Sprúðlandi sprengikraftur í Hafnarborg

10733590_10153285141783098_7668361356449686454_o

 

VARA-LITIR

Málverkasýning í Hafnarborg

1. nóvember – 4. janúar 2014

 

Gabríela FriðriksdóttirHelgi Þórsson-Hendi-2013

Guðmundur Thoroddsen

Helgi Þórsson

Hulda Vilhjálmsdóttir

Ragnar Þórisson

Þorvaldur Jónsson

Þórdís Aðalsteinsdóttir

Sýningarstjóri: Birta Fróðadóttir

 

Veggirnir stóru í Hafnarborg hafa verið málaðir í hipsterabuxnalitum. Einn er gulur, annar bleikur, þriðji sægrænn. Ofan á þessum hressilegu tónum hangir mergð litríkra málverka. Rýmið er opið og óskipt og þess vegna hellist öll þessi litasinfónía yfir mann um leið og komið er upp stigann. Dásamlegt. Svona á að gefa smekkpáfunum og skammdeginu langt nef.

 

10671369_10153285142078098_4096293078139698118_nVara-litir er samsýning á verkum sjö málara, fæddum á árunum 1970-1977. Þau eiga sameiginlegt að mála hlutbundið (fígúratíft) og nota kröftuga liti. Áttundi listamaðurinn er sýningarstjórinn Birta Fróðadóttir, sem valið hefur verkin og bæði þorað að blanda þeim algjörlega saman með því að hengja þau upp á skemmtilega óreiðukenndan hátt í rýminu og að stilla þeim fram á svo frekum bakgrunni. Ég hef farið á ótalmargar sýningar í Hafnarborg og þetta er lang ferskasta framsetning sem ég hef séð í þessu rými.

 

Vissulega er tekin áhætta með svo áberandi umgjörð. Hættan er sú að hún spilli fyrir því sem verið er að sýna eða taki alla athyglina til sín. En Birta gerir þetta af svo miklu listfengi og næmni fyrir verkunum að það tekst að skapa gríðarsterka heild úr verkum og rými. Og húrra fyrir því að málverk á virðulegu, íslensku listasafni séu hengd upp öðru vísi en í beinni röð í sjónlínu skoðenda, það er allt of sjaldan gert.

 

Verkin hanga í klösum, þétt saman, hvert fyrir ofan annað, stór og lítil hlið við hlið; þau liggja saman, tala saman, vinna saman en eru ekki í tímaröð, ekki flokkuð eftir höfundum, engin fyrirsjáanleg krónólógía á ferð. Sterkgult málverk eftir Þórdísi kallar á gulan vegginn andspænis og sægrænn vesturveggurinn á í hrókasamræðum við sægræna liti í verkum Huldu, Ragnars og Þorvaldar á bleika gaflveggnum.

 

Þórdís Aðalsteinsdóttir1Það þarf sterk myndverk til að þola samhengi á borð við þetta og þau þarf að velja með tilliti til þess að þau geti virkað sem heild. En það er fleira í verkum málaranna sjö en litirnir sem tengja þau. Verk Þórdísar og Gabríelu eiga sér sameiginlegan þráð, en báðar mála þær furðuskepnur á litsterkum, einlitum grunni og teikningin í verkum beggja er fíngerð. Stórar og tjáningarfullar mannamyndir Huldu og Ragnars spila laglega saman og myndir Helga og Þorvaldar eru fallega bernskar þó á ólíkan hátt sé. Það er eitthvert frumstætt, dálítið afrískt element í myndum Helga með sínu tilgerðarlausa skreyti og Þorvaldur minnir á gömlu naívistanna Ísleif Konráðsson og Sigurlaugu Jónasdóttur með myndum af fólki í landslagi, fullum af smáatriðum.

 

Mér þóttu verk Guðmundar Thoroddsen áberandi síðri en önnur verk á sýningunni, en þau sýndu yfirleitt körfuboltamenn á fullri fart, voru í daufari litum en önnur verk, eins og ófullgerð eða hálfmáluð og teikningin í þeim veik. Ef til vill liðu þau verk fyrir framsetningu sýningarstjórans, þoldu ekki samhengið þar sem þau voru ekki eins kraftmikil og full af tjáningu og verk hinna málaranna. Eins leið ein af myndum Ragnars óþyrmilega fyrir bleikan bakgrunninn, en sú mynd var í þyngri og dempaðri tónum og þoldi umgjörðina illa, varð óhrein og illgreinanleg.

 

En þetta voru smávægilegir gallar á firnasterkri myndlistarsýningu. Það gleður mitt litríka hjarta að sjá öll þessi splunkunýju, sprúðlandi og sprelllifandi málverk eftir íslenska jafnaldra mína. Ég saknaði þess reyndar að sjá ekki verk Davíðs Arnar Halldórssonar með á sýningunni, þar sem ég held að fjörlegar mynsturmyndir hans hefðu sómt sér vel í þessum félagsskap. En Davíð málar reyndar óhlutbundið, þannig að hann hefur kannski ekki passað inn.

 

Kæru landsmenn! Drífið ykkur í Hafnarborg og njótið þess að fá slíka vítamínsprautu beint í æð. Og reynið nú endilega að mæta í einhverju öðru en svörtu til tilbreytingar.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone