Þín eigin Paradís – eftir Jóhönnu Maríu Einarsdóttur

Blekfjelagið logo

Blekfjelagið, nemendafélag ritlistarnema við Háskóla Íslands, tók þátt í Lestrarhátíð á vegum bókmenntaborgarinnar Reykjavíkur í október síðastliðnum. Ritlistarnemar og aðrir Blekfjelagar skrifuðust á við rithöfundinn Svövu Jakobsdóttur en smásaga hennar, Saga handa börnum, varð innblástur og kveikja að áhugaverðu efni  sem mun birtast á Sirkústjaldinu á næstu dögum.

Fyrst til að ríða á vaðið er Jóhanna María Einarsdóttir, ritlistarnemi.

 

Þín eigin Paradís

líkami hennar

er landakort

mörkin á milli staða

þó loðin séu

eru skýrt afmörkuð

af aldagamalli orðræðu

 

áhugaverðir staðir:

varir

brjóst

rass

píka

 

má samt ekki gleyma:

snípur

 

mikilvægt að skoða eftirfarandi staði:

fótleggir

mjóbak

handleggir

háls

og alls ekki gleyma að horfa í augun

 

hér eru framleiddar dýrmætar afurðir svosem:

lífrænn áburður

mjólk

börn

ógleymanleg orð

 

að hafa komið hingað er stöðutákn

sem þú getur skilgreint þig með

aðgreint þig frá öðrum

svona ekta conversation starter

 

ráðamenn hafa tilkynnt niðurskurð

sem mun hafa hamlandi áhrif á hagkerfið í framtíðinni

en samið verður um að allir hlutaðeigandi fái sinn skerf

bæði af ofangreindum auðlindum og vannýttu landi

svo sem:

iljum

hnéskeljum

olnbogabótum

úlnliðum

lófum

hnakkagróf

og svo mætti lengi fram telja

 

þau svæði sem mega teljast til þjóðgarða

verða áfram í sameign þjóðarinnar

og standa innlendu ferðafólki opnir

á meðan erlendir túristar

verða rukkaðir um umsamið gjald

við komu til landsins

svo hægt sé að halda til mannsæmandi aðgengi

að vinsælustu ferðamannaparadísum þjóðarinnar

 

það má svo sannarlega heita mannréttindi

að geta ferðast

um sína eigin Paradís

frjáls og óháður

 

Jóhanna María Einarsdóttir.

Woman-map
Mynd eftir höfund
Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone