Trúir þú á álfasögur? Mórún – Í skugga Skrattakolls

kapa

 

 

Það hefur orðið vitundarvakning í íslenskri fantasíuritun á undanförnum árum. Davíð Þór Jónsson hefur átt sinn þátt í því og í ár hóf hann ritun nýrrar fantasískrar ritraðar um álfinn Mórúnu. Bókin er flokkuð sem ungmennabók í Bókatíðindum og á kápu hennar stendur að hún sé fyrir alla fantasíuunnendur en ekki síst ungmenni. Þetta knýr fram umræðu um skilgreininguna á hugtakinu ungmennabók (e. young adult literature) vegna þess að söguhetjan Mórún er þrítug. Fræðimenn eru ekki á eitt sáttir um þessa skilgreiningu enda eru margar slíkar til. Efri mörk ungmennanna eru oft (en ekki alltaf) sett við 25 ár og neðri mörkin eru oft (en ekki alltaf) á milli 13 og 18 ára. Barna-, unglinga- og ungmennabækur eru oft skilgreindar út frá lesendahópi þeirra. Getur aðalpersóna ungmennabókar verið talsvert eldri en markhópurinn? Engin einhlít svör eru við þessari spurningu en umræðan er áhugaverð og spurningin þörf.

 

Orðaperrar og fríðleikspiltar

Mórún er hermaður sem vinnur við friðargæslu og hundleiðist eftir að stríðinu lýkur. Henni er boðið starf við að rannsaka öryggismál á svæði þar sem gereyðingarvopn eru geymd. Hún ferðast þangað og kynnist samstarfsfólki sínu. Þessi bók er að mörgu leyti fantasísk sakamálasaga með fremur hefðbundinni rannsókn en í óhefðbundnum aðstæðum, þar sem rannsókn málsins er í forgrunni.

Fantasíuheimurinn er vel skapaður þó lesandinn gæti fundið fyrir of miklum útskýringum á stöku stað, þar sem verið er að koma heiminum og aðstæðum hans á framfæri við lesendur. Þetta er ekki alveg nógu fimlega gert en kemur ekki mjög að sök. Við sögu koma álfar og tröll, svartálfar, nornir og drekar.

Davíð Þór

Davíð Þór

Atburðarásin er afar spennandi og höfundur nýtir sér form fantasíunnar með tilheyrandi klisjum. Þetta gengur vel upp. Persónusköpunin er sannfærandi og það má sérstaklega taka fram að allir helstu gerendur sögunnar eru konur. Einungis þrjár persónur eru karlkyns og engin þeirra er mikilvæg framvindunni. Í frásögninni er aldrei minnst á þetta og engin umræða fer fram um þetta, en þetta er mjög áhugaverð þróun, ekki síst þar sem höfundur setur þetta fram eins og þetta sé eðlilegasti hlutur í heimi en allir lesendur fantasískra bókmennta vita að svo er ekki. Með nokkurri bjartsýni má ímynda sér að hér sé á ferðinni upphaf meðvitaðrar kynjaumræðu í íslenskum ungmennabókmenntum.

 

Bókin er skrifuð á svo fallegu máli að unun er að lesa. Hér fá orðaperrar fegurð fyrir allan peninginn, eins og höfundar er von og vísa. Textinn er auðugur af orðaforða og þó hann verði uppskrúfaður á stöku stað (notkunin á orðinu „fríðleikspiltur“ var heldur mikið af því góða) er frábært að sjá frásögn sem byggir á hraðri framvindu og mikilli spennu skrifaðan svona vel.

Mórún – Í skugga Skrattakolls er skemmtileg, spennandi og afskaplega vel skrifuð bók sem fantasíuunnendur mega una sáttir við.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone