Typpalykt og sveitadaunn

20151023-233932

Síðastliðna helgi fór fram Reykjavík Comedy Festival. Hátíðin var haldin á vegum Senu í samstarfi við Europe Comedy Fest. Ýmis þekkt erlend nöfn úr uppistandsbransanum komu fram í Hörpu auk valinna íslenskra grínista. En áður en Dylan Moran, Ben Kronberg , Daniel Sloss og fleiri góðir uppistandarar áttu sína kvöldstund við sundin blá, fengu nokkrir misreyndir nýgræðingar tækifæri á að sýna sig og sanna. Kynnir kvöldsins var Jóhannes Haukur Jóhannesson og þau sem stigu á svið voru Ármann Árnason, Konráð Gottliebsson, Stefán Ingi Stefánsson, Theodór Ingi Ólafsson, Karen Björg Þorsteinsdóttir, Ólafur Þór Jóelsson, Helgi Steinar Gunnlaugsson og Gísli Jóhann.

Jóhannes Haukur

Orðið er laust var yfirskriftin og vísar til open mic fyrirbærisins sem er vel þekkt í grínheiminum. Margir vinsælir uppistandarar hófu sinn feril á slíkum viðburðum. Í menningarborgum hins vestræna heims eru slík kvöld gjarnan haldin á dimmum börum, jafnvel í bakherbergjum. Sú umgjörð hentar afskaplega vel, væntingarnar eru í samræmi við það, gestir vita að sum atriðin verða fyndin en önnur verða pínleg. Með þeim allra verstu má þá alltaf staupa sig með vínanda í sterkari kantinum.

Harpa er ekki slíkur vettvangur. Í Hörpu fara góðborgarar landsins á fokdýra jólatónleika í sparifötum og ráðstefnur um jafnrétti. Sé áhorfandinn ekki kominn til að hlýða á vin eða kunningja ætlast hann til að sér sé skemmt, að atriðin séu í það minnsta brosleg og meirihlutinn nokkuð góður – í það minnsta. Það var mikið hlegið á galsakvöldinu en eins og gengur og gerist voru sumir fyndnari en aðrir. Sumir þátttakandanna eiga framtíðina fyrir sér í uppistandi meðan aðrir ættu að vera ánægðir með að hafa reynt sig við formið en snúa sér svo að öðrum verkum.

Pínleg fyndni eða góð framsetning

Til þess að uppistandari sé fyndinn þarf áhorfandinn fyrst og fremst að tengja við hann. Uppistandarinn þarf, með öðrum orðum, að vera sympatískur. Hann þarf að vinna trúnað áhorfenda. Það skiptir því ekki öllu máli að brandararnir komi á færibandi. Mikilvægara er að uppbyggingin sé góð, framsetningin og tímasetningin rétt. Annars geta hárbeittir og góðir brandarar orðið pínlegir og, eins og kaninn segir, „politically incorrect“. Kynnir kvöldsins, Jóhannes Haukur, er góður í þessu. Hann stóð sig með prýði, var bæði fyndinn og sjarmerandi, fagmannlegur fram í fingurgóma.

Þetta er erfitt að gera á open mic kvöldi þar sem uppistandarinn fær ekki nema um fimm mínútur á sviði. Það er stuttur tími til að byggja upp langan og góðan brandara og þrusa honum í höfn. Uppistand getur þannig verið miðill fyrir beitta samfélagsádeilu þar sem brandarinn kemur til skila ákveðnum viðhorfum. Óreyndari uppistöndurum gengur þetta misvel. Þá getur verið gott að grípa til stuttra fimmaurabrandara (e. one-liners), brandara sem áhorfandi getur samstundis hlegið að. Ármann Árnason, sem fyrstur steig á svið, gerði þetta mjög vel. Framsetningin var látlaus en áhrifarík og fimmaurabrandararnir, sumir hverjir á jaðri þess að vera ósmekklegir en meðvitund uppistandrans gerði þá fyndna fremur en pínlega. Helgi Steinar er nokkuð reyndur í uppistandi enda tókst honum að finna línuna milli þess stutta tíma sem hann hafði og markhópsins. Brandararnir um LÍN voru t.a.m. mjög fyndnir (þykir þessum námsmanni í það minnsta). Gísli Jóhann er einnig skemmtikraftur með reynslu, en hann hefur staðið að open mic kvöldum á Gauknum. Hann var afslappaður á sviðinu og sagði einu fyndnu typpabrandara kvöldsins. Og það var nóg af þeim.

Til þess að uppistandari sé fyndinn þarf áhorfandinn fyrst og fremst að tengja við hann. Uppistandarinn þarf, með öðrum orðum, að vera sympatískur. Hann þarf að vinna trúnað áhorfenda. Það skiptir því ekki öllu máli að brandararnir komi á færibandi.

Sjálfsfróun og typpi getur verið mjög fyndið efni, en ekki tókst öðrum eins vel upp með það. Reyndar var typpabrandaraflóð Konráðs talsvert fyndara en löng og nánast hysterísk útlistun á því hversu lengi hann trúði á jólasveininn. Það var ekki fyndið og það var ekki fyndið vegna þess hversu mikilvægt það er fyrir brandarana að vera trúverðugir. Annað sérstaklega óþægilegt augnablik var þegar Theodór Ingi, viðkunnalegur sveitakarl að norðan, útskýrði í löngu máli hvernig sæðingar á kúm fara fram. Ólafur Þór, eða „Óli í game tv“, eins og hann sagði áhorfendum kokhraustur, fór yfir einhver mörk þegar aðalbrandaraefnið var „þegar þú missir sápu í sturtu ertu eiginlega að biðja um það“. Hann var samt að mörgu leyti fyndinn, með góða líkamstjáningu og tímasetningu en mætti hugsa aðeins um þessa línu milli þess sem er „fyndið á mörkunum“ og bara hreint út sagt ósmekklegt. Brandarar af þessum toga eru bara fyndnir þegar ádeilan er skýr en hana vantaði algjörlega. Karen Björg, eina konan sem steig á svið, var talsvert fyndnari þegar hún lýsti reynslu sinni af því að vera í G-streng í ræktinni en þegar hún sagði brandara um „allt, allt of feitan“ föður sinn. Henni tókst ekki að byggja upp þennan trúnað við salinn sem gerði það að verkum að þó það væri nokkuð fyndið að pabbi hennar hafi haldið að Pole-fitness væri það sama og að ganga á Suðurpólinn virkaði brandarinn ekki trúlegur. Bjartasta vonin er Stefán Ingi Stefánsson. Hann er 23 ára gamall og vinnur á elliheimili. Efnistökin voru sótt í reynslu hans, bæði úr vinnunni og viðbrögðum samfélagsins. Það var auðvelt að tengja við hann og raddbeiting og líkamstjáning alveg til fyrirmyndar.

20151024-000548-2

Gísli Jóhann

20151023-231156

Jóhannes Haukur

Hvað er fyndið?

Fyndni er hugmynd á sama hátt og fegurð er hugmynd. Það sem þykir fyndið á einum tíma þykir ekki fyndið seinna, það sem er fyndið á Íslandi er ekkert endilega fyndið í Englandi. Húmor er mótaður af samfélaginu og hópum innan samfélagsins, flestir kannast t.a.m. við brandara sem þykja eingöngu fyndnir innan vinahópsins. Uppistand lýtur hins vegar ákveðnum lögmálum eins og önnur listform. Uppistandarinn þarf að þekkja sinn markhóp, lesa í aðstæður og stemmningu. Hann þarf að kunna að stýra áhorfendum og dansa á línu þess almenna og þess einstaka. Þannig vinnur hann innan formsins en skapar sér samtímis sína sérstöðu. Það er ekki bara nóg að þykja fyndnasti vinurinn í hópnum, það eitt og sér tryggir þér ekki velvilja áhorfanda og þýðir ekki að viðkomandi sé efni í uppistandara. Þau sem fram komu á Orðið er laust falla nokkuð jafnt beggja megin þilja, eins og við var að búast. Sumir ættu frekar að halda sig við að vera fyndnasti vinurinn í hópnum meðan ég vona að aðrir haldi áfram að reyna sig við formið.

10404237_10152807471826285_645573285675514883_n

Áhorfendur á Reykjavik Comedy Festival 2015

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone