„Tíminn er takmörkuð auðlind“ – um Heimsku eftir Eirík Örn Norðdahl

Heimska

„Framtíðin er raunveruleg“, segir í nýjustu skáldsögu Eiríks Arnar Norðdahl, Heimsku. Afleiðingar þess sem við framkvæmum í dag sjást í hinni áþreifanlegu framtíð. Þó hún sé óljós, virki óraunveruleg og draumkennd mun hún koma og hún er ekki síður raunveruleg en nútíðin eða fortíðin. Í þessum orðum felst viðvörun dystópíunnar sem á sér vissulega birtingarmynd í Heimsku sem þó er flóknari frásögn en svo að hægt sé að afgreiða hana snyrtilega í þann flokk.

Á öllum heimilum eru vefmyndavélar út um allt og þó hægt sé að slökkva á þeim gerir fólk það sjaldnast, því allir vilja láta taka eftir sér, horfa á sig.

Saga hjónanna Lenítu og Áka Talbot er sögð hér. Þau voru listamannahjón sem gengust upp í bóhemstimplinum og voru nokkuð ánægð í sínu hjónabandi þangað til þeim varð það á að skrifa skáldsögu um sama efni með sama titli á sama tíma. Sögurnar voru ekki samhljóða og fóru ekki eins en þær voru nægilega líkar til þess að hinir egóistísku listamenn réðu ekki við það. Úr varð skilnaður og stríð í fjölmiðlum og á bókmenntamarkaði. Samfélagið sem þau búa í er alsæissamfélag, ekki panopticon þar sem yfirvaldið gæti hvenær sem er verið að fylgjast með þegnunum, heldur synopticon þar sem þegnarnir fylgjast af áfergju hver með öðrum. Á öllum heimilum eru vefmyndavélar út um allt og þó hægt sé að slökkva á þeim gerir fólk það sjaldnast, því allir vilja láta taka eftir sér, horfa á sig.

Kynlíf undir eftirliti

Sögumaður frásagnarinnar talar tæpitungulaust og tónninn er fínlegur og næmur en orðfarið er gróft og blátt áfram. Þannig eru lýsingar hans líka. Hann lýsir þessu narsissíska samfélagi þar sem athyglisþörfin hefur tekið öll völd mjög beinskeytt en þó fordómalaust. Hann er augað sem sér, röddin sem lýsir en predikar ekki. Lesandinn fær svigrúm fyrir eigin sleggjudóma, eigin viðhorf og þarf kannski svolítið að kljást við eigið siðferði, einmitt vegna þess að sögumaðurinn neitar að segja honum hvernig hann eigi að bregðast við, hvernig hann eigi að dæma og er alls ekki leiðandi. Í samfélagi bókarinnar er enginn einn og sýningin stoppar aldrei. Fólk stundar kynlíf undir eftirliti, kúkar undir eftirliti og draslið heima hjá því er ekki lengur einkamál. Gestatiltekt heyrir sögunni til, því allir hafa hvort sem er séð draslið heima hjá þér.

Það sem er sérstakt við Heimsku er að það er fjallað um þessi mál af nærgætni og án þess að samfélagið sem slíkt sé dæmt.

Þegar hryðjuverk eru framin og eftirlitið gert óvirkt verður uppi fótur og fit. Samfélagið sem heild vill ekki láta taka það frá sér, það vill ekki hætta að sviðsetja sig fyrir öðrum. Það er ef til vill eitt það svæsnasta í frásögninni, þetta ógnarsamfélag er ekki sett upp í óþökk þegna sinna. Athyglin er aðalmálið og hana vill fólk fá, með morgunkaffinu, með síðdegisríðingunum, með laumulegu sígarettunni úti í garði á kvöldin.

Fordómalaus ádeila

Sögusvið bókarinnar er margþætt. Frásögnin gerist á Ísafirði en hjónaband og skilnaður Áka og Lenítu myndar forsögu atburðanna sem eru í brennidepli. Eitt magnaðasta atriðið í bókinni er í þessari forsögu þegar einn af bókmenntagagnrýnendunum sem fjalla um samtitla bækur þeirra hjóna gengur inn í hlutverk barnsins úr ævintýrinu Nýju fötin keisarans og spyr af hverju málið hljóti alla þessa athygli. Hann segir bækurnar ekki góðar og að þær eigi ekki innistæðu fyrir þessari umfjöllun. Við þetta dettur brjálæðið niður og neytendur bókanna hætta að kaupa þær. Þeim er skilað í hrönnum í búðir og eftir sitja höfundarnir tveir, naktir, fíflaðir og berskjaldaðir eftir að hafa afhjúpað sig í fjölmiðlum og á internetinu, í þeim eina tilgangi að fá meiri athygli en keppinauturinn.

EiríkurÖrnNorðdahl

Eiríkur Örn Norðdahl

Heimska er ádeila á nútímasamfélag, hraðann og narsissismann sem einkennir það að mörgu leyti. Það sem er sérstakt við Heimsku er að það er fjallað um þessi mál af nærgætni og án þess að samfélagið sem slíkt sé dæmt. Það skín út úr rödd sögumannsins að þessi þörf fyrir athygli sé mannleg og að mörgu leyti eðlileg og lesandanum er aldrei sagt að hann eigi að breyta háttum sínum eða hvernig hann ætti að hegða sér í staðinn. Þetta bætir mörgum lögum af túlkunarrými við textann og gerir frásögnina að flóknu samspili persóna, samfélags, sögumanns og lesenda. Heimska er vel unnin, góð og áhugaverð bók sem óhætt er að mæla með.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone