Tilveran tækluð með endurunnum táknum – Bláskjár, Dante og bláa tunnan

Úr sýningu Borgarleikhússins
Úr sýningu Borgarleikhússins

Ítalska skáldið Dante Alighieri skrifaði Gleðileikinn guðdómlega í útlegð snemma á fjórtándu öld. Þrátt fyrir að Dante hafi verið dauðlegur maður má segja að söguljóð hans sé ódauðlegt því áhrifa þess gætir enn í bókmenntum og listum samtímans. Verkið er nefnilega í grunninn tilvistarskáldskapur sem glímir við skynjun manna á efnisheiminum sem og hinum andlega – sígild efnistök sem snúa að tilvist manneskjunnar sem og hvernig hún er túlkuð í listaverkum.

Leikritið Bláskjár, eftir Tyrfing Tyrfingsson, sem sýnt var í Borgarleikhúsinu á dögunum gerist þó ekki á fjórtándu öld heldur í kjallara í Kópavogi í samtímanum. Ákveðin textatengsl eru á milli Bláskjás og Gleðileiksins og byggist sú röksemdafærsla ekki síst á innkomu endurvinnslutunnunar um miðbik sýningarinnar. Endurvinnslutunnan er póstmódernískt tákn sem vísar til þeirrar endurvinnslu á textum og táknum sem samtímahöfundar vinna gjarnan með í verkum sínum. Það eru fjöldamargar vísanir í samtímann í Bláskjá en í verkinu er einnig unnið með eldri texta. Auðgreinanlegustu vísanirnar eru auðvitað í þýska ævintýrið Bláskjá eftir Franz Hoffmann enda er sagt berum orðum að persónur leikritsins hafi verið nefndar í höfuðið á helstu persónum ævintýrisins. Aðalhetja þess, drengurinn Bláskjár, er í byrjun ævintýrisins innilokaður og kúgaður en fær að lokum uppreisnar æru þegar borin eru kennsl á hann sem greifasoninn sem var rænt fyrir mörgum árum. Hann finnur leiðina úr myrkrinu í ljósið – úr skynleysinu yfir í skynjunina og skilninginn.

Dante fetaði samskonar stigu úr myrkri yfir í birtu í Gleðileiknum guðdómlega. Dante hafði fornrómverska skáldið Virgil til þess að vísa sér leiðina, líkt og börnin Valter og Emma nutu handleiðslu Bláskjás. Valter og Emma í leikverki Tyrfings hafa hinsvegar engan til þess að vísa sér leiðina úr kjallaranum sem þau hafa verið lokuð niðri í í sjö ár. Þar hafa þau mátt dúsa fyrir tilstuðlan föður þeirra. Verkið á sér stað rétt fyrir jarðarför föðursins, en þrátt fyrir dauða harðstjórans er ægivald hans yfir stálpuðum börnum sínum svo algert að það nær út fyrir gröfina. Faðirinn var stjórmálamaður í Kópavogi og er sagður hafa gert tilraunir á börnum sínum og síðar yfirfært niðurstöðurnar á stærri hóp fólks. Emma og Valter eru greinilega illa leikin andlega eftir tilraunir föðursins því þau virðast ekki fær um að taka stjórn á eigin lífi heldur tönglast stöðugt á því hvað þau ætla að gera þegar þau flytja úr kjallaranum og upp á efri hæðir hússins. Það sem stendur í vegi fyrir flutningnum upp á við er yngsti bróðir þeirra sem var uppáhald föðursins. Hann var nefndur í höfuðið á illmenni ævintýrisins, Eiríki, er sagður séní og er kallaður skuggi föður síns. Eiríkur er staðráðinn í að halda heiðri stjórnmálamannsins á lofti eftir andlát hans og jafnframt að halda stigveldi heimilisins í sömu skorðum. Það þýðir að Valter og Emma fá ekki að flytja upp á einhverjar af þeim sjö hæðum sem húsið hefur upp á að bjóða heldur hírast áfram í kjallaranum.

Dante og hreinsunareldurinn

“Dante og verkið hans” eftir Domenico di Michelino, 1465

Gleðileikurinn skiptist í þrjá hluta þar sem lýst er fjöldamörgum lögum Vítis, Hreinsunareldsins og Paradísar. Eftir dauðdaga er hverjum og einum er úthlutað refsingu (og stundum umbun) í samræmi við (ó)hollustu þeirra við guðdóminn í lifanda lífi. Þeir sem aldrei iðruðust synda sinna í lifandi lífi þurfa að líða stöðugar kvalir í Víti en þeim sem iðruðust fyrir andlátið er gefið færi á að klífa sjö hjalla Hreinsunarfjallsins og hljóta þannig syndaaflausn. Í leikritinu kemur í ljós að Valter og Emma hafa fórnað sér fyrir Eirík með því að taka ofbeldi föðursins á sig svo hann myndi ekki beina því að yngsta barninu. Faðirinn er sagður hafa hafst við á efri hæðunum á daginn en framið myrkraverk sín í kjallaranum á kvöldin. Hann tekur sér guðlegt vald yfir sköpun sinni og staðsetur börnin í húsinu líkt og Guð staðsetur manneskjur í stigveldi handanlífsins.

Þegar Eiríkur flytur alfarið úr húsinu verður hinsvegar ljóst að Emma og Valter komast ekki upp úr kjallaranum að sjálfsdáðum. Þá er ljóst að Eiríkur stóð ekki í vegi fyrir þeim heldur þau sjálf. Þau hafa engan Virgil eða Bláskjá til þess að leiða sig upp úr myrkrinu og í gegnum hæðirnar sjö sem minna óneitanlega á sjö hjalla Hreinsunarfjallsins. Faðir þeirra hefur alið frá þeim sjálfstæðan vilja og því kjósa þau að hafast áfram við í kjallaranum, í endurtekningunni og vananum, fremur en að horfast í augu við hið óþekkta. Það átta sig nefnilega fæstir á þröngsýni sinni fyrr en þeir hafa öðlast yfirsýn.

Einhver persóna leikritsins (eða fleiri) sagði að þau réðu algjörlega hvernig bláa tunnan yrði notuð – að þau hefðu algjört frelsi og að það væri hægt að endurvinna hvað sem er. En um leið var gefið í skyn að allt sem færi í endurvinnslutunnuna væri ekki hægt að nýta aftur í sinni upprunalegu mynd, heldur þyrfti að skapa eitthvað nýtt úr hráefninu. Það felst ákveðið frelsi í því að átta sig á því að það sé ekki hægt að orða tilveru manneskjunnar án takmarkana tungumálsins sem gerir það að verkum að engin sköpun getur átt sér stað sem er fullkomlega frjáls. Þegar Dante fékk aðgang að innsta hring Paradísar og fékk að líta guðdóminn augum  áttaði hann sig á því að hann myndi aldrei koma upplifuninni í orð því tungumálið gæti einfaldlega ekki náð algjörlega utan um þá hreinu skynjun sem hann upplifði á því augnabliki. Hrein skynjun og tjáning er aðeins til í yfirnáttúrulegri Paradís og því erum við flest föst í takmörkunum kjallarans. Okkur er talin trú um að við höfum frelsi til þess að halda upp á við en kjósum að kúldrast í kjallaranum „aðeins lengur“ því það er ákjósanlegra en óvissan.

Að líta skáldskap sömu augum og endurvinnslutunnu gefur færi á að skapa eitthvað nýtt úr eldri textum og útjöskuðum táknum. Vistkerfi tungumálsins hefur takmarkanir að sama skapi og vistkerfi jarðarinnar. Um leið og við gefum Paradísina upp á bátinn getum við farið að (endur)nýta efniviðinn á skapandi máta. Orð eru kannski ekki fullkomlega fær um að tjá skynjun – en sum skáldverk eru fær um að skapa nýja skynjun.

 

Heimildir:

Dante Alighieri. 2010. Gleðileikurinn guðdómlegi. Þýð. Erlingur E. Halldórsson. Mál og menning, Reykjavík.

Hoffmann, Franz. 1991. Bláskjár. Þýð. Hólmfríður Knudsen. Forlagið, Reykjavík.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone