Sprell og fjör með leikhúsvél

_C9Q2308 copy

Kuggur hefur verið heimilisvinur hjá mér árum saman. Fyrsta bókin um Kugg, Kuggur og fleiri fyrirbæri, kom út árið 1987 og þar koma fyrir allar aðalpersónur leiksýningarinnar Kuggur og leikhúsvélin, það er Kuggur sjálfur, vinkonur hans Málfríður og mamma Málfríðar og mosablesinn Mosi. Leikgerðin er, eins og bækurnar, eftir hina fjölhæfu Sigrúnu Eldjárn.

Kuggur á sér því næstum því þrjátíu ára sögu, en er síungur og hress. Yngsta dóttir mín er mikill aðdáandi Kuggs og það var því með talsverðri tilhlökkun sem við drifum okkur í Kúluna í Þjóðleikhúsinu síðastliðinn laugardag til þess að berja hann augum.

Kuggur mætir í leikhúsið með boðskort á leiksýningu upp á vasann. Boðskortið er frá Málfríði sjálfri og fljótlega hittir hann mömmu Málfríðar sem fengið hefur sams konar boðskort. Málfríður mætir á svæðið með leikhúsvélina sína og upphefst mikið fjör, þegar allar persónurnar fara inn í leikhúsvélina á víxl og taka á sig ýmis gervi. Tölvuskrímsli mætir á svæðið og að lokum er leikhúsvélinni breytt í geimskip sem flytur Kugg og mæðgurnar á aðra plánetu, þar sem þau hitta fyrir geimveru.

Stjarna sýningarinnar er aðalpersónan Kuggur (Gunnar Hrafn Kristjánsson). Hann skín skært í hlutverkinu og leikur það af miklu öryggi og fagmennsku þrátt fyrir ungan aldur, enda þrautreyndur leikari hér á ferð. Málfríður (Edda Arnljótsdóttir) og mamma hennar (Ragnheiður Steindórsdóttir) standa sig sömuleiðis með mikilli prýði. Leikmynd Högna Sigurþórssonar var óaðfinnanleg að venju og búningar Leilu Arge vöktu mikla hrifningu. Sérstaklega fannst hinum unga leikhúsgesti það ógleymanlegt þegar geimveran tosaði pilsið af Málfríði og hún stóð eftir á nærbuxunum.

Tónlistin er eftir Kristin Gauta Einarsson og er afskaplega skemmtileg. Enginn er skráður fyrir dansatriðunum sem eru þrælflott og vel æfð.

Ekki gat ég betur séð en að ungir áhorfendur skemmtu sér vel á sýningunni. Hún hélt þeim alveg í heljargreipum enda er sýningin fyndin og fjörug og nóg um sprell og spé. Söguþráðurinn var þó hálfbrothættur og sýningin var stutt – einungis 40 mínútur þó hún sé sögð tæp klukkustund í leikskrá og 55 mínútur á vef Þjóðleikhússins. Sýningin er sem fyrr segir skemmtileg, vel úr garði gerð og fjörug og ágætis afþreying fyrir unga leikhúsgesti.

Hildur Ýr Ísberg
Doktorsnemi í íslenskum bókmenntum

 

IMG_1711Mér fannst gaman þegar Kuggur sagði: Hvað er þetta? Þá sagði Málfríður: Þetta er leikhúsvél. Mér fannst líka fyndið þegar þau fóru að syngja leikhúsvélalagið. Mér fannst skemmtilegt þegar mamma Málfríðar fór inn í vélina og breyttist í blýant og líka þegar Mosi breyttist í trúð. Það var líka gaman þegar Málfríður breytti vélinni í geimflaug.

 

Bríet Helga Hjartardóttir
Fimm-alveg-að-verða-sex ára útskriftarnemi á leikskóla sem er alveg að fara að missa tönn

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone