Töfraheimur Prakkarans

DSCF1841

Töfraheimur Prakkarans (L’Enfant et les Sortiléges)
Eftir Maurice Ravel í þýðingu Guðmundar Jónssonar
Leikstjórn: Sibylle Köll
Tónlistarstjórn: Hrönn Þráinsdóttir
Lengd: 50 mínútur

Það var ánægjuleg upplifun að sjá ævintýraóperuna L’Enfant et les Sortiléges eftir franska tónskáldið Maurice Ravel í Hörpu, sunnudagskvöldið 7. febrúar. Sýningin er liður í námi nemenda á efri stigum Söngskólans í Reykjavík. Sýningin var barnasýning ætluð börnum á öllum aldri og var sýnd í Kaldalóni, kl. 15 og kl. 18 fyrrnefndan sunnudag.

Sagan segir frá ungum dreng, sem í leikskrá er nefndur Prakkarinn. Hann er mikill ólátabelgur, fyrirferðarmikill og orkuríkur, móður sinni til mikillar armæðu. Í dag hefði Prakkarinn sennilega verið greindur með ADHD, en við látum það liggja milli hluta um sinn. Með ímyndunaraflið að vopni leggur hann í ferðalag þar sem hlutir, dýr og furðuverur fá skemmtilegar raddir, sem leiðbeina honum á vegferð hans um undraheim ímyndunaraflsins. Þar fær hann að kynnast persónuleika dýranna og hlutanna og kemst meðal annars að því að dýrin hafa líka tilfinningar. Dýrin finna líka til söknuðar og þurfa að láta hugga sig af og til. Svo getur meira að segja eldhússtóll móðgast!

DSCF1764

Lifandi drumbusláttur á sviði gaf sýningunni skemmtilegan lit.

Húmor og hugvitssemi voru vafalaust styrkur sýningarinnar; sviðsetningin var einföld en áhrifarík. Áhersla leikstjórans, Sibylle Köll, lá á öflugri persónusköpun með hjálp einfaldra búninga. Í stað hins íburðamikla ákvað Köll að leita í einfaldleikann; draga fram persónueinkenni dýra og hluta með vönduðum aukahlutum og persónusköpun. Teketill nokkur var að sjálfsögðu breskur með pípuhatt og Earl Grey miða hangandi á belgnum. Systir hans tebollinn var síðan úr kínversku testelli, í gervi geishu.

Við lestur leikskrár kom í ljós að leikstýran er dansmenntuð, en sú menntun skein vel í gegn í sviðssetningunni. Kóreógrafíur voru þaulæfðar og lausar við klisjur; smekklegar og pössuðu  viðfangsefninu vel. Það var gaman að sjá sauðslega kindahjörð stíga tignarlegan „passepied”, í íslenskum lopapeysum. Dansinum fylgdi lifandi drumbusláttur á sviðinu af hendi eins söngvaranna, sem hentaði því atriði vel.

Er þá ógleymd senan við arineldinn í stofunni, en þar fengu áhorfendur að sjá hvað það getur verið hættulegt að leika sér að eldinum – sérstaklega ef eldurinn er sópran. Sú sena var sérlega eftirminnileg þar sem logar eldsins flugu um sviðið með hjálp rauðra silkiborða. Snjöll nálgun, skrifaði ég í glósubókina.

DSCF1684

Tónlistarstjórn Hrannar Þráinsdóttur var til fyrirmyndar og sló hvergi feilnótu, að mati gagnrýnanda.

Píanóleikur Hrannar Þráinsdóttur var vandaður og ómþýður – sló ekki feilnótu, eftir mínu eyra. Hrönn leiddi óperuna af taktvissu öryggi og auðheyrt að hún nálgaðist verkið af næmni og þekkingu.

Mögulega hefði sýningin blómstrað betur í óhefðbundnara rými, t.d. black-box, en þorri söguþráðsins gerist úti í garði. Möguleikar á öðruvísi innkomum hefðu styrkt þann draumheim, sem leikstjóri skapaði í Hörpu, enn frekar. Mætti þar sem dæmi nefna Tjarnarbíó eða snyrtilegt iðnaðarrými. Þannig hefði verið hægt að leika sér enn frekar með skjávarpa-sviðsmyndina, sem mér þótti listilega teiknuð.

DSCF1789

Leikstýra náði fram aðdáunarverðri persónusköpun með leikarahópnum.

Þrátt fyrir takmarkaða leikaraþjálfun söngvaranna tókst Sibylle að ná fram aðdáunarverðum persónueinkennum og varð mér það fljótt ljóst, að við munum vafalaust sjá einhverja úr þessum leikarahópi á stærri sviðum landsins innan fárra ára, bæði sem söngvara og leikara.

Framkvæmd sýningarinnar var metnaðarfull og hugvitssöm með barnslæga leikgleði í fyrirrúmi. Hópurinn stóð sig með prýði í því þarfa verkefni sem það er að fjölga fallegum og frambærilegum leiksýningum fyrir börn. Sárafáar óperusýningar eru framleiddar með yngri áhorfendur fyrir augum, en Töfraheimur Prakkarans var þar kærkominn viðburður.

DSCF1851

Barnslæg leikgleði og snjallar leikstjórnarlausnir voru vafalaust helsti styrkur sýningarinnar.

Falleg og frambærileg óperusýning fyrir börn á öllum aldri. Leikstjórn var hugvitssöm og snjöll og myndi sýningin sóma sér vel á einni af opnu senum landsins, ef um fleiri sýningar væri að ræða. Tónlistarstjórn var til fyrirmyndar og sló aldrei feilnótu, eftir eyra gagnrýnanda.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone