Þriðjudagsmorgunn eftir Brynju Hjálmsdóttur

skaldverk

Gréta vaknaði yfirleitt aldrei fyrir hádegi þar sem hún hafði ekki fasta atvinnu. Hún hafði engu að síður nóg á sinni könnu, líkt og flestar konur gæddar svipuðum hæfileikum, en þennan morguninn var hún aldrei þessu vant vöknuð fyrir allar aldir og þegar hún var um það bil að fá sér sopa af neskaffinu hringdi dyrabjallan. Hún lagði frá sér bollann og fór til dyra. Í gættinni var konan af neðri hæðinni íklædd því sem kannski var einu sinni heimilislegur einkennisklæðnaður allra kvenna á hennar aldri en virtist nú sem minning úr fortíðinni; rúllur í hári, morgunsloppur, inniskór.

„Sæl,“ sagði hún og rétti fram höndina. „Ágústa heiti ég. Ég bý hérna fyrir neðan, við höfum oft sést.“

Gréta tók í útrétta hönd hennar og kynnti sig. „Blessuð. Gréta. Já, ég hef oft séð þig.“

„Já, einmitt. Ég vildi nú bara spyrja þig um manninn sem býr í íbúðinni á móti.“

„Á móti mér?“

„Já, þekkirðu hann eitthvað?“

Grétu var nokkuð skemmt yfir þessari hnýsnu kerlingu, af hverju ætti hún að þekkja þennan karl? Hún var tiltölulega nýflutt inn en Ágústa hefur að öllum líkindum búið í þessu húsi alla ævi. Hún virtist þess háttar kona sem myndi ekki flytja út jafnvel þó hún dræpist á staðnum, heldur myndi hún ásækja húsið til eilífðar.

„Ég get nú ekki sagt að ég þekki hann neitt, ég rekst frekar sjaldan á hann. Hann virðist ekki vera mikið á ferðinni.“

„Já, einmitt. Ég var bara að hugsa hvort þú hefðir eitthvað tekið eftir honum svona yfir daginn því þú ferð nú meira á stjá á kvöldin.“

Djöfuls kerlingin, hugsaði Gréta. Alveg dæmigert að hún sé njósnandi um ferðir nágranna sinna. Hún hefði þó haldið að Ágústa væri fullfær um að sinna njósnastörfum sínum sjálf, án þess að þurfa hennar hjálp.

„Þú lætur ekkert framhjá þér fara. Ég vinn sko á kvöldin.“

„Já, ég skil.“ Hún flissaði afsakandi. „Fyrirgefðu að ég sé að trufla þig svona snemma.“

„Allt í lagi, ég vakna yfirleitt mjög snemma.“

„Tilfellið er að hann hefur ekki sótt póstinn sinn í kassann niðri. Hann hefur náttúrulega alltaf verið frekar fúllyndur, hann er eitthvað pínu galinn sko, hangir heima allan daginn og svona. En hann hefur nú alltaf lesið sín dagblöð afar samviskusamlega, jafnvel einum of samviskusamlega, hann lagði það einu sinni í vana sinn að stela sunnudagsmogganum mínum. Hann viðurkenndi það reyndar aldrei en ég veit það var hann. En núna eru blöð frá síðustu fjórum dögum í kassanum hans.“

Gréta kímdi yfir þessari litlu rannsókn Ágústu. Ef til vill var greyið búið að lesa einum krimmanum yfir sig.

„Ókei, heldurðu hann hafi ekki bara farið í frí?“

„Frí?!“ æpti hún en lækkaði svo róminn. „Þessi gamli fýlupúki, það held ég nú ekki. Ég ætlaði bara að spyrja þig hvort þú hefðir eitthvað orðið vör við hann síðustu daga, svona áður en ég færi inn til hans að athuga þetta nánar.“

„Ég hef ekkert séð hann. Hvernig ætlar þú að fara inn til hans, ertu með lykla?“

„Ég á lykla að ýmsum skrám. Fyrst þú hefur ekkert séð hann er mér ekki til setunnar boðið. Þú mátt koma með ef þú vilt.“

Gréta var gáttuð á framferði nágrannakonu sinnar en þar sem Ágústa lukti upp dyrum íbúðarinnar á móti gat hún ekki á sér setið að fylgja henni. Það var myrkt í forstofunni en handan við hornið mátti sjá fölhvíta birtu skína inn um gluggana.

„Halló? Þetta er Ágústa á neðri, ætlaði bara aðeins að líta inn…“

Það var ekkert svar. Enginn sjáanlegur í stofunni. Þar sem grannkonurnar fikruðu sig inn í borðstofuna blasti við þeim afhöfðaður kroppur á gólfinu. Það var lagt snyrtilega á borð, hálf vínflaska stóð opin á borðinu. Höfuð mannsins var á silfurfati og fatið skreytt með grænmeti og ávöxtum sem farið var að slá í. Toppur höfuðkúpunnar hafði verið sagaður af og silfraðri skeið tyllt í grábleikan heilann. Tveir matardiskar voru til reiðu auk vínglasa. Konurnar settust til borðs og þögðu, maðkar iðuðu í tómum tóftunum.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone