Þöglir tónar – táknmálssöngur í Tjarnarbíó

táknmál

Á degi íslenska táknmálsins 2014 sat ég í Tjarnarbíó í hjarta Reykjavíkur. Til hliðar við mig voru hendur á flugi að ræða dagskrána. Það sem stóð uppúr var söngatriði á íslensku táknmáli. Spennan magnaðist í salnum þegar tvær heyrnarlausar konur, Elsa G. Björnsdóttir og Kolbrún Völkudóttir, stigu upp á sviðið og komu sér fyrir sitjandi á stórum magnara. Þungur og áþreifanlegur bassatónn skapaði titring sem var svo mikill að hann fannst áður en að hann heyrðist. Listakonurnar samræmdu hreyfingar sínar með ljóðrænum hætti og byrjuðu að syngja frumsamdan texta á táknmáli um hinn dulda raunveruleika heyrnarlausra í heyrandi samfélagi. Þegar flutningnum lauk hristust hendur á loft, en þannig er klappað á táknmáli.

Í lokin sat ég uppi með kunnuglega tilfinningu sem ég varð samt undrandi á. Ljóst var að ekkert skorti í flutningnum, þar var texti, taktur, og tónar. En hvaðan kom þessi tilfinning? Hvernig er notkun táknmáls í tónlist ólík beitingu raddbandanna?

Táknmálstónlist er að aukast í vinsældum víðsvegar um heiminn en ekki eru allir á sama máli um að það skilgreinist sem tónlist þar sem að ekki er hægt að „hlusta“ á verkin í hefðbundnum skilningi. Sagan sýnir að skilgreining fólks á tónlist er mjög misjöfn og dæmi eru um heilu tónverkin sem eru meira og minna samansafn af þögnum og pásum.

John Cage samdi tónverk að nafni 4‘33“ en lagið er algjörlega hljóðlaust og skrifað niður í mismunandi pásulengdum. Hljómsveitarstjórinn lýsir þagnirnar í hreyfingum sínum á meðan hljómsveitin situr í hljóði í 4 mínutur og 33 sekúndur. Tilgangur verksins sýnir að þagnir gegna mikilvægu hlutverki í tónlist, en án hennar gæti skapast óskiljanlegur veggur hávaða og láta sem gæti yfirbugað hljóðskilningin.

Þrátt fyrir að iðulega sé litið svo á að hljóð sé órjúfanlegur hluti tónlistar þá er hvergi ritað að eina leiðin til þess að upplifa eða njóta hennar sé með því að „hlusta“ með eyrunum. Heyrnarlausir hafa margvíslegar leiðir til þess að finna fyrir hljóði.

Tæknikröfur táknmáls

Þegar maður leiðir hugann að táknmálstónlist vakna nokkrar spurningar, eins og hversu háð tækninni er þessi tjáningarmáti? Táknmálstónlist er fyrst og fremst háð blöndu af skilningarvitum, flutningurinn þarf að vera sýnilegur til þess að textinn skiljist og það þarf að vera hægt að finna fyrir bassanum til þess að upplifa hljóð og takt. Magnarar gera fólki kleift að finna fyrir hljóðbylgjum sem marka taktbreytingar og tjá ákafa. Ljós-sýningar geta gegnt sama hlutverki og magnarar en með ljósum er hægt að lýsa skrækum og háum tónum í köldum litum s.s. bláum og hvítum á meðan að djúpir og fylltir tónar er hægt að tjá með heitum litum eins og rauðum. Blæbrigði koma í staðinn fyrir tónsveiflur raddanna og því er ekki nóg að taka flutninginn upp á geisladisk og deila því með öðrum heldur krefst verkið þrívíddarrýmis til þess að fá að njóta sín.

Aftengdur flutningur, tónlist án tækni?

En hvað ef að við tökum allt rafmagnið úr spilinu og skiljum bara táknmálið eftir, er það tónlist?

Hljómsveitir á borð við Radiohead og Bright Eyes hafa notast við það sem kallast „spoken-word music“ eða flutning sem er án rafmagns og hljóðfæra. Þegar að tónlist er skilgreint sem eitthvað meira en listræn tjáning raddbandanna þá má vera að samhengi skiptir miklu máli. Það er sama hvernig fólk vill skilgreina hvað flokkast sem tónlist og hvað ekki, en eitt er víst að það er mikill vilji hjá bæði heyrnarlausum og heyrandi listamönnum að brúa bilið milli táknmáls og tónlistar.

Stórviðburðir á borð við Eurovision hafa verið útsett á táknmáli í nágrannalöndum okkar í Dannmörku og Noregi.

Svo hefur ástralska listakonan Sia Furler gert tónlistarmyndband þar sem hún dýfir höndunum í málningu og táknar á bandarísku táknmáli á meðan hún syngur í „Soon We‘ll Be Found“ svo að eitthvað sé nefnt. Það er því ekki fráleitt að hugsa um táknmál sem önnur birtingarmynd söngs sem, hugsanlega, orðabækur eigi einhverntímann eftir að innleiða.


Tónlist grefur djúp spor í hverfulleika tímans eins og pensill á þrívíddarrými strigans. Hún getur teygt stutta stund að eilífu og vakið tilfinningar á borð við undrun. Þegar  listakonurnar sungu með höndum sínum á degi íslenska táknmálsins fluttist ég inn í sögu þeirra og hlustaði vel með augum og líkama.

Á þeim degi sat ég ekki í Tjarnarbíó að reyna að flokka flutningnum samkvæmt einhverjun stöðlum, pælandi í skilgreiningum, með fræðimennskuna á bak við eyrað. Ég var á tónleikum og týndist í veruleika sem er hliðstæður okkar eigin. Saga, taktur, og tilfinning prjónuðust saman til þess að skapa flutning sem var meiri en summa hluta hennar.  Þegar verkinu var lokið þá hristust hendur mínar á loftinu og enginn efi var mér í huga um upplifunina sem ég bjó yfir.

Það er hægt að syngja á táknmáli.

Sjá nánar

Seeing Music

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone