru frá árunum 1955-1964, en vel má merkja áherslubreytingar í list Errós á tímabilinu, þótt einungis sé um að ræða níu ár af annars löngum ferli. Hann hefur feril sinn á dimmum og geigvænlegum nótum, bætir svo hægt og rólega við gamansemina í verkum sínum og endar að lokum í skoplegum popplistastíl.

 

Það sem bæði hrífur og hræðir

Í fyrsta sýningarsalnum eru nokkur dökk og átakanleg málverk frá fyrstu árum myndlistarferils Errós. Angistin í verkunum Af sporbraut og Tvær hringekjur vöktu meðaumkun mína og stangaðist tilfinningin á eftirtektarverðan hátt á við hræðslu hins ókunnuga, sem finna má í verkunum Færibandavinna og Burt með eftirlit úr verksmiðjunni en öll minna verkin þó um margt á þýskan expressjónisma, með þykkum útlínum og dimmleitri litanotkun.

Í næsta sýningarsal voru verkin öllu manneskjulegri, þar mátti sjá einhvers konar samblöndur véla og mannfólks, að vísu getur þar einnig að líta einn Stundvísan hund. Það sem vakti einna helst athygli mína við verkin voru líkindi þeirra, og þá sérstaklega klippimyndanna í seríunni Vélförðun, og verka kenýsku listakonunnar Wangechi Mutu. Þrátt fyrir að Wangechi sé honum öllu yngri, fædd 1972, og virðist ekki hafa orðið listar hans vör, koma hugmyndir þeirra um tengsl véla og manna á vissan hátt keimlíkt fyrir. Hugrenningatengsl áttu sér í það minnsta stað hjá mér og áhugavert væri að velta þessum líkindum frekar fyrir sér.

 

Óljós skil milli drauma og veruleika

Á leið minni um sýninguna heyrði ég einhvern segja útundan mér að myndlistarmenn virðist oft mála það sem þeir eru hræddir við á hverjum tíma fyrir sig og langar mig til að velta þessu upp. Á þeim tíma sem Erró gerði verk sín voru vélar að taka yfir sífellt fleiri hlutverk í vestrænum samfélögum auk þess sem vélbúnaður í stríðum jókst stöðugt. Þar utan varði Erró dágóðum tíma í Ísrael á árunum 1957-1958 og sýna verk hans frá því tímabili skýrt bæði hræðslu hans og virðingu fyrir þessari áhættusömu vélþróun. Þrátt fyrir það fannst mér verkin þó ekki jafn ógnvekjandi og þau fyrri, enda er litanotkunin bjartari og glettni listamannsins augljósari.

Svo virðist sem dvöl hans í Ísrael hafi haft sterk áhrif á hann en hann vann að gerð áþekkra stríðsvélaverka allt til ársins 1962 þegar hann virðist hafa horfið frá túlkun þessarar óttablendni og snúið sér að gerð kíminna klippimynda og málverka í anda popplistar. Verkin Stór Sabartes, Jólagleði, Vincent okkar og El Greco – jól skírskota til að mynda öll til samtímamenningar þess tíma. Verkin eru brosleg og þótti mér merkilegt að hugsa til þess að aðeins nokkrum metrum fyrr hafði ég upplifað algerlega andstæðar tilfinningar.

 

Skynjunarsamkvæmi

Á heildina litið var sýningin afar áhugaverð, sérstaklega í ljósi þeirra stefnubreytinga sem áttu sér stað í listsköpun Errós á þessu stutta tímabili. Það er ánægjulegt að ganga í gegnum hvern sýningarsalinn á fætur öðrum og upplifa mismunandi list og tilfinningar í hverjum þeirra, þrátt fyrir að til sýnis séu aðeins tíu ár af listferli eins og sama listamannsins.

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone