Þegar kamelljón lítur í spegil: Um „Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum: Lög og textar“ eftir Ragnar Helga Ólafsson

30749-til-hughreystingar-theim-sem-finna-sig-ekki-i-samtima-sinum

Þegar kamelljón lítur í spegil

Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum: Lög og textar

eftir Ragnar Helga Ólafsson (Bjartur, 2015)

 

Hvað gerist ef kamelljón lítur í spegil? Þessari spurningu er varpað upp í ljóðabók Ragnars Helga Ólafssonar, Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum, sem kom út fyrir síðustu jól.  Speglar og speglun eru sterk tákn fyrir sjálfsmyndina og koma oftar en einu sinni fyrir í bókinni. Bornar eru upp spurningar á borð við: „Hver erum við?“ og „Hvernig eigum við að skilgreina okkur í heimi sem tekur sífellt breytingum?“ Þá eru vangaveltur um tíma og rúm leiðarstef í bókinni. Flakkað er í tíma og brugðið upp mynd af ókominni framtíð, þar sem enginn er viðstaddur, og sömuleiðis ferðast aftur í fortíðina. Tíminn er myndgerður og flæðir í stríðum straumum eins og mjólk eða vatn, allt er á hreyfingu og ekkert öruggt eða stöðugt.

Textarnir í bókinni eru af öllum stærðum og gerðum. Þar er að finna prósa í bland við myndljóð sem eru sett upp í hringi og spírala. Umgjörð og útlit bókarinnar, sem hannað er af höfundi sjálfum, fellur vel að þessum pælingum um formið en gat er í bókarkápunni miðri og umhverfis það eru fleiri hringir. Það er hressandi að lesa ljóðabækur þar sem formið er ekki heilagt og tilvitnunin fremst í Ryokan Taigu, um að ljóð séu alls engin ljóð, vekur lesandann strax til umhugsunar um eðli skáldskaparins sjálfs. Þegar öllu er á botninn hvolft eru ljóð nefnilega ekki óhagganlegar goðsagnaverur heldur síbreytilegar skepnur, kannski einmitt eins og kamelljónið sem nefnt var hér í upphafi.

            Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum er þriðja bók Ragnars Helga en hann hlaut bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar í ár fyrir hana. Ljóðin í bókinni eru fersk og frumleg og þau einkennir mikil myndvísi. Í lengri textum nýtur frásagnargleði höfundar sín vel og ég óskaði þess stundum að þeir væru enn lengri. Að loknum lestri var ég uppfull af spurningum og löngun til þess að ræða ljóðin við einhvern. Þegar bók skilur eftir sig slíkar tilfinningar hlýtur það vera merki um að vel hafi tekist til.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone