Tímaskekkjur – á bakvið tjöldin IV

Tímaskekkjur

„Tíminn líður, trúðu mér, taktu maður vara á þér,“ svona hefst ein gamalkunn vísa enda orð að sönnu. Hér er nefnilega komið að næstsíðasta viðtalinu við hæfileikaríku einstaklingana sem standa að skáldverkinu Tímaskekkjur. Verkið er væntanlegt í lok mánaðar og mun hópurinn blása til veglegs útgáfuhófs 26.maí.

Sirkústjaldið hefur á undanförnum vikum rætt við höfunda og ritstjóra Tímaskekkna og að þessu sinni var rætt við Jóhönnu Maríu Einarsdóttur, Tryggva Stein Sturluson og Einar Leif Nielsen og ritstjórann þeirra, Svanhildi Sif Halldórsdóttur.

Jóhanna María Einarsdóttir, Tryggvi Steinn Sturluson, Einar Leif Nielsen, Svanhildur Sif Halldórsdóttir

Jóhanna María Einarsdóttir, Tryggvi Steinn Sturluson, Einar Leif Nielsen, Svanhildur Sif Halldórsdóttir

Hvers vegna völduð þið ritlistina/hagnýtu ritstjórnina og þetta námskeið?

Jóhanna: Mig langaði að koma mér í gír við að skrifa. Það hefur mér alltaf verið mikilvægt að skapa í lífinu. Ég hef alltaf teiknað og málað og föndrað. Þess vegna fór ég í myndlist í LHÍ. En á síðasta ári mínu þar var allt farið að snúast um texta hjá mér. Þetta þróaðist allt einhvern veginn í áttina að skrifum þannig að það lá nokkuð beint við að fara í ritlist. Hinsvegar komst ég ekki inn í fyrra skiptið sem ég sótti um. Það var fyrsta árið sem ritlistin var kennd í meistaranámi en ekki bara á BA-stigi. Þá fór ég í BA-nám í almennri bókmenntafræði og hélt að það myndi „sökka“, sem það gerði alls ekki því ég kynntist þar góðum vinum. Þegar ég kláraði bókmenntafræðina lét ég reyna aftur á meistaranám í ritlist og komst inn. Áfanginn Á þrykk er svolítið sérstakur áfangi af því að hann endar með bókaútgáfu. Það dýrmætasta við meistaranám í ritlist er allt fólkið sem ég hef kynnst. Ég veit það að ég fer ekki aftur ofan í skáldaskúffuna mína þegar ég klára af því að ég hef kynnst svo góðu fólki sem er líka að skrifa.

Tryggvi: Ritlistin leit bara út eins og upplagður byrjunarreitur og tækifæri til að leggjast yfir skriftirnar af meiri alvöru. Mér fannst ég frekar stefnulaus eftir BA-námið mitt og ákvað bara að henda mér út í þetta til að kynnast betur þessum heimi, sem ég var spenntur fyrir en virtist alltaf aðeins utan seilingar. Á þrykk hljómaði spennandi og ég held að það sé öllum hollt sem sitja heima með dýrmætu orðin sín á blaði, að kynnast þessu útgáfuferli.

Einar: Mig langaði að kynnast sjálfsúgáfu meira þar sem það er alltaf að verða ríkari hluti af starfi rithöfunda. Þetta sá kúrs sem einblínir hvað mest á sjálfsútgáfu og því einstaklega ganglegur fyrir okkur sem langar að prófa spreyta okkur á ritvellinum.

Svanhildur: Ég er ekki alveg viss af hverju ég valdi þetta nám. Mér finnst rosalega gaman að lesa, held að það hafi verið eina ástæðan. Ég las námskeiðalýsingarnar fyrir þetta nám og þær hljómuðu allar mjög spennandi þannig að ég ákvað að skella mér í þetta. Ég byrjaði í þessu námi núna í janúar og eftir að hafa séð lýsinguna á þessum áfanga þá hugsaði ég með mér að það væri örugglega langskemmtilegast að hoppa beint í djúpu laugina.

Hafið þið reynslu af samstarfi sem þessu, ritstjóra og höfunda?

Jóhanna: Já, ég á mjög góðar vinkonur sem lesa allt sem ég segi þeim að lesa og þær er hreinskilnar, svo já, að einhverju leyti þá hef ég reynslu. Ein þeirra er meira að segja farin að vinna hjá bókaútgáfu og hefur verið með puttana í nokkrum textum þar.

Tryggvi: Í rauninn ekki, nema í mýflugumynd, og það hefur verið mjög áhugavert að fara í gegnum það.

Einar: Já, þegar ég gaf út bókina mína Hvítir múrar borgarinnar árið 2013.

Svanhildur: Ég hafði voða litla reynslu, nánast enga. Systir mín er handritshöfundur og ég hafði aðstoðað hana við nokkur handrit, en það er allt önnur vinna en þetta.

Hvernig fór ritstjórnarferlið fram?

Jóhanna: Við kynntumst í bókmenntafræði í Háskólanum og byrjuðum á því að lesa yfir ritgerðir hjá hvorri annarri. Ég held við höfum verið nokkurskonar súpergrúppa. Svo gekk það sífellt lengra þar til við opinberuðum skáldaskúffur okkar. Nú á ég nokkra vel valda þræla í skáldaskúffunum mínum.

Tryggvi: Við höfundarnir skilum uppkasti eða hugmyndum til ritstjóra sem fer yfir og bendir á það sem betur má fara, hvort sem er í efnistökum, uppbyggingu eða málfari, og við breytum svo og bætum og skilum svo aftur. Þetta fer allt nokkrum sinnum á milli og slípast til smátt og smátt þar til eftir stendur eitthvað sem bæði höfundur og ritstjóri eru sáttir við. Það er ómetanlegt fyrir okkur höfundana að fá að heyra skoðanir annarra sem koma alveg ferskir að textunum því við erum oftast orðin alveg samdauna þessu.

Einar: Þorsteinn Mar, sem var ristjóri minn við útgáfu Hvítra múra borgarinnar, aðstoðaði mig mjög mikið. Hann kenndi mér hvernig ég gæti sjálfur yfirfarið textann sjálfur betur og kom svo með góðar ábendingar, bæði hvað varðar sögu og texta. Auk þess er ég á ég góða vini sem hafa reynslu af ritlist sem kíkja stundum yfir textana mína og koma með ábendingar.

Svanhildur: Ég las textana sem höfundar létu mig fá og kom með athugasemdir. Það var stressandi fyrst en auðveldara eftir því sem leið á áfangann og maður kynntist höfundunum betur. Þá sá maður hvaða hugsanir fóru í textann og í hvaða átt þeir vildu fara með hann. Ég vil meina að ég hafi pínu hjálpað þeim við að stýra textunum í þá átt.

Fyrir hvern er Tímaskekkjur?

Jóhanna: Tímaskekkjur er skáldverk fyrir alla sem hafa tíma.

Tryggvi: Fyrir alla þá sem þurfa á smá andartaki fjarri veruleikanum að halda. Því ekkert er betra en góður skáldskapur til að minna mann á að tilveran er ekki tóm þvæla.

Einar: Tímaskekkjur er fyrir alla. Sérstaklega þá sem hafa áhuga á ungum rithöfundum og nýjum hlutum sem er að gerast í ritlist á Íslandi.

Svanhildur: Tímaferðalanga… og aðra.

Hvað vinnið þið höfundar með í textum ykkar og af hverju skrifið þið?

Jóhanna: Ég vinn yfirleitt bara með það sem er efst á baugi í huga mér. Stundum skrifa ég um lágvaxna gíraffa, stundum um ástina eða ástarsorg, og stundum skrifa ég um tré sem hatast út í mannfólk. Annars skrifa ég oft til að gleyma eða koma mér í gegnum ákveðin hugsanaferli. Þá get ég verið mjög dramatísk. Annars er ég yfirleitt með skissubók á mér og skrifa niður áhugaverð setningabrot eða hugsanir þegar þær sækja að mér. Svo skoða ég þessi brot þegar mig vantar innblástur. Ég safna innblæstri.

Tryggvi: Þegar spurningarnar eru svona stórar virðast svörin alltaf agnarsmá. Að því sögðu held ég að ég skrifi að hluta til vegna þess að það er ekki til betri leið til að upplifa veruleikann á nýjan hátt. Þegar þú sest niður og býrð til þinn eigin hliðarveruleika þarftu að velta heiminum öðruvísi fyrir þér en áður. Svo verður hinn hversdagslegi veruleiki bara miklu skemmtilegri þegar hann hefur einhverja samkeppni.

Einar: Mig langaði aðeins að vinna með minningar og hvernig þær skipta okkur máli. Þetta var kjörið tækifæri til þess og úr varð vísindasagan Timaþjófurinn, sem ég er með í bókinni. Annars skrifa ég mest fyrir sjálfan mig, hef mikla þörf til þess en það er bara bónus ef einhver vill lesa textann.

Hvað skrifið þið um í Tímaskekkjum?

Jóhanna: Mér finnst mikilvægast að komast lengra með skrifum en hugurinn einn fer. Að skapa eitthvað út frá einhverju er ákveðið ferli sem er ekki hægt að endurtaka í annarri mynd og þess vegna er mikilvægt fyrir mig að skrifa og skapa. Ég hef ekki (að minnsta kosti ekki enn) valið mér sérstakt viðfangsefni enda þykir mér það óráðlegt. Mér hefur samt verið sagt að ég hafi ákveðinn stíl. Kannski er stíll einskonar viðfangsefni. Ég er samt ekki að fjalla um stíl í eðli sínu. Kannski er stíllinn ferlið sem ég fer í gegnum þegar ég skrifa, þ.e. að ganga sífellt lengra í að setja fram einhverja hugmynd eða framvindu. Hvað er þessi spurning annars að vilja upp á dekk?

Einar: Ég er að skrifa um mann sem tapar ári af ævi sinni. Í því samhengi er ég að velta fyrir mér tækninýjungum, siðferðislegum spurningum og hvernig tíminn getur stundum skipt okkur minna máli en við höldum. Við þurfum nefnilega að gæta tímans okkar og passa að sóa honum ekki. Sagan Tímaþjófurinn er vísindasaga og því furðusaga (e. science fiction & fantasy) en ég skrifa oftast sögur sem passa inn í þá skilgreiningu.

Tryggvi: Ég er aðallega að vinna með hressar pælingar um einmanaleika og einangrun, firringu og sambandsleysi á misdjúpum stigum. Svo reyni ég að nálgast þetta á fjölbreyttan hátt og fá lesandann til að spyrja sjálfan sig einhverra spurninga. Þótt hann spyrji bara hvað þessi vitleysa eigi að þýða þá er það alveg nóg fyrir mig.

Hvað hefur tíminn kennt ykkur?

Jóhanna: Fátt algott, en flest áhugavert.

Tryggvi: Það er alltaf betra að verja tíma en að eyða honum. Maður þarf bara að læra að þekkja muninn.

Einar: Tíminn hefur í samráði við margt annað kennt mér allt sem ég kann. Ég hef lært að njóta hans og nýta. Það er víst bara takmarkað magn sem okkur er úthlutað

Svaný: Tíminn hefur kennt mér að ég get meira en ég held, ef ég nota hann rétt

Skáldverkið Tímaskekkjur

Skáldverkið Tímaskekkjur

Einu sinni var í framtíðinni

Líkt og áður þá endum við á textabrotum úr verkum höfundanna. Hér má sjá dulúðug verk þeirra Jóhönnu, Tryggva og Einars.

Vísindaskáldskapur

-Jóhanna María Einarsdóttir

Einu sinni var kona sem lá í rúminu sínu og horfði á heimildamynd um hulduefni. Hún sá að ef maðurinn í myndinni héldi á hulduefni í lófa sér, hefði efnið tiltekna þyngd þar sem aðdráttaraflið myndi draga það til sín, en að það íþyngdi ekki manninum því það færi rakleitt í gegnum lófa hans án þess að hann fyndi fyrir því. Hún ímyndaði sér að hún sjálf væri eingöngu búin til úr hulduefni og lokaði augunum. Eins og fara gerir dróst hún í gegnum rúmið niður á jörðina. Hún fannst ekki aftur fyrr en rúmið var tekið út úr herberginu og helmingur líkama hennar stóð út úr rúmbotninum eins og neðri helmingur líkama sem marar í flæðarmálinu, á meðan hinn helmingur hennar hafði sameinast rúminu. Það veit enginn til þessa dags hvort konan var enn með lokuð augun eða hvort hún hefði opnað þau á þeirri stundu sem hún varð aftur búin til úr efni.

Gangverk

-Tryggvi Steinn Sturluson

Í fyrstu er hljóðið bara lágt og eins og í fjarska. Taktfast tif sem kemur stöðugt nær. Treður sér inn í drauma þína sem þó eru varla neitt og grípur í þig. Dregur þig í gegnum leðjukennt meðvitundarleysið og upp á yfirborðið. Þú vaknar. Þú ert vakandi en samt er allt svart. Tifið er það eina sem þú heyrir. Það eina sem þú sérð eru titrandi augnlok þín innan frá. Þú þorir ekki að opna augun.

Tímaþjófurinn

-Einar Leif Nielsen

Í draumum mínum hljómaði vindurinn eins og suðið sem býr í tóminu milli útvarpsstöðva. Rólega opnaði ég augun og sá að þetta var skrjáf í plasti sem hékk eins og gardínur fyrir glerlausum gluggum. Það straukst við hráa steypuvegginn og núningurinn myndaði þetta ónáttúrlega hljóð. Það var ekkert inni í þessu ókláraða herbergi. Ekki sófi eða borð, kaffivél eða bolli, hamar eða borvél. Ekki neitt nema ég, plastið og ómálaðir veggirnir. Ég lá á köldu steingólfi í tómri beinagrind fjölbýlishúss. Það hafði greinilega verið gaman í gær því að ég mundi ekkert hvernig ég komst þangað. Auk þess átti ég ekkert í þessum græna frakka.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone